Í haust, dagana 2. – 3. október 2014, verður haldin á Íslandi alþjóðleg ráðstefna á vegum NorLCA. NorLCA er Norrænn samstarfsvettvangur um vistferilsgreiningar sem stofnaður var fyrir 10 árum. Yfirskrift ráðstefnunnar árið 2014 er:
„Áskoranir á sviði sjálfbærni – Norðlægar nálganir“
Í boði stendur að senda inn útdrátt fyrir erindi eða kynningu á ráðstefnuna og er lokafrestur til að skila inn útdráttum 1. ágúst 2014.
Búið er að opna fyrir skráningu á vefsíðu ráðstefnunnar (www.norlca.org)
Markmið ráðstefnunnar er að skapa öflugan þekkingargrunn, styrkja umræðuna um vistferilshugsun og örva þekkingartengsl á Norðurslóðum. Ráðstefnugestum gefst kostur á að sækja áhugaverða fyrirlestra, vinnustofur og markaðstorg, sem og umræðufundi og veggspjaldakynningar þar sem fjallað verður m.a. um:
Vistferilshugsun (Life Cycle thinking) • Vistferilsgreiningu (LCA) • Vistferilskostnaðargreiningu (LCC) • Vistspor • Sjálfbærnimat • Vistferilshugsun í stjórnun og stefnumótun • Miðlun vistferilshugsunar
með áherslu á eftirfarandi greinar þjóðlífsins:
· Orkumál
· Skipulag og byggingar
· Úrgangsmál
· Matvælaframleiðslu
· Fiskveiðar/fiskeldi
· Samgöngumál, flutningar og rafbílavæðingu
· Auðlindastjórnun á Norðurslóðum
· Menntun og læsi
Þeir aðilar sem standa að ráðstefnunni eru: EFLA verkfræðistofa, Landsnet, Landsvirkjun, Vistbyggðarráð, Háskóli Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Danmarks Tekniske Universitet (DTU)