Ráðstefna1.-2. sept: Nordic Electric Bus Initiatives

1.-2. september næstkomandi verður haldin málstofa um þróun rafmagnsstrætisvagna í Lindholmen vísindagarði í Gautaborg. Það eru Swedish Forum for transport innovation og Nordic Energy Research sem standa að málstofunni. Markmið hennar er að efla tengsl á milli  framleiðenda, háskólasamfélagsins og þeirra sem koma að samgöngumálum,  miðla þekkingu og ræða möguleika og hindranir til rafvæðingar strætisvagna í almenningssamgöngum.

Þátttaka er ókeypis. Dagskrá og nánari upplýsingar er að finna hér og hér.

Allir nýir bílar verði kolefnisfríir árið 2025 í Noregi

Allir nýir bílar skulu vera kolefnisfríir frá árinu 2025; þetta er einn liður í viðleitni Oslóborgar til þess að draga úr útblæstri gróðuhúsalofttegunda. Þetta kom fram í ræðu Ola Elvestuen, norsks þingmanns, á EV Roadmap 8 ráðstefnu í Portland í Bandaríkjunum í liðinni viku. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti í lok árs 2014 markmið um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda um 40% miðað við árið 1990 fyrir 2030. Þar sem 97% norskrar raforku er nú þegar framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum (vatnsorku) þarf að horfa til samgangna til að minnka kolefnisútblástur. Á meðal markmiða Oslóborgar eru:

  • faratæki til almenningssamgangna noti vistvæna orkugjafa (kolefnislausa) fyrir 2020
  • leigubifreiðar noti eingöngu hreina orku fyrir 2022
Til þess að ná þessum markmiðum hefur norska ríkisstjórnin sett ýmsar ívilnanir vegna rafbíla, sem hafa borið árangur en í dag eru rafbílar í Noregi rúmlega 66.000.
Nánar um fréttina hér.

Drægni Volt eykst um 40%

Ný kynslóð tvinnbílsins Chevrolet Volt mun búa yfir drægni allt að 85 km á rafmagninu einu og er það 40% meira en fyrr gerð bílsins. Við tekur bensínvél sem framleiðir rafmagn þegar hleðslan á liþíum rafhlöðunni klárast. Eigendur Volt komast því allra sinna ferða án þess að óttast að verða rafmagnslausir.

Sjá nánar í frétt á visir.is.

Ford rafbílaeigendur ánægðir með sína bíla

Ford lét nýverið gera könnun meðal tíu þúsund viðskiptavina sem keypt höfðu rafbíl eða tvinnbíl frá fyrirtækinu. Þar kom fram að 9 af hverjum 10 hyggist ekki kaupa bíl sem knúinn er jarðefnaeldsneyti aftur, eða 92% rafbílaeigenda og 94% tvinnbíleigenda. Þátttakendur nefndu helst jákvæða akstursupplifun og jákvætt mat á vistvænni tækni sem ástæður fyrir þessari ákvörðun.

Sjá nánar í umfjöllun CleanTechnica og hér.

Könnun meðal notenda hraðhleðslustöðva

Íslensk NýOrka, Græna orkan og Orka náttúrunnar standa um þessar mundir fyrir könnun meðal rafbílaeigenda á Íslandi. Markmið verkefnisins er að skilja notkunar- og hegðunarmynstur notenda hraðhleðslustöðva auk þess að greina þörf fyrir frekari uppbyggingu innviða fyrir rafbíla. Það er afar mikilvægt að ná til notenda stöðvanna, heyra reynslu þeirra og afla upplýsinga um það sem betur mætti fara.

Þátttaka í könnuninni tekur örfáar mínútur. Hana má finna hér.

Hringvegurinn ekinn á rafbíl

Þeir Gísli Gíslason, Tómas Kristjánsson og Guðjón Hugberg Björnsson settu nýverið Íslandsmet þegar þeir keyrðu hringinn í kringum landið á rafbíl á einungis 30 klukkustundum. Fyrra met, sem Guðjón Hugberg átti ásamt fleirum, hafði verið sex dagar. Ferðin var farin á Tesla Model S bifreið, sem hefur 500 km drægi. Þeir félagar höfðu með sér hleðslustöð á stærð við nestisbox sem gerði þeim kleift að hlaða bílinn á þremur klukkustundum með þriggja fasa rafmagni í stað 6-8 klukkustunda en hún var auk þess nauðsynleg þar sem aðeins fjórar hraðhleðslustöðvar eru utan höfuðborgarsvæðisins.

Sjá nánar um hringferðina hér á mbl.is

Rafknúið hvalaskoðunarskip vígt

Norðursigling á Húsavík vígði á sunnudag Opal, rafknúið hvalaskoðunarskip sitt að viðstöddu fjölmenni. Þetta er í fyrsta skipti sem tækni sem þessi er notuð um borð í skipi en nota má skrúfubúnaðinn til að hlaða rafmagni  á rafgeymi skipsins þegar það siglir undir seglum.

Sjá nánar á mbl.is og Business Wire.

Fyrsti rafknúni hvalaskoðunarbáturinn

Næstkomandi sunnudag mun Norðursigling á Húsavík taka í notkun fyrsta rafknúna hvalaskoðunarbátinn. Tvímastra skonnortan Opal er fyrsta skipið með skrúfu­búnað sem jafn­framt get­ur hlaðið orku inn á geym­ana þegar það sigl­ir fyr­ir segl­um. Búnaður hennar hefur verið í þróun um skeið og er afrakstur samstarfs fjölmargrar innlendra og erlendra aðila.

Sjá nánar hér.

 

 

 

 

 

 

 

Suður Korea eflir innviði fyrir rafbíla

Ívilnunum sem stjórnvöld í Suður Kóreu hafa boðið kaupendum rafbíla síðan 2010 hefur verið vel tekið af almenningi. Þó eru í dag aðeins 1800 rafbílar skráðir í landinu, þar af 850 sem seldir voru árið 2014. Við þessu ætla stjórnvöld að bregðast með því að efla uppbyggingu innviða fyrir rafbíla þar sem flestir Suður Kóreubúar hafa ekki aðgang að rafmagni til hleðslu heima við líkt og víða á Vesturlöndum. Borgarstjórn Seoul hefur ákveðið að fjölga þeim 100 hleðslustöðum sem fyrir eru um 100.000. Hér er þó ekki um að ræða hraðhleðslustöðvar, heldur rafmagnsinnstungur fyrir ferðahleðslubúnað. Það er von stjórnvalda að þessar aðgerðir, auk ívilnana sem þegar eru í gildi, verði til þess að glæða rafbílasölu í landinu og færi þau nær markmiði sínu, 200.000 bílum árið 2020.

Sjá nánar hér og hér.

DC hraðhleðsla Kia Soul bifreiðar

Hvað með rafhlöðu rafbílsins?

Rafhlaðan er dýrasti hluti rafbílsins en sá misskilningur virðist vera útbreiddur að fjárfesta þurfi í nýrri rafhlöðu á nokkurra ára fresti vegna þverrandi hleðslugetu. Gísli Gíslason hjá Even, sem selur Tesla bifreiðar, segir það af og frá. Stýring í rafhlöðu miði að því að hámarka endingartíma hennar, svo að eftir 8 ár hafi drægi bílsins ekki rýrnað meira en 10-20%. Þetta jafngildir því að drægi nýs bíls lækki úr 500 km í 420 km, sem er nokkuð meira en flestir ökumenn aka að jafnaði á dag.

Bæði Bjarni Ólafsson, sölumaður hjá BL, og Árni Þorsteinsson, sölustjóri VW hjá Heklu, taka í sama streng. Sé rétt hugsað um bílinn eigi geymslugeta rafhlöðunnar ekki að skerðast mikið á fyrstu tíu árum rafbílanna. Þetta kemur fram í grein á mbl.is.

Þegar rafhlöðunum er loks skipt fyrir nýjar, er ekki þar með sagt að þær séu til einskis nýtar. General Motors og Nissan hafa nú þegar fundið notagildi fyrir rafhlöður rafbíla sem hefur verið skipt út. Fimm rafhlöður úr Chevrolet Volt knýja t.a.m. ljósabúnað í gagnaveri GM í Michigan með rafmagni frá tveimur 2 kW vindtúrbínum og 74 kW röð sólarsella. Og Nissan mun, í samvinnu við Green Charge Networks, nýta rafhlöður úr Leaf bílum til staðbundinnar orkugeymslu víðs vegar um Bandaríkin og utan þeirra.

Sjá nánar hér.