Stena Germanica, fyrsta metanól ferjan, hefur siglingar

Stena Germanica, ferja Stena Line sem siglir á milli Kiel og Gautaborgar, hefur verið breytt og hún gerð umhverfisvænni. Ein af fjórum Wärtsilä vélum hennar gengur nú fyrir metanóli og til stendur að breyta hinum þremur sumarið 2015. Árangur verkefnisins, sem kostaði um 22 milljónir evra, felst fyrst og fremst í stórlækkuðum útblæstri skaðlegra lofttegunda en reiknað er með að útstreymi SOx dragist saman um 99%, NOx um 60%, rykagna um 95% og CO2 um 25%.

Sjá nánar í frétt Kieler Nachrichten og Baltic Transport Journal.

Fyrsta rafmagnsferja heims tekin í notkun í Noregi

Fyrsta bílferja heims sem gengur fyrir rafmagni hefur verið tekin í notkun í Noregi. Ferjan, sem siglir 5,7 km leið á milli Lavik og Oppedal, er smíðuð úr áli og tekur 120 fólksbíla og 350 farþega. Með notkun ferju með rafmótor á þessari siglingaleið í stað vélar sem brennir dísilolíu spararast um ein milljón lítra dísilolíu á ári og komið er í veg fyrir útblástur 570 tonna koltvísýrings.

Sjá nánar í frétt á visir.is og ship-technology.com.

Orkuskipti í samgöngum eru ótvírætt framfaraskref

Unnið hefur verið markvisst að því að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa og í samþykkt Alþingis frá 2011 er kveðið á um að árið 2020 skuli hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum vera 10%. Samdráttur í notkun jarðefnaeldsneytis stuðlar m.a. að umhverfisvernd, gjaldeyrissparnaði og auknu orkuöryggi.

Í frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins eru raktir nokkrir upplýsingapunktar um endurnýjanlegt eldsneyti á Íslandi, stefnu stjórnvalda og árangur í málaflokknum.

Örfyrirlestrar Grænu orkunnar 26. febrúar 2015

Græna orkan, ásamt Hafinu, Nordic Marina og Stofnun Sæmundar fróða stendur fyrir örfyrirlestrum um vistvæna haftengda starfsemi um borð í varðskipinu Þór (sjá nákvæma staðsetningu á korti) á morgun fimmtudag.

Dagskráin verður eftirfarandi:

14:00 Fundarsetning: Bryndís Skúladóttir, stjórnarformaður Grænu orkunnar

14:10 Örfyrirlestrar

  • Landhelgisgæslan, Ásgrímur Ásgrímsson – Starfsemi Landhelgisgæslunnar umhverfis Ísland
  • Nordic Marina, Ágústa S. Loftsdóttir – Samstarfsvettvangur um samdrátt í losun frá haftengdri starfsemi
  • Norðursigling, Árni Sigurbjarnarson – Rafseglbátur Norðursiglingar
  • Carbon Recycling International, Benedikt Stefánsson – Framleiðsla metanóls á Íslandi og notkun sem skiptaeldsneyti
  • EFLA, Eva Yngvadóttir – Umhverfisvænar leiðir EFLU
  • Hafið, Sigríður Ragna Sverrisdóttir – Hafið: Öndvegissetur um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins, Sigríður Ragna Sverrisdóttir
  • ARK Technology, Þorsteinn Svanur Jónsson – Umhverfisstjórn hjá ARK Technology

15:30 Fyrirspurnir og umræður

Gert er ráð fyrir að hver fyrirlestur verði 8-10 mínutur og tími gefist fyrir 1-2 stuttar spurningar að hverjum þeirra loknum. Fundarstjóri verður Bryndís Skúladóttir.

Þátttaka er ókeypis og öllum opin en vinsamlega sendið skráningu til amk@newenergy.is.

Bílastæði eru í Hörpu og gegnt Kolaporti.

Kynningardagur Smart, Green and Integrated Transport Challenge

Stjórnarsvið rannsókna og nýsköpunar og stjórnarsvið samgöngu- og flutningamála Evrópusambandsins standa fyrir kynningardegi Smart, Green and Integrated Transport Challenge þann 2. febrúar næstkomandi. Þar gefst áhugasömum tækifæri til að kynna sér auglýsingar eftir tillögum fyrir Smart, Green and Integrated Transport Challenge. Verkefnið, sem heyrir undir Horizon 2020, rammaáætlun ESB um rannsóknir og nýsköpun, miðar að því að auka samkeppnishæfni evrópska samgönguiðnaðarins og þróa samgöngukerfi sem nýtir auðlindir skynsamlega og þjónar bæði hagsmunum almennings og samfélagsins í heild á öruggan og umhverfisvænan hátt.

Nánari upplýsingar um kynninguna og skráningu má finna hér.

Fyrir áhugasama sem ekki sjá sér fært að taka þátt verður helstu kynningum streymt beint á heimasíðu verkefnisins.