Category Archives: Óflokkað
Örkynningar Orkusjóðs og Grænu orkunnar 23. október 2023
Í september mánuði úthlutaði Orkusjóður rúmlega 900 milljónum til orkuskipta verkefna sem miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og nýta í staðinn vistvæna, endurnýjanlega orku.
Af því tilefni bjóða Græna orkan, Orkusjóður og Umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytið til örkynninga á Nauthóli 23. október. Fundinum verður einnig streymt. Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála mun flytja opnunarávarp en svo fjalla styrkþegar um verkefni sín, sem eru afar fjölbreytt, misstór og verða unnin í mörgum atvinnugreinum.
Öll velkomin! Kaffi og léttar veitingar verða í boði að loknum kynningum. Fundarstjóri verður Anna Margrét Kornelíusdóttir, verkefnastjóri Grænu orkunnar.
Svo unnt sé að áætla magn veitinga og koma í veg fyrir matarsóun er skráning á staðfund æskileg. Skráning fer fram hér.
Mikill áhugi fyrir fundi um grænar samgöngur milli alþjóðaflugvallarins í Keflavík og höfuðborgarsvæðisins
Reykjavíkurborg, Innviðaráðuneytið, Kadeco, Svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum standa fyrir opnum fundi 12. október um samgöngur milli Keflavíkur og höfuðborgarsvæðisins. Fundurinn fer fram í Salnum í Kópavogi en verður einnig í beinu streymi. Skráning fer fram hér.
DAGSKRÁ
• Hágæðasamgöngur fyrir heimsborg | Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri
• Í átt að öflugri og kolefnishlutlausum almenningssamgöngum til Keflavíkurflugvallar | Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, verkefnastjóri samgönguáætlunar hjá Innviðaráðuneytinu
• Þróunaráætlun Kadeco K64 – Keflavik Reykjavik Link KRL | Samúel Torfi Pétursson, þróunarstjóri hjá Kadeco
• Sagan og staðan – flugrúta, fluglest og fleiri hugmyndir | Lilja G. Karlsdóttir, samgöngusérfræðingur
• Pallborð: Hver eru næstu skref?
Þátttakendur í pallborði: Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri; Árni Freyr Stefánsson, Innviðaráðuneytið; Samúel Torfi Pétursson, Kadeco og Bryndís Friðriksdóttir, Vegagerðin.
• Val á samgöngulausnum – flugvallartengingar og reynslusögur | Thomas Potter, technical expert, Norconsult heldur erindi á ensku
• Grænni og snjallari samgöngur um allan heim | Carl Åge Björgan, framkvæmdastjóri Alstom í Noregi og Íslandi heldur erindi á ensku
• Tengingin milli Helsinki og Vantaa flugvallarins | Henry Westlin, borgarverkfræðingur Vantaa heldur erindi á ensku
• Pallborð: Hvernig gæti framtíðin litið út? Þátttakendur í pallborði: Thomas Potter, Norconsult; Carl Åge Björgan, Alstom og Pawel Bartoszek, formaður svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins.
Fundarstjóri: Lilja G. Karlsdóttir, samgöngusérfræðingur.
Atmonia hlýtur nýsköpunarverðlaun Samorku 2023
Nýsköpunarverðlaun Samorku voru afhent í þriðja sinn á opnum fundi í Hörpu í dag og að þessu sinni hlaut Atmonia verðlaunin. Atmonia hefur þróað sjálfbæra tækni sem nýtir efnahvata fyrir rafefnafræðilega framleiðslu á ammoníaki fyrir áburð og rafeldsneyti. Þannig er ammoníakið eingöngu framleitt með andrúmslofti, vatni og rafmagni og losar framleiðslan þar með ekki gróðurhúsalofttegundir. Tæknin hentar auk þess vel til framleiðslu á eldsneyti þar sem framboð raforku er stopult eins og t.d. við vind- eða sólarorkuver. Við hlökkum til að fylgjast með frekari þróun Atmoniu og tæki þeirra og óskum þeim til hamingju með viðurkenninguna!
Starfsemi Keflavíkurflugvallar verði kolefnislaus 2030
Alþjóðasamtök flugvalla (ACI), hafa veitt Keflavíkurflugvelli alþjóðlega vottun í loftslagsmálum fyrir aðgerðir sem miða að því að draga úr kolefnisspori flugvallarins.
Í tilkynningu frá Isavia kemur fram að stefna Keflavíkurflugvallar í loftslagsmálum hefur nú náð fjórða stigi af sex í kolefnisvottunarkerfi ACI.
Sjá nánar á vef Isavia.
Umsóknafrestur í Loftslagssjóð er 15. júní 2023
Opið er fyrir umsóknir um styrki til Loftslagssjóðs. Sjóðurinn styrkir verkefni sem draga úr losun eða hafa áhrif á samdrátt í losun.
Loftslagssjóður er sérstakur sjóður sem heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Hlutverk sjóðsins er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Styrkir til nýsköpunarverkefna eru ætlaðir m.a. til þess að styrkja rannsóknir og þróunarstarf í tengslum við aðlögun og innleiðingu á nýjum loftslagsvænum tæknilausnum og hönnun.
Skýrsla starfshóps um skatta og skattaívilnanir
Starfshópur sem unnið hefur að skoðun á sköttum og skattaívilnunum á sviði umhverfismála skilaði í febrúar skýrslu til fjármála- og efnahagsráðherra. Starfshópurinn hafði m.a. það hlutverk að fara yfir álagningu skatta og gjalda og skattaívilnanir, með tilliti til framkvæmdar.
Í skýrslu starfshópsins er að finna 9 tillögur ásamt mótvægisaðgerðum og hugmyndum að næstu skrefum vegna útfærslu og framkvæmd einstakra tillagna.
Skýrsluna í heild sinni má nálgast á vefsíðu Stjórnarráðsins
Kveikur fjallar um rafbílavæðinguna
Kveikur fjallar um rafbílavæðingu landsins í þætti sínum í vikunni. Þar er fjallað um málefnið út frá sjónarmiðum rafbílaeigenda, rekstraraðila hleðsluinnviða, orkufyrirtækja og fleiri aðila. Meðal þeirra sem leggja orð í belg, ásamt rafbílaeigendum, eru
Anna Margrét Kornelíusdóttir, Íslenskri Nýorku
Auður Alfa Ólafsdóttir, Alþýðusamband Íslands – ASÍ
Guðjón Hugberg Björnsson, Orka náttúrunnar
Hafrún Þorvaldsdóttir, e1
Kjartan Rolf Árnason, RARIK
Sigurður Ástgeirsson, Ísorka
Sigurður Ingi Friðleifsson, Orkustofnun
Steingrímur Birgisson, Bílaleiga Akureyrar / Europcar
Tómas Kristjánsson, Rafbílasamband Íslands
Kynning á styrkjum sem bjóðast á sviði umhverfis-, loftslags- og orkumála
Grænvangur, Rannís, Orkustofnun, Festa miðstöð um sjálfbærni, Enterprise Europe Network og umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytið bjóða til styrkjamóts.
Stuttar kynningar á helstu sjóðum og styrkjatækifærum sem standa Íslendingum til boða á sviði umhverfis-, orku-, og loftslagsmála verða í bland við örsögur aðila sem hafa farsæla reynslu af því að sækja í sjóði vegna grænna verkefna.
Í kjölfar áhugaverðra og praktískra erinda tekur við Styrkjamót en þá geta þátttakendur bókað örfundi til að kynnast, fræðast og kanna möguleika á samstarfi í framtíðinni.
Dagskrá viðburðarins er að finna á vefsíðu hans en þar má einnig ganga frá skráningu til þátttöku.
Leiðir til að hraða orkuskiptum í flugi til skoðunar innan URN
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp sem mun skoða og leggja fram tillögur að leiðum til að hraða orkuskiptum í flugi, með notkun endurnýjanlegs eldsneytis fyrir millilandaflug. Starfshópurinn á í störfum sínum að taka mið af stefnu stjórnvalda, sem og aðgerðaáætlunum um orkuskipti og í loftslagsmálum.
Guðrún Hafsteinsdóttir alþingismaður er formaður hópsins. Að auki skipa starfshópinn:
- Alexandra Kjærnested Arnarsdóttir, EES-sérfræðingur, tilnefnd af utanríkisráðuneytinu
- Erla Sigríður Gestsdóttir, teymisstjóri orkumála í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu
- Jón Ásgeir H. Þorvaldsson, verkefnisstjóri í orkuskiptum hjá Orkustofnun
- Ingvi Már Pálsson, tilnefndur af menningar- og viðskiptaráðuneytinu
- Orri Páll Jóhannsson, alþingismaður, tilnefndur af forsætisráðuneytinu
- Valgerður B. Eggertsdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af innviðaráðuneytinu