Rafbílaakstur og kynning næstkomandi fimmtudag.

Næstkomandi fimmtudag, þann 15. ágúst kl. 17:00 verður meðlimum Grænu Orkunnar boðið á kynningu og akstursýningu á Rallycrossbrautinni í Hafnarfirði. Þar mun fara fram síðasti akstur FSI 12 bílsins, sem er jafnframt fyrsti akhæfi bíllinn sem smíðaður hefur verið hjá Háskóla Íslands. Auk þess verður kynnt fyrir áhugasömum gengi verkefnisins frá upphafi, árangur liðsins í keppninni og bíl næsta árs yfir léttum veitingum.

Þessi viðburður er á vegum Formula Student verkefnis Háskóla Íslands og hafa nemendurnir áhuga á að ná tali af áhugamönnum um málefnið. Þetta umrædda verkefni snýst fyrst og fremst um að þróa og hanna eins manns rafmagnskappakstursbíl sem liðið síðan smíðar frá grunni, prófar og keppir loks á í alþjóðlegri kappaksturskeppni undir heitinu Formula Student.

Við vonum að sem flestir sjái sér fært að mæta.

Fyrir frekari upplýsingar um verkefnið er hægt að skoða eftirfarandi vefsíður;

https://www.facebook.com/FSIceland

http://teamspark.is/

 

Afhending 12 rafbíla til fyrirtækja

Tólf rafbílar voru afhentir í gær við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum Heklu í Reykjavík í gær þar sem Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra ávarpaði samkomuna.

„Þetta er merkilegur dagur. Aldrei fyrr hafa svo margir rafbílar verið afhentir á einu bretti á Íslandi. Þetta kann að vera eitt af stóru skrefunum í átt að umhverfisvænna samfélagi á Íslandi. Við ásamt Íslenskri Nýorku náðum virkilega hagstæðum samningum við Mitsubishi um verð á i-MiEV rafbílum og það verð endurspeglar þær væntingar sem HEKLA og Mitsubishi hafa til Íslands sem markaðar fyrir rafbíla.“ sagði Friðbert Friðbertsson, forstjóri HEKLU hf við afhendinguna í gær.

Það eru átta fyrirtæki sem fengu afhenta lykla af splúnkunýjum Mitsubishi iMiEV rafbílum; Orkuveita Reykjavíkur, Landsvirkjun, Eignarsjóður Reykjavíkur,  Landsnet, Skeljungur, HS orka, Norðurorka og Bílastæðasjóður. Með kaupum á bílunum eru fyrirtækin að stíga skref í átt að umhverfisvænni bílaflota og um leið vekja athygli á því að rafbílar eru raunhæfur valkostur fyrir almenning sem og bílaflota fyrirtækja.

Upphaf kaupanna í dag má rekja til samkomulags sem gert var milli Mitsubishi, HEKLU, Orkustofnunar og Iðnaðarráðuneytisins árið 2008 í tengslum við kaup á hverflum fyrir jarðhitavirkjanir og hefur Íslensk NýOrka leitt það verkefni. Ljóst er að verulega er hægt að draga úr umhverfisáhrifum frá samgöngum með fjölgun bíla sem nota vistvænt eldsneyti. Nú þegar hafa á annað þúsund metan bíla verið skráðir en mikið átak þarf til að ná markmiðum opinberra aðila sem er að 10% alls eldsneytis á bíla á Íslandi verði vistvænt árið 2020. „Þetta er stórt skref í rétta átt. En við getum gert betur og vonandi munu fleiri fyrirtæki og einstaklingar nýta sér þetta tilboð,“ segir Jón Björn Skúlason framkvæmdastjóri Íslenskrar NýOrku.

Mitsubishi iMiEV rafbílar verða tímabundið á kynningakjörum hjá Heklu, á meðan birgðir endast.

Mitsubishi iMiEV við afhendiguna í gær

Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og Ragnheiður Elín iðnaðarráðherra

Hér má sjá umfjöllun mbl.is

Hér má sjá umfjöllun visir.is

Flýtibílar

Landsbankinn og Bílaleiga Akureyrar undirrituðu samning nýlega sem gerir flýtibíla að veruleika fyrir starfsfólk Landsbankans. Hugtakið flýtibílar er langt því frá að vera nýtt en flýtibílar hafa verið notaðir víða um heim undanfarin ár. Hugmyndin er að fólk geti leigt sér bíl í allt frá einni klukkustund uppí nokkra daga og geti komist hjá því að eiga bíl og notað almenningssamgöngur eða hjólreiðar með þessari lausn. Þetta er fyrsti samningur þessarar tegundar hér á landi og vonandi, ef vel tekst til, gæti þetta orðið raunhæfur kostur fyrir almenning.

Sjá nánari umfjöllun mbl hér.

Aðalfundur Grænu Orkunnar 2013 – samantekt

Aðalfundur Grænu Orkunnar fór fram þann 11. júní 2013 í húsakynnum Orkugarðs, Grensásvegi 9 – sjá fundargerð.

Á fundinum var farið yfir stöðu mála hjá samtökunum og einnig voru kynnt nýlega samþykkt lög um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum.

Nokkrar breytingar urðu innan stjórnarinnar, en úr stjórn fóru Kolbeinn Marteinsson, Sverrir Viðar Hauksson og Magnús Ásgeirsson. Nýjir í stjórn eru Ingvar Pétur Guðbjörnsson frá Atvinnu og Nýsköpunarráðuneytinu, Skúli Skúlason frá Bílgreinasambandinu og Berglind Rán Ólafsdóttir frá Landsvirkjun.

Núverandi stjórn er því eftirfarandi:

Frá hinu opinbera:

Ásta Þorleifsdóttir (Innanríkisráðuneyti)

Erla Sigríður Gestsdóttir (Atvinnu og Nýsköpunarráðuneyti)

Ingvar Pétur Guðbjörnsson (Atvinnu og Nýsköpunarráðuneyti)

Ögmundur Hrafn Magnússon (Fjármálaráðuneyti)

Frá einkageiranum:

Berglind Rán Ólafsdóttir (Landsvirkjun)

Bryndís Skúladóttir (Samtök Iðnaðarins)

Skúli Skúlason (Bílgreinasambandið)

Teitur Gunnarsson (Mannvit)

Better Place í Danmörku gjaldþrota

Í síðasta mánuði bárust þær fregnir að Better Place væri orðið gjaldþrota. Better place var stofnað árið 2007 og stefndi að því að til að byrja með að koma upp stöðvum í Kaliforníu, Ísrael og Danmörku sem skipta um tóma rafgeyma í rafbílum – sem er mun fljótari aðferð en að hlaða rafgeyma bílana. Aftur á móti gekk samstarf við bílaframleiðendur illa og auk þess hefur sala á rafbílum valdið vonbrigðum í Danmörku og víðar.

Sjá nánar hér (á ensku).

Fyrstu fjöldaframleiddu Hyundai vetnisbílarnir afhentir í Kaupmannahöfn

Fyrr í dag var ný vetnisstöð tekin í notkun í Kaupmannahöfn og voru einnig 15 nýjir Hyundai ix35 vetnisbílar afhentir borgaryfirvöldum þar. Bílarnir verða hluti af bílaflota borgarinnar en um er að ræða bíla af sömu gerð og kom hér til lands í reynsluakstur sumarið 2011.

Hér má sjá umfjöllun mbl.is

Hér má sjá fréttatilkynningu hydrogenlink í Danmörku (á ensku)

 

Aðalfundur Grænu Orkunnar

Við viljum benda meðlimum Grænu Orkunnar á að aðalfundur félagsins verður haldinn þann 11. júní klukkan 14:30-16:30 í húsakynnum Orkustofnunnar að Grensásvegi 9.

Á aðalfundinum verður farið yfir stöðu mála, auk þess sem kosning í stjórn Grænu Orkunnar fer fram, en þrír (Bryndís Skúladóttir, Magnús Ásgeirsson og Teitur Gunnarsson) af fjórum stjórnarmönnum gefa kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu en við hvetjum áhugasama að senda framboð sín á skulason[at]newenergy.is fyrir 5. júní.

Dagskrá aðalfundarins má finna hér.

Við viljum auk þess benda á að það verður haldin ráðstefna daginn eftir aðalfundinn þar sem viðfangsefnið er CO2 electrofuels – sjá dagskrá.