Nissan Leaf söluhæsti rafbíll Evrópu árið 2014

Nissan Leaf seldist í 14.650 eintökum árið 2014, sem jafngildir 33% söluaukningu milli ára. Markaðshlutdeild Leaf nam ríflega fjórðungi, en alls seldust 56.000 rafbílar í Evrópu. Þá var Renault Zoe annar söluhæsti rafbíllinn í Evrópu árið 2014, með 11.227 eintök og Tesla Model S seldist í 8.734 eintökum. Sölu- og markaðsstjóri Nissan, Guillaume Carter, þakkar þetta aukinni vitundarvakningu hvað varðar sparnað í rekstrarkostnaði rafbíla í samanburði við bíla sem nota jarðefnaeldsneyti.

Sjá nánar á Evrópuvef Nissan.

Tveir af hverjum þremur rafhleðslustaurum í London ónotaðir

905 hleðslustaura fyrir rafbíla er að finna víðs vegar um London. Að sögn talsmanns breska bíleigendafélagsins RAC voru einungis 36% þeirra notaðir í júní 2014 og um fjórðungur notaður í júní mánuði árið áður. Hins vegar var rafbílum stungið í samband 2234 sinnum í júní 2013 en 4678 sinnum í sama mánuði 2014 og þykja þessar tölur endurspegla fjölgun rafbíla í borginni.

Sjá nánar í frétt mbl.is

1500 Mirai vetnisbílar seldir

Frá því Toyota kynnti Mirai vetnisbíl sinn um miðjan nóvember síðasta árs hafa pantanir fyrir 1500 bíla borist. Meirihluti þeirra, eða 60%, er frá ríkisstofnunum og fyrirtækjum. Viðbrögðin fara fram úr björtustu vonum Toyota manna, sem höfðu áætlað að seldir yrðu 400 bílar á árinu 2015.

Sjá frétt á mbl.is og Wall Street Journal

Nýr Volt kynntur

General Motors kynnti nýja kynslóð tengiltvinnbílsins Chevrolet Volt á bílasýningunni í Detroit í síðustu viku. Drægi hans er 80 km á rafhleðslu en með fullan bensíntank og hleðslu ekur nýr Volt 650 km sem svarar til 5,8 lítra á hverja 100 km.

Sjá nánar í frétt mbl.is og Chevrolet.

Ólympíuþorp verði fyrsta vetnisþorpið

Borgarstjórn Tokýó hefur áætlanir um að gera Ólympíuþorpið, aðsetur íþróttafólks á ÓL í Japan árið 2020, að nokkurs konar vetnisþorpi, þar sem rafmagn og heitt vatn verði fengið úr vetnisorku. Þetta verður stærsta tilraunaverkefni með vetnisorku til þessa en vetni er afar mikilvægur fulltrúi næstu kynslóðar orkugjafa samkvæmt orkustefnu stjórnvalda fram til ársins 2030.

Sjá nánar í frétt Japan News.

Kynningardagur Smart, Green and Integrated Transport Challenge

Stjórnarsvið rannsókna og nýsköpunar og stjórnarsvið samgöngu- og flutningamála Evrópusambandsins standa fyrir kynningardegi Smart, Green and Integrated Transport Challenge þann 2. febrúar næstkomandi. Þar gefst áhugasömum tækifæri til að kynna sér auglýsingar eftir tillögum fyrir Smart, Green and Integrated Transport Challenge. Verkefnið, sem heyrir undir Horizon 2020, rammaáætlun ESB um rannsóknir og nýsköpun, miðar að því að auka samkeppnishæfni evrópska samgönguiðnaðarins og þróa samgöngukerfi sem nýtir auðlindir skynsamlega og þjónar bæði hagsmunum almennings og samfélagsins í heild á öruggan og umhverfisvænan hátt.

Nánari upplýsingar um kynninguna og skráningu má finna hér.

Fyrir áhugasama sem ekki sjá sér fært að taka þátt verður helstu kynningum streymt beint á heimasíðu verkefnisins.