Um Grænu orkuna

Erindisbréf verkefnisstjórnar Grænu orkunnar – vistorku í samgöngum frá 2011

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir m.a.: „Mótuð verði heildstæð orkustefna sem miði að því að endurnýjanlegir orkgjafar leysi innflutta orku af hólmi.“ Þá er áhersla lögð á metnaðarfull markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Megnið af þeim hluta frumorkuþarfar Íslands sem mætt er með innfluttu kolefnaeldsneyti er vegna samgangna og sjávarútvegs. Þar liggja því sóknarfærin í að skipta innfluttum orkugjöfum út fyrir innlenda visthæfa orku. Stýrihópur um mótun heildstæðrar orkustefnu er að störfum en verkefni um átak í orkuskiptum í samgöngum er afmarkað og vel til þess fallið að vinna samhliða. Undirbúningshópur á vegum iðnaðarráðherra hefur unnið að undirbúningi áætlunar um orkuskipti í samgöngum sem fengið hefur nafnið Græna orkan – vistorka í samgöngum. Vistorka leggur til verkefnisstjóra en haft hefur verið samráð við ýmsa aðila við undirbúninginn.

Markmið Grænu orkunnar:

  •   Tengja saman þá fjölmörgu aðila sem fást við orkuskipti í samgöngum
  •   Gera sýnileg undir einu merki þau stóru og smáu skref sem stigin eru til að auka hlut visthæfra innlendra orkugjafa í samgöngum
  •   Skipuleggja og skapa samstöðu um lykilaðgerðir sem grípa þarf til svo áætlun um orkuskipti verði að veruleika
  •   Efla þekkingaruppbyggingu, menntun og fræðslu
  •   Hvetja til rannsókna, nýsköpunar og vöruþróunar sem tengist visthæfu eldsneyti
  •   Halda Íslandi í hópi leiðandi ríkja við notkun á vistvænu eldsneyti í samgöngum
  •   Gera Ísland að ákjósanlegum vettvangi til að reyna ýmsar nýjungar í visthæfum samgöngum og laða þannig að þekkingu, tækni og fjármagn
  •   Auka þátt visthæfs eldsneytis og orkuskipta í atvinnuþróun og nýsköpun hér á landi

Ef þú hefur spurningar varðandi starfsemi Grænu orkunnar eða vilt hafa samband við okkur, sendu tölvupóst til skulason@newenergy.is.

Leave a Reply