Morgunverðarfundur Grænu orkunnar 14. desember

Í desember mánuði mun Evrópusambandið opna köll í svokölluðum klasa 5: málefnum sem snerta loftslag, orku og samgöngur. Um er að ræða afar viðamikil köll og með þeim stærstu á þessu sviði í sögu ESB.

Á morgunverðarfundi Grænu orkunnar 14. desember mun Kolbrún Bjargmundsdóttir sérfræðingur frá Rannís kynna tækifæri í umsóknum til Evrópusambandsins með sérstakri áherslu á samgöngur og þá jafnt á landi sem og á hafi, sem heyra undir klasa 5.

Við sama tækifæri mun Anna Margrét Kornelíusdóttir verkefnastjóri hjá Íslenskri Nýorku kynna niðurstöður úr könnun á meðal rafbílaeigenda sem gerð var sumarið 2022 fyrir ráðuneyti umhverfis, orku og loftslags .

Fundarstjóri verður Jón Björn Skúlason, framkvæmdastjóri Íslenskrar Nýorku.

Húsið opnar 8:30 með léttum morgunverði í Húsi atvinnulífsins en viðburðurinn verður 9:00-10:00. Einnig verður hægt að fylgjast með í streymi.

Opið fyrir umsóknir um styrki í Loftslagssjóð

Rannís

Auglýst hefur verið eftir umsóknum um styrki úr Loftslagssjóði RANNÍS.

Styrktegund er ein að þessu sinni og eru styrkir veittir til eins árs.Áhersla verður lögð á verkefni sem:

  • skila samdrætti í losun og stuðla að sjálfstæðu landsmarkmiði Íslands um að draga úr losun á beinni ábyrgð Íslands um 55% fyrir 2030.
  • hagnýta grunnþekkingu sem þegar er til staðar, hafa möguleika á að nýtast sem víðast í samfélaginu og beinast að aðilum sem hafa talsverða möguleika á að draga úr losun.

Umsóknarfrestur er til 6. desember 2022 kl. 15:00

Örfyrirlestrar Orkusjóðs 25. október 2022

Græna orkan og Orkustofnun kynntu nokkur verkefni Orkusjóðs á Nauthól í Reykjavík, þriðjudaginn 25. október kl. 13-15 en einnig var hægt að horfa á kynninguna í streymi.

Orkusjóður verkefnin 2022 – örfyrirlestrar

Græna orkan og Orkustofnun kynna nokkur verkefni Orkusjóðs á Nauthól, Nauthólsvegi 106, Reykjavík, þriðjudaginn 25. október kl. 13-15. Úthlutun styrkja árið 2022 var sú mesta frá upphafi og endurspeglar aukinn kraft stjórnvalda til orkuskipta. Verkefnin eru afar fjölbreytt og misstór og eru unnin í mismunandi starfsgreinum. Ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála setur fundinn. Kaffi verður á boðstólum og spjall mögulegt eftir að öllum kynningum er lokið. Þau sem vilja mæta á staðinn verða að skrá sig en einnig má horfa á kynninguna í streymi.

Posted by Orkustofnun on Tuesday, October 25, 2022

Úthlutun styrkja árið 2022 var sú mesta frá upphafi og endurspeglar aukinn kraft stjórnvalda til orkuskipta. Verkefnin eru afar fjölbreytt og misstór og eru unnin í mismunandi starfsgreinum. Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála setti fundinn og Anna Margrét Kornelíusdóttir var fundarstjóri.

Skráning fór fram hér.

Stolt siglir fleyið mitt – upptaka frá ráðstefnu 29. september

29. september síðastliðinn, á alþjóða siglingadaginn, fór fram ráðstefnan Stolt siglir fleyið mitt – öryggi og grænar lausnir í siglingum. Hún var haldin á Grand Hótel Reykjavík og var samstarf Fagráðs um siglingar, Samgöngustofu, Innviðaráðuneytis og Grænu orkunnar. Dagskrána má sjá á vef Samgöngustofu og upptöku frá viðburðinum má nálgast hér fyrir neðan.

Ráðstefna 29. september um orkskipti og öryggi á sjó

Fagráð um siglingamál / Siglingaráð, í samstarfi við Grænu orkuna og Samgöngustofu, efnir til hálfs dags ráðstefnu þann 29. september sem jafnframt er alþjóðasiglingadagurinn.

Yfirskrift viðburðarins er Stolt siglir fleyið mitt – öryggi og grænar lausnir á sjó og markmið hans er að kynna nýjar lausnir í sjósókn og siglingum sem draga úr umhverfisáhrifum og/eða auka öryggi sjófarenda, þ.m.t. orkuskipti, bætta orkunýtingu og siglingaöryggi.

Nánar um dagskrá og skráningu má finna á vefsíðu Samgöngustofu.

Tilnefningar óskast til Nýsköpunarverðlauna Samorku 2022

Samorka óskar eftir tilnefningum til Nýsköpunarverðlauna Samorku, sem afhent verða á ársfundi samtakanna 15. mars. Þetta er í annað sinn sem verðlaunin verða afhent.

Samorka leitar að framúrskarandi nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem byggja á:

  • Tæknilausnum fyrir orku- og veitugeirann eða þjónustu við orku- og veitufyrirtæki
  • Nýtingu orku, heits vatns, neysluvatns eða fráveitu og/eða annarra auðlindastrauma til nýsköpunar

Tilnefningar sendist á samorka@samorka.is fyrir 24. febrúar. Farið verður með tilnefningarnar sem trúnaðarmál.

Vefviðburður 23. juní: Framleiðsla rafeldsneytis á Íslandi

Líkt og aðrar þjóðir Evrópu hefur Ísland skuldbundið sig til að takast á við loftslagsvandann og sett sér mælanleg markmið til að uppfylla skuldbindingar Parísarsamkomulagsins fyrir 2030 og kolefnishlutleysi Íslands fyrir 2040.

Notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum veldur um helming af CO2 losun sem er á beinni ábyrgð Íslands. Því er mikilvægt að meta þá kosti sem við höfum og þær fjárfestingar sem þarf til að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir aðra orkugjafa í samgöngum á landi, á sjó og í lofti.

Hluti af þeirri lausn er að nota beint endurnýjanlegt rafmagn til að knýja samgöngutæki, en í sumum tilvikum er það ekki raunhæfur möguleiki.Icefuel (Icelandic Electrical Fuel) hefur fyrir hönd Þróunarfélags Grundartanga, greint valkosti varðandi mögulegt framtíðareldsneyti og gefið út skýrslu með helstu niðurstöðum.

Skýrsla þessi snertir á fýsileika þess að framleiða rafeldsneyta á Íslandi auk þess að skýra af hverju rafeldsneyti er hluti af því að ná loftslagsmarkmiðum.

Bjarni Már Júlíusson framkvæmdastjóri Icefuel mun kynna helstu niðurstöður skýrslunnar á vefviðburði Grænu orkunnar í hádeginu 23. júní. Fylgjast má með í beinni útsendingu á Zoom.

Skýrsluna má finna á vefsíðu Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

Sjá nánar á Facebook.

Aðalfundur Grænu orkunnar 2021

Aðalfundur Grænu orkunnar, Samstarfsvettvangs um orkuskipti, fír fram þriðjudaginn 4. maí 2021 9:00-10:00 og var rafrænn að þessu sinni.

Dagskrá aðalfundar var sem hér segir og samkvæmt samþykktum:

  • Kosning fundarstjóra og fundarritara
  • Skýrsla stjórnar lögð fram
  • Reikningar lagðir fram til samþykktar
  • Breytingar á samþykktum
  • Ákvörðun árgjalds
  • Kosning stjórnar
  • Önnur mál

Skýrslu stjórnar má nálgast hér:

Allir félagsmenn mega sitja aðalfund og einungis er eitt atkvæði á hvert aðildarfyrirtæki eða -stofnun. Félagar teljast þeir sem greiða félagsgjald og þeir einir hafa atkvæðarétt á aðalfundi. Félagsgjald er kr. 50.000 fyrir fyrirtæki með fleiri 25 starfsmenn en kr. 12.500 fyrir minni fyrirtæki og einstaklinga.


Tillögur, sem óskað er eftir að teknar verði til afgreiðslu á fundinum, þurfa að berast félaginu a.m.k. 7 dögum fyrir boðaðan aðalfund, þ.e. 27. apríl 2021, til Önnu Margrétar Kornelíusdóttur í netfangið amk@newenergy.is.


Tímabil tveggja stjórnarmanna sem sitja fyrir hönd atvinnulífsins lýkur á aðalfundinum. Þeir hyggjast bjóða sig fram til áframhaldandi stjórnarsetu en framboð til stjórnar eru velkomin og er stjórnarseta til tveggja ára. Þeir félagar er hyggjast bjóða sig fram í stjórn skulu tilkynna framboð til Önnu Margrétar Kornelíusdóttur í netfangið amk@newenergy.is fyrir 27. apríl 2021.