Suður Korea eflir innviði fyrir rafbíla

Ívilnunum sem stjórnvöld í Suður Kóreu hafa boðið kaupendum rafbíla síðan 2010 hefur verið vel tekið af almenningi. Þó eru í dag aðeins 1800 rafbílar skráðir í landinu, þar af 850 sem seldir voru árið 2014. Við þessu ætla stjórnvöld að bregðast með því að efla uppbyggingu innviða fyrir rafbíla þar sem flestir Suður Kóreubúar hafa ekki aðgang að rafmagni til hleðslu heima við líkt og víða á Vesturlöndum. Borgarstjórn Seoul hefur ákveðið að fjölga þeim 100 hleðslustöðum sem fyrir eru um 100.000. Hér er þó ekki um að ræða hraðhleðslustöðvar, heldur rafmagnsinnstungur fyrir ferðahleðslubúnað. Það er von stjórnvalda að þessar aðgerðir, auk ívilnana sem þegar eru í gildi, verði til þess að glæða rafbílasölu í landinu og færi þau nær markmiði sínu, 200.000 bílum árið 2020.

Sjá nánar hér og hér.

DC hraðhleðsla Kia Soul bifreiðar

Stjórnvöld styðji fjölgun vistvænna bifreiða

Stjórnvöld skulu stuðla frekar að fjölgun vistvænna bifreiða með hvötum og sýna gott fordæmi, segir forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Árið 2007 setti ríkisstjórnin markmið að auka hlutfall vistvænna ökutækja í eigu ríkisins úr 10% árið 2008 í 35% árið 2012. Þetta hefur þó ekki gengið eftir. Forsætisráðherra lýsti ánægju sinni yfir fjölgun rafbíla undanfarin ár og sagði æskilegt að menn skoðuðu möguleika á rafbílnum þegar kæmi að endurnýjun ráðherrabíla. Þetta kom fram í svari hans við spurningum Brynhildar Pétursdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar í óundirbúnum spurningatíma á Alþingi í liðinni viku.

Sjá nánar í frétt mbl.is

Hvað með rafhlöðu rafbílsins?

Rafhlaðan er dýrasti hluti rafbílsins en sá misskilningur virðist vera útbreiddur að fjárfesta þurfi í nýrri rafhlöðu á nokkurra ára fresti vegna þverrandi hleðslugetu. Gísli Gíslason hjá Even, sem selur Tesla bifreiðar, segir það af og frá. Stýring í rafhlöðu miði að því að hámarka endingartíma hennar, svo að eftir 8 ár hafi drægi bílsins ekki rýrnað meira en 10-20%. Þetta jafngildir því að drægi nýs bíls lækki úr 500 km í 420 km, sem er nokkuð meira en flestir ökumenn aka að jafnaði á dag.

Bæði Bjarni Ólafsson, sölumaður hjá BL, og Árni Þorsteinsson, sölustjóri VW hjá Heklu, taka í sama streng. Sé rétt hugsað um bílinn eigi geymslugeta rafhlöðunnar ekki að skerðast mikið á fyrstu tíu árum rafbílanna. Þetta kemur fram í grein á mbl.is.

Þegar rafhlöðunum er loks skipt fyrir nýjar, er ekki þar með sagt að þær séu til einskis nýtar. General Motors og Nissan hafa nú þegar fundið notagildi fyrir rafhlöður rafbíla sem hefur verið skipt út. Fimm rafhlöður úr Chevrolet Volt knýja t.a.m. ljósabúnað í gagnaveri GM í Michigan með rafmagni frá tveimur 2 kW vindtúrbínum og 74 kW röð sólarsella. Og Nissan mun, í samvinnu við Green Charge Networks, nýta rafhlöður úr Leaf bílum til staðbundinnar orkugeymslu víðs vegar um Bandaríkin og utan þeirra.

Sjá nánar hér.

Tíunda hraðhleðslustöðin á Íslandi opnuð

Tíunda hraðhleðslustöð ON á Suður- og Vesturlandi var vígð 9. júní síðastliðinn við Dalbraut 1 á Akranesi. Fyrir eru stöðvar við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, við bifreiðaumboð BL við Sævarhöfða, við Smáralind, við Skeljung á Miklubraut, á Fitjum í Reykjanesbæ, við verslun IKEA í Garðabæ, í Borgarnesi, á Selfossi og við Fríkirkjuveg. Hraðhleðsluverkefni ON er unnið í samstarfi við BL ehf. og Nissan Europe, sem lögðu hleðslustöðvarnar endurgjaldslaust til verkefnisins. Orka náttúrunnar sér um uppsetningu þeirra og rekstur.

Sjá frétt ON hér.

Ráðstefna: Nordic Electric Bus Initiatives

1.-2. september næstkomandi verður haldin málstofa um þróun rafmagnsstrætisvagna í Lindholmen vísindagarði í Gautaborg. Það eru Swedish Forum for transport innovation og Nordic Energy Research sem standa að málstofunni. Markmið hennar er að efla tengsl á milli  framleiðenda, háskólasamfélagsins og þeirra sem koma að samgöngumálum,  miðla þekkingu og ræða möguleika og hindranir til rafvæðingar strætisvagna í almenningssamgöngum.

Þátttaka er ókeypis. Dagskrá og nánari upplýsingar er að finna hér.