2 af hverjum 3 nýjum bílum í Noregi eru vistvænir bílar

Löngu er orðið ljóst að ívilnanir í Noregi fyrir vistvæna bíla hafa skilað árangri. Þar eru bifreiðar af þessu tagi undanþegar söluskatti, virðisaukaskatti og skráningargjöldum. Þar að auki greiða eigendur þeirra ekki fyrir bílastæði, ferjuferðir eða vega-, brúar- og gangnatolla. Nú í mars síðastliðnum voru tveir af hverjum þremur seldum nýjum bifreiðum í Noregi ýmist hreinir rafbílar eða tvinnbílar. Ívilnanir þessar eru liður í áætlun Norðmanna um að gera samgöngur á landi kolefnislausar fyrir árið 2025 og draga úr CO2 losun um 40% miðað við árið 1990. Margar þjóðir mættu taka þá sér til fyrirmyndar í stefnumyndum um orkuskipti í samgöngum.

Sjá nánar hér og frétt hér.

Kallað eftir umsóknum í Nordic Green Growth Research and Innovation Programme

Nordic Innovation, NordForsk og Nordic Energy Research kalla í sameiningu eftir styrkumsóknum í Nordic Green Growth Research and Innovation Programme. Styrkt verða verkefni sem heyra undir tveimur meginþemu:

  • Samfélagslegar breytingar sviðsmyndir framtíðar með áherslu á svæðisbundna sjálfbæra þróun
  • Hnattræn samkeppnishæfni, hvetjandi fjárfestingar og nýsköpun innan fyrirtækja í þróun grænna lausna á Norðurlöndum

Umsóknarfrestur er til 16. ágúst 2016 og hér má nálgast textann um kallið í heild sinni.

Nordic Electric Bus Initiatives 2, 11.-12. maí í Helsinki

11.-12. maí næstkomandi verður í Helsinki haldinn síðari hluti ráðstefnunnar Nordic Electric Bus Initiatives en fyrri hluti hennar fór fram í september 2015. Umfjöllunarefni ráðstefnunnar verða hvers kyns rafmagnsfarartæki til fólksflutninga, þar á meðal strætisvagnar og höfðar helst til opinberra starfsmanna á vegum sveitarfélaga, hafna og samgöngustofnana auk þeirra sem koma að framleiðslu faratækja og íhluta þeirra.

Sjá nánar um ráðstefnuna hér. Tekið er við skráningum hér til 30. apríl.

Team Spark afhjúpar nýjan kappakstursbíl

Team Spark afhjúpaði í vikunni nýjan kappakstursbíl sinn, TS16, sem liðið sendir til þátttöku í Formula Student. Þetta er sjötta skiptið sem liðið tekur þátt í keppninni og fimmti bíllinn sem gengur fyrir rafmagni. Græna orkan óskar liðsmönnum Team Spark hjartanlega til hamingju með þennan flotta bíl!

Hér má sjá myndband frá formlegri afhjúpun TS16.

TS16 afhjúpaður við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands Mynd: Team Spark

 

New York fylki ívilnar rafbílum

Í fjárhagsáætlun New York fylkis fyrir fjárhagsárið 2016-7 er í fyrsta skiptið gert ráð fyrir ívilnunum vegna kaupa á rafbílum. Í boði er endurgreiðsla sem nemur allt að $2000 vegna kaupa á tvinnbílum og hreinorkubílum. Hingað til hefur ríkisstjórn fylkisins hvatt til uppbyggingar rafbílainnviða fyrir almenning en það hefur skilað litlum árangri. New York fylgir í kjölfar nágrannafylkjanna Connecticut, Delaware, Rhode Island og Massachusetts sem hafa ívilnað rafbílum um tíma.

Sjá nánar hér.

Vorfundur Landsnets 5. apríl 2016

Græna orkan vill vekja athygli á árlegum vorfundi Landsnets sem að þessu sinni verður haldinn 5. apríl á Hilton Reykjavík Nordica klukkan 9-11. Að þessu sinni verður fjallað um hlutverk raforku í tengslum við stöðu loftslagsmála á Íslandi og áskoranir varðandi þróun og uppbyggingu raforkuflutningskerfisins.

Sjá dagskrá og skráningarsíðu hér.

Heim