Nýlega opnaði Skeljungur formlega nýja metandælu á Orkustöðinni við Miklubraut, einni fjölförnustu götu landsins. Þar með hefur Skeljungur bætt enn við þá umhverfisvænu orkugjafa sem viðskiptavinum þess bjóðast.
Skeljungur hóf í lok árs 2013 sölu á lífdísilolíu og uppfyllir ákvæði laga um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi um 3,5% hlutfall endurnýjanlegs orkuinnihalds. Til viðbótar opnaði Skeljungur hraðhleðslustöð fyrir rafmagnsbíla á Shell-stöðinni við Miklubraut, beint á móti Orku-stöðinni við Miklubraut þar sem nú fæst metan.
„Það er ánægjulegt að geta aukið þjónustu við bæði metanbílaeigendur og rafbílaeigendur. Með þessu höfum við einnig náð að auka vöruframboð á íslensku vistvænu eldsneyti. Við viljum geta boðið viðskiptavinum okkar sem flesta valkosti og það er ánægjulegt að geta haft þá valkosti endurnýjanlega og vistvæna ,“ segir Valgeir Baldursson forstjóri Skeljungs.
Metanið á hinni nýju metandælu kemur frá Sorpu en framleiðsla þess byggir alfarið á endurnýjanlegri orku, annars vegar úr lífrænum úrgangi og hins vegar raforku frá landsnetinu sem framleidd er með virkjun fallvatna.
Hér má sjá myndband sem sýnir byggingu stöðvarinnar.