Fundur Grænu orkunnar – samantekt og fyrirlestrar

Í gær var fundur Grænu orkunnar haldinn í Orkugarði, Grensásvegi 9, dagskrá má finna hér.

Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra ávarpaði samkomuna og fór yfir sögu samtakanna og lagði m.a. áherslu á mikilvægi innlends eldsneytis fyrir samgöngur. Hún lýsti auk þess yfir samstarfi Grænu orkunnar og hvatti til þess að því yrði haldið áfram.

Eftir ávarp ráðherra voru haldnir sex áhugaverðir fyrirlestrar frá aðilum úr Grænu Orkunni og má nálgast þá hér fyrir neðan:

  1. Ásdís Gíslason hjá OR „Hraðhleðslustöðva-verkefni“
  2. Bjarni Hjarðar hjá SORPU „Undirbúningur gas- og Jarðgerðarstöðvar“
  3. Guðrún Lilja Kristinsdóttir hjá Íslenskri NýOrku „Kynning á Orkureikni bílaflota“
  4. Ólafur Bjarnason hjá Reykjavíkurborg „Aukinn hlutur rafvæddra samgangna í Reykjavík – Aðgerðaráætlun“
  5. Ragnheiður Björk Halldórsdóttir og Þórarinn Már Kristjánsson hjá HÍ „Rafknúinn kappakstursbíll Team Spark“
  6. Valur Ægisson hjá LV: „Landsvirkjun og orkuskipti í samgöngum“
Jón Börn Skúlason, verkefnisstjóri Grænu orkunnar, kynnti aðgerðaráætlun Horizon 2020 og kynnti þar þá 10 flokka sem vinnuáætlunin skiptist í. Vekja skal athygli á þeim styrkjamöguleikum sem þar finnast og opnar fyrsta umsóknarkallið þann 11. desember næstkomandi.
Að lokum fór Bryndís Skúladóttir, formaður stjórnar Grænu orkunnar, yfir uppfærða aðgerðaráætlun samtakanna sem stjórnin hefur unnið að undanfarna mánuði.
Í umræðum var farið yfir hvort víkka ætti starfsvettvang Grænu orkunnar og taka einnig fyrir málefni skipaflotans. Einnig var rætt um hvort aðrar samgöngur, svo sem hjól og almenningssamgöngur ættu erindi í samtökin.
Ljóst er að styrkur ríkisins til að reka Grænu orkunamun renna út á næsta ári og því var þeirri spurningu velt upp hvort taka ætti upp félagagjöld og með hvaða hætti sú gjaldtaka færi fram.
Við í verkefnastjórninni hlökkum til að sjá ykkur á nýju ári og hvetjum ykkur til að senda inn fréttir til að setja inná heimasíðuna.

Fundur Grænu Orkunnar 3.des 2013

Félagafundur Grænu orkunnar fer fram á morgun 15:00 – 17:15 og verður fundurinn haldinn í húsakynnum Orkugarðs, Grensásvegi 9 frá 15:00-17:15

Á fundinum mun Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra ávarpa samkomuna og greina frá stefnu stjórnvalda í þessum málaflokki. Á fundinum verður einnig kynning á Horizon 2020 og uppfærðri aðgerðaráætlun samtakanna auk þess sem 6 meðlimir flytja örfyrirlestra.

 Sjá dagskrá hér.

 

Endurnýjanlegt eldsneyti – íblöndun

Frá stjórn Grænu orkunnar

Um áramót taka gildi lög um sölu á endurnýjanlegu eldsneyti í samgöngur. Lögin fela í sér þau nýmæli að lögð er sú skylda á söluaðila eldsneytis hér á landi að minnst 3,5% orkusölunnar verði af endurnýjanlegum uppruna frá og með árinu 2014. Ári síðar hækkar þessi hlutur í 5%. Söluaðilum er frjálst að velja hvaða eldsneytistegundir þeir hafa í boði, hvort um er að ræða hreint endurnýjanlegt eldsneyti, t.d. metan eða lífdísil, eða jarðefnaeldsneyti blandað með endurnýjanlegu eldsneyti, t.d. etanól eða metanól.

Græna orkan mótaði orkuskipta áætlun á sínum tíma þar sem ein af aðgerðunum var að kanna möguleika á fyrrgreindri lagasetningu.  Orkuskiptaáætlun var lögð fram á þingi í febrúar 2012 af iðnaðarráðherra.  Græna orkan kom einnig að samráðsferlinu áður en fyrrgreind lagasetning fór fram, sem skilaði sér í því að ágæt sátt var um frumvarpið þegar það skilaði sér inn á Alþingi.

Orkuskipti í samgöngum eru þegar hafin. Íblöndun í hefðbundið eldsneyti er nú þegar í boði og bæði metan og rafmagn er sett á bifreiðar á hverjum degi. Þessi þróun er komin enn lengra í nágrannalöndum okkar og njótum við góðs af því að læra af þeirra reynslu. Engin ástæða er til að ætla að aðrar reglur eða frekari bönn þurfi að gilda hérlendis. Öll lagaumgjörð og reglur um geymslu, notkun og meðferð eldsneytisins hérlendis er í samræmi við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum. Engar breytingar þarf að gera á reglugerð um gæði eldsneytis fyrir íblöndun þar sem íslenskar og evrópskar reglur eru þær sömu og heimila þegar blöndun innan ákveðinna marka. Hérlendis er unnið með grunneldsneyti og íblöndunarefni sem eru þegar þekkt og blandað er eftir staðli sem hefur verið í gildi hér á landi um langt skeið.

Endurnýjanlegt eldsneyti er enn sem komið er dýrara en hefðbundið eldsneyti. Miklar framfarir eru í þróun á framleiðslutækni og það er ekki ólíklegt að verðið lækki á næstu árum. Til að auðvelda innkomu nýs eldsneytis á markaðinn er farin sú leið hérlendis, líkt í löndunum í kringum okkur, að styðja við framleiðslu eða markaðssetningu með skattívilnunum. Hér á Íslandi eru við svo lánsöm að raforka er framleidd með afar hagkvæmum endurnýjanlegum orkugjöfum. Þetta er sérstök staða því í öðrum löndum er endurnýjanleg raforka talsvert dýrari en orka framleidd með olíu og kolum. Stuðningur við endurnýjanlega orku er því nokkuð útbreiddur í heiminum þó hér komi þetta fólki á óvart.

Hlutfall innlendra orkugjafa til samgangna er lítill hluti alls eldsneytis enn sem komið er. Nokkur fyrirtæki hafa orðið til á undanförnum árum sem vinna að framleiðslu metans, metanóls, lífdísils og vetnis. Einnig er væntanleg fjölgun hraðhleðslustöðva fyrir rafmagnsbíla. Bæði er unnið eldsneyti úr úrgangi og útblæstri en einnig er unnið að framleiðslu eldsneytis úr þörungum. Þannig er framleiðslan notuð til að minnka umhverfisvandamál á öðrum sviðum, þ.e. að vinna úr úrgangi og útblæstri. Ef vel er stutt við greinina má vænta talsverðrar aukningar á innlendu eldsneyti á næstu árum. Það skapar atvinnu og tekjur og innflutningur eldsneytis minnkar að sama skapi. Góðir hlutir taka tíma og þó magn innlends eldsneytis sé ekki mikið í dag eru vaxtarmöguleikarnir miklir.

Reglur um íblöndun endurnýjanlegs eldsneytis í bensín og dísil hafa verið til staðar í öllum nágrannaríkjunum og í Norður Ameríku um nokkurra ára skeið.  Þegar eru notaðir um 20 milljarðar lítra af endurnýjanlegu eldsneyti í Evrópu og um 30 milljarðar lítra í Bandaríkjunum, sem nemur um 5% heildarorkuþarfarinnar í samgöngum.

Reynsla annarra þjóða sýnir að nýjar eldsneytistegundir koma ekki niður á gæðum eða kostnaði við akstur. Reynslan sýnir að breytingarnar hafa lítil áhrif á daglegt líf, en áhrifin skila sér í minni losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum, fjölbreyttara úrvali eldsneytis, meiri innlendri framleiðslu og því meira orkuöryggi.

Evrópusambandið hefur sett markmið um að hlutur endurnýjanlegrar orku í heild verði 20% árið 2020. Markmið ESB er meðaltal fyrir öll aðildarríkin. Í framhaldi af þessari ákvörðun voru gefin út landsmarkmið sem tóku mið af stöðu og möguleikum hvers lands. Þau liggja á bilinu 10 – 49% fyrir einstök lönd, Ísland og Noregur tróna efst með markið um að ná 72% fyrir Ísland og 68% fyrir Noreg Löndin hafa einnig sett markmið um að endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum verði 10% árið 2020. Lögin sem taka gildi um áramót eru skref í þá átt að ná því markmiði. Það að 10% eldsneytis sé af endurnýjanlegum uppruna í samgöngum er sjálfstætt markmið, og Ísland er nú í um tæpu 1,0% en mörg  nágrannaríki okkar  eru komin upp fyrir 5% og sum í 10%.

f.h. stjórnar Grænu Orkunnar

Bryndís Skúladóttir

Formaður

Energy and Transport – lokaráðstefna

Prógrammið Energy and Transport heldur sína lokaráðstefnu 6. febrúar næstkomandi í Stokkhólmi, Svíþjóð.

Markmið ráðstefnunnar er að kynna niðurstöður þeirra verkefna sem styrkt eru af prógramminu sem og að styrkja tengsl milli þátttakenda. Stefnt er að því að útkoma ráðstefnunnar verði notuð til framtíðarsýnar um vistvænar samgöngur á Norðurlöndunum.

Dagsetning: 6. febrúar 2014

Tími: 10:00-17:00

Staðsetning: IVAs Conference Center, Grev Turegatan 16, 114 46, Stokkhólmi, Svíþjóð.

Dagskrá verður tilbúin í Desember/Janúar þegar ljóst er hvaða verkefni munu kynna sínar niðurstöður.

Skráning hér.