Atmonia hlýtur nýsköpunarverðlaun Samorku 2023

Framleiðsluferli Atmonia

Nýsköpunarverðlaun Samorku voru afhent í þriðja sinn á opnum fundi í Hörpu í dag og að þessu sinni hlaut Atmonia verðlaunin. Atmonia hefur þróað sjálfbæra tækni sem nýtir efnahvata fyrir rafefnafræðilega framleiðslu á ammoníaki fyrir áburð og rafeldsneyti. Þannig er ammoníakið eingöngu framleitt með andrúmslofti, vatni og rafmagni og losar framleiðslan þar með ekki gróðurhúsalofttegundir. Tæknin hentar auk þess vel til framleiðslu á eldsneyti þar sem framboð raforku er stopult eins og t.d. við vind- eða sólarorkuver. Við hlökkum til að fylgjast með frekari þróun Atmoniu og tæki þeirra og óskum þeim til hamingju með viðurkenninguna!

Starfsemi Keflavíkurflugvallar verði kolefnislaus 2030

Alþjóðasam­tök flug­valla (ACI), hafa veitt Kefla­vík­ur­flug­velli alþjóðlega vott­un í lofts­lags­mál­um fyr­ir aðgerðir sem miða að því að draga úr kol­efn­is­spori flug­vall­ar­ins.
Í til­kynn­ingu frá Isavia kem­ur fram að stefna Kefla­vík­ur­flug­vall­ar í lofts­lags­mál­um hef­ur nú náð fjórða stigi af sex í kol­efn­is­vott­un­ar­kerfi ACI.

Sjá nánar á vef Isavia.

Umsóknafrestur í Loftslagssjóð er 15. júní 2023

Opið er fyrir umsóknir um styrki til Loftslagssjóðs. Sjóðurinn styrkir verkefni sem draga úr losun eða hafa áhrif á samdrátt í losun.

Loftslagssjóður er sérstakur sjóður sem heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Hlutverk sjóðsins er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Styrkir til nýsköpunarverkefna eru ætlaðir m.a. til þess að styrkja rannsóknir og þróunarstarf í tengslum við aðlögun og innleiðingu á nýjum loftslagsvænum tæknilausnum og hönnun.

Sjá nánar á vef Rannís.

Skýrsla starfshóps um skatta og skattaívilnanir

Starfshópur sem unnið hefur að skoðun á sköttum og skattaívilnunum á sviði umhverfismála skilaði í febrúar skýrslu til fjármála- og efnahagsráðherra. Starfshópurinn hafði m.a. það hlutverk að fara yfir álagningu skatta og gjalda og skattaívilnanir, með tilliti til framkvæmdar.

Í skýrslu starfshópsins er að finna 9 tillögur ásamt mótvægisaðgerðum og hugmyndum að næstu skrefum vegna útfærslu og framkvæmd einstakra tillagna.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast á vefsíðu Stjórnarráðsins

Kveikur fjallar um rafbílavæðinguna

Rafbílar í hleðslu (mynd úr einkasafni)

Kveikur fjallar um rafbílavæðingu landsins í þætti sínum í vikunni. Þar er fjallað um málefnið út frá sjónarmiðum rafbílaeigenda, rekstraraðila hleðsluinnviða, orkufyrirtækja og fleiri aðila. Meðal þeirra sem leggja orð í belg, ásamt rafbílaeigendum, eru

Anna Margrét Kornelíusdóttir, Íslenskri Nýorku

Auður Alfa Ólafsdóttir, Alþýðusamband Íslands – ASÍ

Guðjón Hugberg Björnsson, Orka náttúrunnar

Hafrún Þorvaldsdóttir, e1

Kjartan Rolf Árnason, RARIK

Sigurður Ástgeirsson, Ísorka

Sigurður Ingi Friðleifsson, Orkustofnun

Steingrímur Birgisson, Bílaleiga Akureyrar / Europcar

Tómas Kristjánsson, Rafbílasamband Íslands

Þáttinn í heild sinni má sjá á vefsíðu Kveiks.

Kynning á styrkjum sem bjóðast á sviði umhverfis-, loftslags- og orkumála

Viðburðurinn Grænir styrkir verður haldinn á Grand Hótel 23. mars.

Grænvangur, Rannís, Orkustofnun, Festa miðstöð um sjálfbærni, Enterprise Europe Network og umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytið bjóða til styrkjamóts.

Stuttar kynningar á helstu sjóðum og styrkjatækifærum sem standa Íslendingum til boða á sviði umhverfis-, orku-, og loftslagsmála verða í bland við örsögur aðila sem hafa farsæla reynslu af því að sækja í sjóði vegna grænna verkefna.

Í kjölfar áhugaverðra og praktískra erinda tekur við Styrkjamót en þá geta þátttakendur bókað örfundi til að kynnast, fræðast og kanna möguleika á samstarfi í framtíðinni.

Dagskrá viðburðarins er að finna á vefsíðu hans en þar má einnig ganga frá skráningu til þátttöku.

Leiðir til að hraða orkuskiptum í flugi til skoðunar innan URN

Mynd frá Isavia

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp sem mun skoða og leggja fram tillögur að leiðum til að hraða orkuskiptum í flugi, með notkun endurnýjanlegs eldsneytis fyrir millilandaflug. Starfshópurinn á í störfum sínum að taka mið af stefnu stjórnvalda, sem og aðgerðaáætlunum um orkuskipti og í loftslagsmálum. 

Guðrún Hafsteinsdóttir alþingismaður er formaður hópsins. Að auki skipa starfshópinn:

  • Alexandra Kjærnested Arnarsdóttir, EES-sérfræðingur, tilnefnd af utanríkisráðuneytinu
  • Erla Sigríður Gestsdóttir, teymisstjóri orkumála í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu
  • Jón Ásgeir H. Þorvaldsson, verkefnisstjóri í orkuskiptum hjá Orkustofnun
  • Ingvi Már Pálsson, tilnefndur af menningar- og viðskiptaráðuneytinu
  • Orri Páll Jóhannsson, alþingismaður, tilnefndur af forsætisráðuneytinu
  • Valgerður B. Eggertsdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af innviðaráðuneytinu

Hefur þú notað vefinn orkuskiptaspa.is?

Orkustofnun kynnti nýjan vef www.orkuskiptaspa.is á viðburði í nóvember síðastliðnum.

Orkuskiptalíkanið á vefnum er gagnvirkt verkfæri til að móta áætlanagerð út frá stillanlegum forsendum sem geta rímað við markmið, stefnu og skuldbindingar Íslands í orku- og loftslagsmálum.

Þar má breyta hinum ýmsu forsendum og sjá, myndrænt, hvaða áhrif þær hafa á útkomuna, til dæmis hlutfall nýrra orkugjafa, losun ákveðinna samgönguþátta og svo framvegis.

Morgunverðarfundur Grænu orkunnar 14. desember

Í desember mánuði mun Evrópusambandið opna köll í svokölluðum klasa 5: málefnum sem snerta loftslag, orku og samgöngur. Um er að ræða afar viðamikil köll og með þeim stærstu á þessu sviði í sögu ESB.

Á morgunverðarfundi Grænu orkunnar 14. desember mun Kolbrún Bjargmundsdóttir sérfræðingur frá Rannís kynna tækifæri í umsóknum til Evrópusambandsins með sérstakri áherslu á samgöngur og þá jafnt á landi sem og á hafi, sem heyra undir klasa 5.

Við sama tækifæri mun Anna Margrét Kornelíusdóttir verkefnastjóri hjá Íslenskri Nýorku kynna niðurstöður úr könnun á meðal rafbílaeigenda sem gerð var sumarið 2022 fyrir ráðuneyti umhverfis, orku og loftslags .

Fundarstjóri verður Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar Nýorku.

Húsið opnar 8:30 með léttum morgunverði í Húsi atvinnulífsins en viðburðurinn verður 9:00-10:00. Einnig verður hægt að fylgjast með í streymi.