Græna orkan hefur í samvinnu við stjórnvöld unnið að framgangi orkuskipta á Íslandi í samræmi við skýrslu og aðgerðaáætlun sem lögð var fram á Alþingi í lok árs 2011 „Orkuskipti í samgöngum“. Græna orkan hefur komið með beinum hætti að ýmsum breytingum sem hafa verið hvati til orkuskipta. Helstu aðgerðirnar eru annars vegar skattalegar ívilnanir fyrir rafmagns- eða tengiltvinnbifreiðar sem settar voru með bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 62/2012 og hins vegar setning söluskyldu fyrir endurnýjanlegt eldsneyti með lögum nr. 40/2013.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra kynnti í dag nýja skýrslu um þróun orkuskipta í samgöngum á ríkisstjórnarfundi. Skýrslan er unnin af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Orkustofnun og Grænu orkunni. Þar kemur meðal annars fram að undanfarin fjögur ár hefur hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis til samgangna tífaldast.
Stefnt er að því að skýrslan verði lögð fyrir Alþingi nú á vorþingi til kynningar og umfjöllunar.
Sjá nánar í fréttatilkynningu á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.