Talsmaður sjóðs sem Rockefeller fjölskyldan setti á fót um miðbik síðustu aldar hefur tilkynnt að sjóðurinn, The Rockefeller Family Fund, muni hætta fjárfestingum í iðnaði tengdum jarðefnaeldsneyti, þar á meðal í Exxon Mobil. Í tilkynningu frá sjóðnum segir að erfitt sé fyrir fyrirtæki að réttlæta frekari leit að nýjum uppsprettum jarðefnaeldsneytis, að nú sé mikilvægt að láta þær birgðir sem til eru ósnertar og snúa sér að öðrum orkugjöfum. Þetta er býsna áhugaverð stefnubreyting í ljósi þess að upphafsmaður Rockefeller auðæfanna, John D. Rockefeller, stofnaði Standard Oil, forvera Exxon Mobil, og auðgaðist gríðarlega á olíuvinnslu og -sölu.