Starfshópur um endurskoðun skattlagningar ökutækja óskar eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila

Starfshópur sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í febrúar sl. og vinnur að endurskoðun skattlagningar ökutækja og eldsneytis óskar eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila og annarra vegna áformanna. Endurskoðunin lýtur í meginatriðum að því að rannsaka núverandi fyrirkomulag og framkvæmd skattlagningar ökutækja og eldsneytis, leggja til breytingar á gildandi lögum og gera tillögu að framtíðarstefnu stjórnvalda í þessum efnum.  Sjá nánar hér í fréttatilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Í þessu samhengi er rétt að rifja upp að Græna orkan stóð fyrir vinnustofu um gjaldtöku í samgöngum síðastliðið haust. Vinnustofan hófst á fjórum örfyrirlestrum; um núverandi gjaldtöku í samgöngum á Íslandi, gjaldtöku á grundvelli notkunar, álagi ökutækja á vegakerfið og fjármögnun stærri framkvæmda. Í kjölfarið var þátttakendum skipt í þrjá umræðuhópa sem ræddu álitaefni með eftirfarandi yfirskrift: (1) Skattlagning dísilolíu með hliðsjón af VW-hneykslinu. Er þörf á breyttum áherslum? (2) Mörkun skatttekna til gerðar og reksturs samgöngumannvirkja og breytingar sem verða með nýjum lögum um opinber fjármál. (3) Mikilvægi fjarskipta fyrir gjaldtöku framtíðar – GPS og upplýsingamiðlun, aðferðir.

Helstu umræðuatriði og niðurstöður hópanna voru eftirfarandi:
VW-hneykslið:

  • Að VW-hneykslið sem slíkt kallaði enn sem komið væri ekki á lagabreytingar.
  • Að með skattlagningu á NOx í útblæstri bifreiða kynni einfaldleika í skattkerfinu að verða fórnað.

Mörkun skatttekna:

  • Að mörkun skatttekna til uppbyggingar og viðhalds innviða vegakerfisins væri ekki aðalatriði heldur gagnsæi, þ.e. að borgarinn gæti áttað sig á fjárþörf viðhalds og uppbyggingar á hverjum tíma og hve miklum fjármunum væri í raun eytt í slík verkefni.
  • Að rétt væri að taka til skoðunar hvort tekjur af koltvísýringsgjöldum ættu að renna beint til uppbyggingar og viðhalds samgönguinnviða.

Fjarskipti – notkunargjöld:

  • Að það væri sanngjarnt og eðlilegt að innheimta gjöld miðað við raunverulega notkun samgönguinnviða.
  • Að kerfisbreyting í átt að gjaldlagningu miðað við raunverulega notkun væri í raun óhjákvæmileg og í samræmi við forsendur samgönguáætlunar.
  • Að þróun og prófunum mælibúnaðar vegna notkunargjalda væri ekki að fullu lokið.
  • Að rétt væri að taka til skoðunar hvort mögulegt væri að innheimta notkunargjöld á grundvelli upplýsingagjafar við gerð skattframtals.

Gjöld og skattar á ökutæki og eldsneyti almennt:

  • Að taka ætti til skoðunar hvort rétt væri að láta gjaldtöku ná til almenningssamgagna þar sem farþegar væru í raun að nýta samgönguinnviði með svipuðum hætti og aðrir.
  • Að tengja þyrfti skattbyrði með nánari hætti við áhrif ökutækisins á innviði, einkum með tilliti til þyngdar ökutækja.
  • Að taka þyrfti tillit til heildarlífsferlis íblöndunarefna í jarðefnaeldsneyti við ákvörðun kolefnisgjalda á eldsneyti.

Græna orkan hvetur hagsmunaaðila til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við starfshópinn. Erindi skulu send ráðuneytinu skriflega eða með tölvupósti til postur@fjr.is í síðasta lagi mánudaginn 4. apríl.