Iðnaðarráðuneytið lánar ríkisstofnunum rafbíl

Iðnaðarráðuneytið mun nú á vormánuðum lána rafbíl af Mitsubishi MiEV gerð til þeirra ríkisstofnanna sem þess óska.

Um er að ræða rafbíl sem ráðuneytið keypti árið 2010 og notaði um skamma hríð. Undanfarið hefur rafbíllinn verið staðsettur á Akureyri þar sem hann hefur verið notaður til rannsókna af Orkusetri í samvinnu við Orkustofnun. Rafbíllinn er fjögurra manna og hefur um 60-70 km drægni á einni hleðslu.

Sjá fréttina í heild sinni hér.

Aðalfundur Grænu Orkunnar – ný stjórn kynnt

Aðalfundur Grænu Orkunnar var haldinn fimmtudaginn 3. Maí síðastliðinn.

Á fundinn mættu aðillar frá um 30 aðildarsamtökum auk áhugasamra einstaklinga.

Kosið var í nýja stjórn Grænu Orkunnar en alls voru 12 frambjóðendur frá einkageiranum.

Hér með er því ný stjórn kynnt:

Verkefnisstjóri

– Jón Björn Skúlason, Íslensk NýOrka

Fyrir hönd ríkisins

– Erla Sigríður Gestsdóttir, Iðnaðarráðuneytið

– Kolbeinn Marteinsson, Iðnaðarráðuneytið

– Þorsteinn R. Hermannsson, Innanríkisráðuneytið

– Ögmundur Hrafn Magnússon, Fjármálaráðuneytið

Fyrir hönd einkageirans

– Bryndís Skúladóttir, Samtök Iðnaðarins

– Magnús Ásgeirsson, Samtök verslunar og þjónustu

– Sverrir Viðar Hauksson, Bílgreinasambandið

– Teitur Gunnarsson, Mannvit

 

Við viljum auk þess benda áhugasömum á nýstofnaða síðu Grænu Orkunnar á facebook: http://www.facebook.com/graenaorkan

 

Aðalfundur Grænu Orkunnar 2012

 

Aðalfundur Grænu Orkunnar er boðaður þann 3. Maí næstkomandi.

Fundurinn verður haldinn í húsakynnum Orkugarðs, Grensásvegi 9 frá 15:00-17:00.

Frekari upplýsingar og dagskrá fundarins verður birt síðar.

 

 

Svona náum við markmiðunum!

Verkefnisstjórn Grænu orkunnar afhenti í dag skýrslu um það hvernig best verði staðið að orkuskiptum í samgöngum. Stjórnvöld hafa sett sér það markmið að árið 2020 komi 10% þeirrar orku sem notuð er í samgöngutækjum frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Þetta er metnaðarfullt markmið í ljósi þess að hlutfall vistvænna ökutækja í dag er aðeins 0,35%.

Í skýrslu Grænu orkunnar er m.a. sett fram tímasett aðgerðaáætlun með skilgreindum ábyrgðaraðilum og árangursmælikvörðum.  Aðgerðirnar spanna allan feril orkuskipta; frá framleiðslu, í gegnum dreifingu um innviði og til  endanotanda. Í skýrslunni er greining á núverandi laga- og skattaumhverfi og  settar fram  tillögur í skattamálum sem eiga að hvetja til orkuskipta.

Í skýrslunni er fjallað um mikivægi aukinnar samvinnu þeirra sem koma að þróunarverkefnum á þessu sviði og áhersla lögð á að hið opinbera sýni gott fordæmi, t.d. með því að setja fram stefnu um innkaup sem styður við orkuskipti. Jafnframt er skýrslan upplýsingabrunnur um endurnýjanlega orkugjafa, skuldbindingar  Íslands á alþjóðavettvangi og stefnumörkun stjórnvalda á undangengnum árum.

Að mati Grænu orkunnar eru ýmis ljón á veginum sem mögulega geta hægt á orkuskiptum og má í því samhengi nefna hátt verð á  vistvænum ökutækjum, hæga endurnýjun bílaflotans, skorti á innviðum og óvissu um hvaða orkugjafi/ar verði ofan á. Lögð er áhersla á að stjórnvöld styðji vel við þróunina á fyrstu stigum  orkuskipta.  Liður í því er að tryggja að tímabil ívilnana verði til ákveðins langs tíma svo dregið verði úr óvissu þeirra sem taka þátt í uppbyggingu orkuskipta. Því er lögð fram tillaga um að ívilnanir á sviði orkuskipta komi ekki til endurskoðunar fyrr en í fyrsta lagi árið 2020. Komi þessi aðgerðaáætlun til framkvæmda er stigið stórt skref með stefnumótun á sviði orkuskipta hér á landi.

Í verkefnisstjórn eru Sverrir Viðar Hauksson formaður f.h. iðnaðarráðuneytis og Bílgreinasambandsins, Bryndís Skúladóttir f.h. Samtaka iðnaðarins, Danfríður Skarphéðinsdóttir f.h. umhverfisráðuneytis, Íris Baldursdóttir f.h. Samorku, Magnús Ásgeirsson f.h. Samtaka verslunar og þjónustu, Ólafur Bjarnason f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga, Runólfur Ólafsson f.h. FÍB, Þorsteinn Rúnar Hermannsson f.h. innanríkisráðuneytis, Ögmundur Hrafn Magnússon f.h. fjármálaráðuneytis

Verkefnisstjóri er Ágústa S. Loftsdóttir Orkustofnun

Með verkefnisstjórn starfa Erla Sigríður Gestsdóttir f.h. iðnaðarráðuneytis og Kolbeinn Marteinsson f.h. iðnaðarráðherra.

Tengill í skýrsluna

 

Kynning á skýrsludrögum

Fimmtudaginn 3. nóvember var blásið til fundar með aðilum Grænu orkunar þar sem verkefnisstjórn kynnti drög að stefnumótunarskýrslunni og tilheyrandi aðgerðaráætlun.

Hátt í 40 manns mættu á viðburðin sem stóð í rúma 2 tíma. Fjörugar umræður spunnust þar um ýmis viðfangsefni og aðgerðir og skemmst frá því að segja að innlegg fundarins skipti verulegu máli fyrir endanlega niðurstöður í aðgerðum.

Verkefnisstjórn hefur síðan unnið að því að lagfæra og aðlaga skýrsluna og aðgerðaáætlun til samræmis við athugasemdir fundargesta. Gert er ráð fyrir að hægt verði að afhenda ráðherra formlega skýrslu á næstu dögum.

Hvað þarf marga bíla?

Sett hafa verið markmið að 10% orkunotkunar í samgöngum árið 2020 komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Ef við gefum okkur til einföldunar að þar með þurfi 10% bílaflotans að nýta endurnýjanlega orkugjafa, þá má leika sér með útreikning á hvað það þýðir á komandi árum.

Í dag eru einungis tæplega 1000 bílar sem geta fallið í þessa skilgreiningu hér á landi eða ca. 0,5% flotans (miða við 200.000 bíla). Ef gert er ráð fyrir að nýskráning bíla árin 2012-2020 verði að meðaltali 12.000 bílar pr. ár, þá þýðir það 96.000 ökutæki. Geri jafnframt ráð fyrir að flotin verði svipað stór árið 2020 (nokkur fólksfjölgun en á móti kemur að fjöldi bíla pr. heimili muni fækka).

Það þýðir að 20.000 bílar væru að nýta endurnýjanlega orkugjafa árið 2020 eða að skráningar visthæfra bíla að meðaltali yrðu 2400 bílar á ári. (12.000 heildarskráningar og þar með 20% visthæfir)

Þá spyr maður sig, er það raunhæft?

Vinnu- og stefnumótunarfundur í orkuskiptum í samgöngum

Verkefnisstjórn Grænu orkunar boðar til vinnu- og stefnumótunarfundar í orkuskiptum í
samgöngum. Fundurinn verður haldinn þann 15. september í húsakynnum
Orkustofnunar á Grensásvegi 9 og hefst kl. 9.00. Áætlað er að honum ljúki kl.
12.30, en dagskrá er eftirfarandi;

9.00-9.15
Setning fundar og ávarp iðnaðarráðherra

9.15-9.40
Hvert erum við komin og hver eru næstu skref – Sverrir V Hauksson, form.
verkefnisstjórnar

9.40-9.50
Kaffihlé

9.50-11.3
Vinnuhópar að störfum

11.30-11.45
kaffihlé

11.45-12.30
Kynning vinnuhópa og samantekt

Vinnuhóparnir eru 4 og viljum við biðja þá sem ætla að mæta
á fundinn að STAÐFESTA komu sína og jafnframt að gefa þá upp hvaða hóp þeir óska
eftir að tilheyra.

hópar Græna orkan

VINSAMLEGAST STAÐFESTIÐ ÞÁTTTÖKU MEÐ ÞVÍ AÐ SENDA PÓST Á asl@os.is FYRIR 10. SEPT. MEÐ
ÓSK UM HVAÐA HÓP HVER VILL TILHEYRA

Vonumst til að sjá sem flesta – þetta skiptir okkur öll máli.

Iðnaðarráðherra fær vetnisrafbíl til afnota

Iðnaðarráðherra Katrín Júlíusdóttir naut þess í vikunni að fá vetnisrafbíl til afnota. Bifreiðin sem er að gerðinni Hyundai Tucson ix35 er splunknýr og í fullri stærð. Vetnisrafbílinn er hér á vegum skandinavísku vetnisvegasamtakanna (SHHP) og Íslenskrar Nýorku og er koma bílsins hluti af bílaprófunum Hyundai á vetnisrafbílum á Norðurlöndunum.  Áfylling bílsins tekur aðeins um þrjár mínútur og hefur hann um 600 kílómetra drægni á einum tanki sem er sambærilegt við það sem hefðbundnir bensínbílar draga.

Vinnufundur í Orkugarði

Græna Orkan boðar til vinnufundar í Orkugarði, Grensásvegi 9, þann 2. desember næstkomandi frá 13:15-17:00. Markmið fundarins er að kalla saman til skrafs og ráðagerða þá aðila sem hafa lýst yfir áhuga á þátttöku í verkefnum tengt orkuskiptum í samgöngum. Græna Orkan hefur nú verið starfandi í tæpt ½ ár og verið vistuð hjá iðnaðarráðuneytinu. Á sínum tíma lýsti iðnaðarráðherra því yfir að vonandi í framtíðinni væri hægt að byggja upp klasasamstarf milli aðila sem eru að vinna að verkefnum tengdum orkuskiptum í samgöngum. Eins og þið vitið öll þá eru orkuskipti og fyrirtæki tengd þeim frekar ung og flest enn á kafi í rannsóknar eða undirbúningsvinnu. Græna Orkan hefur því áhuga á að kanna hvort grundvöllur sé fyrir slíku klasasamstarfi eða hvort rétt sé að reka Grænu Orkuna á annan hátt – t.d. sem eins konar samtök, sem upplýsingamiðstöð fyrir fyrirtæki í þessum geira eða á annan hátt. Til að kanna þetta viljum við bjóða ykkur til þessa vinnufundar. Vonandi geta flestir séð sér fært að koma og viljum við heyra sem flestar hugmyndir.

Nánari upplýsingar og dagskrá fundarins

Til að halda utan um fjölda þátttakenda viljum við endilga biðja ykkur um að láta vita hvort þið takið þátt eða ekki með því að tilkynna þátttöku ykkar á glk@newenergy.is