Síðastliðinn sunnudag var sett upp nýtt þjónustumerki sem vísar á stað þar sem hlaða má ökutæki rafmagni. Það var Einar K. Guðfinnnsson, forseti Alþingis, sem kom merkinu fyrir og tók það formlega í notkun við verslunina Verslunar-Geira, við Þuríðarbraut við mörk þéttbýlisins í Bolungarvík.
Merkið var hannað af Vegagerðinni að ósk Samgöngufélagsins, en þetta er fyrsta merkið með þessu útliti sem tekið er í notkun. Nú þegar rafbílum fjölgar ört er nauðsynlegt að hægt sé að hlaða þá sem víðast og upplýsingar um aðgengi að hleðslu séu sýnilegar.
Einnig hefur verið útbúið sérstakt merki fyrir svokallaðar hraðhleðslustöðvar sem er eins útlits og merkið sem tekið var í notkun um helgina, að öðru leyti en að bætt hefur verið við mynd af skeiðklukku.