Umsóknafrestur í Loftslagssjóð er 15. júní 2023

Opið er fyrir umsóknir um styrki til Loftslagssjóðs. Sjóðurinn styrkir verkefni sem draga úr losun eða hafa áhrif á samdrátt í losun.

Loftslagssjóður er sérstakur sjóður sem heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Hlutverk sjóðsins er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Styrkir til nýsköpunarverkefna eru ætlaðir m.a. til þess að styrkja rannsóknir og þróunarstarf í tengslum við aðlögun og innleiðingu á nýjum loftslagsvænum tæknilausnum og hönnun.

Sjá nánar á vef Rannís.

Skýrsla starfshóps um skatta og skattaívilnanir

Starfshópur sem unnið hefur að skoðun á sköttum og skattaívilnunum á sviði umhverfismála skilaði í febrúar skýrslu til fjármála- og efnahagsráðherra. Starfshópurinn hafði m.a. það hlutverk að fara yfir álagningu skatta og gjalda og skattaívilnanir, með tilliti til framkvæmdar.

Í skýrslu starfshópsins er að finna 9 tillögur ásamt mótvægisaðgerðum og hugmyndum að næstu skrefum vegna útfærslu og framkvæmd einstakra tillagna.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast á vefsíðu Stjórnarráðsins

Kveikur fjallar um rafbílavæðinguna

Rafbílar í hleðslu (mynd úr einkasafni)

Kveikur fjallar um rafbílavæðingu landsins í þætti sínum í vikunni. Þar er fjallað um málefnið út frá sjónarmiðum rafbílaeigenda, rekstraraðila hleðsluinnviða, orkufyrirtækja og fleiri aðila. Meðal þeirra sem leggja orð í belg, ásamt rafbílaeigendum, eru

Anna Margrét Kornelíusdóttir, Íslenskri Nýorku

Auður Alfa Ólafsdóttir, Alþýðusamband Íslands – ASÍ

Guðjón Hugberg Björnsson, Orka náttúrunnar

Hafrún Þorvaldsdóttir, e1

Kjartan Rolf Árnason, RARIK

Sigurður Ástgeirsson, Ísorka

Sigurður Ingi Friðleifsson, Orkustofnun

Steingrímur Birgisson, Bílaleiga Akureyrar / Europcar

Tómas Kristjánsson, Rafbílasamband Íslands

Þáttinn í heild sinni má sjá á vefsíðu Kveiks.

Kynning á styrkjum sem bjóðast á sviði umhverfis-, loftslags- og orkumála

Viðburðurinn Grænir styrkir verður haldinn á Grand Hótel 23. mars.

Grænvangur, Rannís, Orkustofnun, Festa miðstöð um sjálfbærni, Enterprise Europe Network og umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytið bjóða til styrkjamóts.

Stuttar kynningar á helstu sjóðum og styrkjatækifærum sem standa Íslendingum til boða á sviði umhverfis-, orku-, og loftslagsmála verða í bland við örsögur aðila sem hafa farsæla reynslu af því að sækja í sjóði vegna grænna verkefna.

Í kjölfar áhugaverðra og praktískra erinda tekur við Styrkjamót en þá geta þátttakendur bókað örfundi til að kynnast, fræðast og kanna möguleika á samstarfi í framtíðinni.

Dagskrá viðburðarins er að finna á vefsíðu hans en þar má einnig ganga frá skráningu til þátttöku.

Leiðir til að hraða orkuskiptum í flugi til skoðunar innan URN

Mynd frá Isavia

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp sem mun skoða og leggja fram tillögur að leiðum til að hraða orkuskiptum í flugi, með notkun endurnýjanlegs eldsneytis fyrir millilandaflug. Starfshópurinn á í störfum sínum að taka mið af stefnu stjórnvalda, sem og aðgerðaáætlunum um orkuskipti og í loftslagsmálum. 

Guðrún Hafsteinsdóttir alþingismaður er formaður hópsins. Að auki skipa starfshópinn:

  • Alexandra Kjærnested Arnarsdóttir, EES-sérfræðingur, tilnefnd af utanríkisráðuneytinu
  • Erla Sigríður Gestsdóttir, teymisstjóri orkumála í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu
  • Jón Ásgeir H. Þorvaldsson, verkefnisstjóri í orkuskiptum hjá Orkustofnun
  • Ingvi Már Pálsson, tilnefndur af menningar- og viðskiptaráðuneytinu
  • Orri Páll Jóhannsson, alþingismaður, tilnefndur af forsætisráðuneytinu
  • Valgerður B. Eggertsdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af innviðaráðuneytinu

Hefur þú notað vefinn orkuskiptaspa.is?

Orkustofnun kynnti nýjan vef www.orkuskiptaspa.is á viðburði í nóvember síðastliðnum.

Orkuskiptalíkanið á vefnum er gagnvirkt verkfæri til að móta áætlanagerð út frá stillanlegum forsendum sem geta rímað við markmið, stefnu og skuldbindingar Íslands í orku- og loftslagsmálum.

Þar má breyta hinum ýmsu forsendum og sjá, myndrænt, hvaða áhrif þær hafa á útkomuna, til dæmis hlutfall nýrra orkugjafa, losun ákveðinna samgönguþátta og svo framvegis.

Morgunverðarfundur Grænu orkunnar 14. desember

Í desember mánuði mun Evrópusambandið opna köll í svokölluðum klasa 5: málefnum sem snerta loftslag, orku og samgöngur. Um er að ræða afar viðamikil köll og með þeim stærstu á þessu sviði í sögu ESB.

Á morgunverðarfundi Grænu orkunnar 14. desember mun Kolbrún Bjargmundsdóttir sérfræðingur frá Rannís kynna tækifæri í umsóknum til Evrópusambandsins með sérstakri áherslu á samgöngur og þá jafnt á landi sem og á hafi, sem heyra undir klasa 5.

Við sama tækifæri mun Anna Margrét Kornelíusdóttir verkefnastjóri hjá Íslenskri Nýorku kynna niðurstöður úr könnun á meðal rafbílaeigenda sem gerð var sumarið 2022 fyrir ráðuneyti umhverfis, orku og loftslags .

Fundarstjóri verður Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar Nýorku.

Húsið opnar 8:30 með léttum morgunverði í Húsi atvinnulífsins en viðburðurinn verður 9:00-10:00. Einnig verður hægt að fylgjast með í streymi.

Opið fyrir umsóknir um styrki í Loftslagssjóð

Rannís

Auglýst hefur verið eftir umsóknum um styrki úr Loftslagssjóði RANNÍS.

Styrktegund er ein að þessu sinni og eru styrkir veittir til eins árs.Áhersla verður lögð á verkefni sem:

  • skila samdrætti í losun og stuðla að sjálfstæðu landsmarkmiði Íslands um að draga úr losun á beinni ábyrgð Íslands um 55% fyrir 2030.
  • hagnýta grunnþekkingu sem þegar er til staðar, hafa möguleika á að nýtast sem víðast í samfélaginu og beinast að aðilum sem hafa talsverða möguleika á að draga úr losun.

Umsóknarfrestur er til 6. desember 2022 kl. 15:00

Örfyrirlestrar Orkusjóðs 25. október 2022

Græna orkan og Orkustofnun kynntu nokkur verkefni Orkusjóðs á Nauthól í Reykjavík, þriðjudaginn 25. október kl. 13-15 en einnig var hægt að horfa á kynninguna í streymi.

Orkusjóður verkefnin 2022 – örfyrirlestrar

Græna orkan og Orkustofnun kynna nokkur verkefni Orkusjóðs á Nauthól, Nauthólsvegi 106, Reykjavík, þriðjudaginn 25. október kl. 13-15. Úthlutun styrkja árið 2022 var sú mesta frá upphafi og endurspeglar aukinn kraft stjórnvalda til orkuskipta. Verkefnin eru afar fjölbreytt og misstór og eru unnin í mismunandi starfsgreinum. Ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála setur fundinn. Kaffi verður á boðstólum og spjall mögulegt eftir að öllum kynningum er lokið. Þau sem vilja mæta á staðinn verða að skrá sig en einnig má horfa á kynninguna í streymi.

Posted by Orkustofnun on Tuesday, October 25, 2022

Úthlutun styrkja árið 2022 var sú mesta frá upphafi og endurspeglar aukinn kraft stjórnvalda til orkuskipta. Verkefnin eru afar fjölbreytt og misstór og eru unnin í mismunandi starfsgreinum. Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála setti fundinn og Anna Margrét Kornelíusdóttir var fundarstjóri.

Skráning fór fram hér.