Í nóvember síðastliðnum kynnti umhverfisráðherra sóknaráætlun ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum sem sett var fram í tengslum við COP21 í París, aðildarríkjafund Loftslagssamingsins. Áætlunin er til þriggja ára og byggir á sextán verkefnum sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, styðja alþjóðleg loftslagsverkefni og efla getu stjórnvalda til að standa við strangari skuldbindingar í loftslagsmálum.
Átta verkefni hafa það markmið að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og leggja stjórnvöld áherslu á samstarf stjórnvalda og atvinnulífs í flestum þessara áhersluverkefna. Stjórnvöld hafa kallað Grænu Orkuna til samstarfs vegna verkefnisins Orkuskipti í samgöngum. Skipaður hefur verið starfshópur á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Grænu orkunnar sem hefur hafið vinnslu tillagna að aðgerðum til ná markmiðum sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér um að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum nái 10% árið 2020. Starfshópurinn hefur undanfarna tvo mánuði fundað með hagsmunaaðilum tengdum samgöngum á landi, haftengdri starfsemi sem og flugsamgöngum, og boðar nú til samráðsfundar félaga Grænu Orkunnar.
Opinn samráðsfundur Grænu Orkunnar verður haldinn að Grensásvegi 9, 17. mars 2016, klukkan 9. Á fundinum mun vinnuhópur kynna drög að aðgerðaáætlun og í kjölfarið munu fara fram umræður. Hér gefst tækifæri fyrir félaga Grænu Orkunnar til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og eru félagar hvattir til þess að mæta og taka virkan þátt í umræðum.
Þátttaka er opin öllum félögum Grænu orkunnar og er ókeypis. Vinsamlega skráðu þig til þátttöku með tölvupósti í netfangið amk@newenergy.is