Hvað með rafhlöðu rafbílsins?

Rafhlaðan er dýrasti hluti rafbílsins en sá misskilningur virðist vera útbreiddur að fjárfesta þurfi í nýrri rafhlöðu á nokkurra ára fresti vegna þverrandi hleðslugetu. Gísli Gíslason hjá Even, sem selur Tesla bifreiðar, segir það af og frá. Stýring í rafhlöðu miði að því að hámarka endingartíma hennar, svo að eftir 8 ár hafi drægi bílsins ekki rýrnað meira en 10-20%. Þetta jafngildir því að drægi nýs bíls lækki úr 500 km í 420 km, sem er nokkuð meira en flestir ökumenn aka að jafnaði á dag.

Bæði Bjarni Ólafsson, sölumaður hjá BL, og Árni Þorsteinsson, sölustjóri VW hjá Heklu, taka í sama streng. Sé rétt hugsað um bílinn eigi geymslugeta rafhlöðunnar ekki að skerðast mikið á fyrstu tíu árum rafbílanna. Þetta kemur fram í grein á mbl.is.

Þegar rafhlöðunum er loks skipt fyrir nýjar, er ekki þar með sagt að þær séu til einskis nýtar. General Motors og Nissan hafa nú þegar fundið notagildi fyrir rafhlöður rafbíla sem hefur verið skipt út. Fimm rafhlöður úr Chevrolet Volt knýja t.a.m. ljósabúnað í gagnaveri GM í Michigan með rafmagni frá tveimur 2 kW vindtúrbínum og 74 kW röð sólarsella. Og Nissan mun, í samvinnu við Green Charge Networks, nýta rafhlöður úr Leaf bílum til staðbundinnar orkugeymslu víðs vegar um Bandaríkin og utan þeirra.

Sjá nánar hér.