Nýsköpunarverðlaun Samorku voru afhent í þriðja sinn á opnum fundi í Hörpu í dag og að þessu sinni hlaut Atmonia verðlaunin. Atmonia hefur þróað sjálfbæra tækni sem nýtir efnahvata fyrir rafefnafræðilega framleiðslu á ammoníaki fyrir áburð og rafeldsneyti. Þannig er ammoníakið eingöngu framleitt með andrúmslofti, vatni og rafmagni og losar framleiðslan þar með ekki gróðurhúsalofttegundir. Tæknin hentar auk þess vel til framleiðslu á eldsneyti þar sem framboð raforku er stopult eins og t.d. við vind- eða sólarorkuver. Við hlökkum til að fylgjast með frekari þróun Atmoniu og tæki þeirra og óskum þeim til hamingju með viðurkenninguna!