Ráðstefna1.-2. sept: Nordic Electric Bus Initiatives

1.-2. september næstkomandi verður haldin málstofa um þróun rafmagnsstrætisvagna í Lindholmen vísindagarði í Gautaborg. Það eru Swedish Forum for transport innovation og Nordic Energy Research sem standa að málstofunni. Markmið hennar er að efla tengsl á milli  framleiðenda, háskólasamfélagsins og þeirra sem koma að samgöngumálum,  miðla þekkingu og ræða möguleika og hindranir til rafvæðingar strætisvagna í almenningssamgöngum.

Þátttaka er ókeypis. Dagskrá og nánari upplýsingar er að finna hér og hér.

Allir nýir bílar verði kolefnisfríir árið 2025 í Noregi

Allir nýir bílar skulu vera kolefnisfríir frá árinu 2025; þetta er einn liður í viðleitni Oslóborgar til þess að draga úr útblæstri gróðuhúsalofttegunda. Þetta kom fram í ræðu Ola Elvestuen, norsks þingmanns, á EV Roadmap 8 ráðstefnu í Portland í Bandaríkjunum í liðinni viku. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti í lok árs 2014 markmið um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda um 40% miðað við árið 1990 fyrir 2030. Þar sem 97% norskrar raforku er nú þegar framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum (vatnsorku) þarf að horfa til samgangna til að minnka kolefnisútblástur. Á meðal markmiða Oslóborgar eru:

  • faratæki til almenningssamgangna noti vistvæna orkugjafa (kolefnislausa) fyrir 2020
  • leigubifreiðar noti eingöngu hreina orku fyrir 2022
Til þess að ná þessum markmiðum hefur norska ríkisstjórnin sett ýmsar ívilnanir vegna rafbíla, sem hafa borið árangur en í dag eru rafbílar í Noregi rúmlega 66.000.
Nánar um fréttina hér.

Drægni Volt eykst um 40%

Ný kynslóð tvinnbílsins Chevrolet Volt mun búa yfir drægni allt að 85 km á rafmagninu einu og er það 40% meira en fyrr gerð bílsins. Við tekur bensínvél sem framleiðir rafmagn þegar hleðslan á liþíum rafhlöðunni klárast. Eigendur Volt komast því allra sinna ferða án þess að óttast að verða rafmagnslausir.

Sjá nánar í frétt á visir.is.

Ford rafbílaeigendur ánægðir með sína bíla

Ford lét nýverið gera könnun meðal tíu þúsund viðskiptavina sem keypt höfðu rafbíl eða tvinnbíl frá fyrirtækinu. Þar kom fram að 9 af hverjum 10 hyggist ekki kaupa bíl sem knúinn er jarðefnaeldsneyti aftur, eða 92% rafbílaeigenda og 94% tvinnbíleigenda. Þátttakendur nefndu helst jákvæða akstursupplifun og jákvætt mat á vistvænni tækni sem ástæður fyrir þessari ákvörðun.

Sjá nánar í umfjöllun CleanTechnica og hér.

Málþing um oxun metans næstkomandi föstudag, 14. ágúst

Þann 14. ágúst næstkomandi munu EFLA verkfræðistofa og Samband íslenskra sveitarfélaga standa fyrir málþingi um oxun metans. Fjallað verður um meðhöndlun hauggass á nokkrum urðunarstöðum á Íslandi auk þess sem Alexandre Cabral mun kynna rannsóknir og aðferðir við oxun metans í Quebec í Kanada. Málþingið fer fram í húsakynnum Sorpu í Álfsnesi fyrir hádegi, 9-12.

Dagskrá má nálgast hér og skráning er ekki nauðsynleg.

Kort af staðsetningu málþingsins í Álfsnesi.

Stór vetnisstöð fyrirhuguð í San Fransisco

Bygging stærstu vetnisstöðvar heims er fyrirhuguð í San Fransisco innan fárra ára. Verkefnið, sem styrkt er bæði af hinu opinbera og einkaaðilum, miðar að því að reisa vetnisstöð sem þjónar farartækjum á landi og sjó. Framleiðslugeta hennar verður um 1500 kg vetnis á dag, en þar af mun ný vetnisferja þurfa tvo þriðju hluta þess magns.

Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna hér.