Brunavélar í bílum bannaðar í Hollandi 2025?

Í Hollandi hefur hópur þingmanna verkamannaflokksins PvdA lagt fram ályktun  í neðri deild þingsins í Haag sem felur í sér þá stefnu að leyfa einungis sölu hreinorkubíla í landinu frá og með árinu 2025. Í þennan flokk falla bílar sem ekki gefa frá sér neinar gróðurhúsalofttegundir eða aðra mengun, rafbílar og vetnisbílar. Tillagan er umdeild enda ekki ljóst hvernig innviðir skulu styrktir til að mæta þörfum svo margra rafbíla en í henni er einnig kveðið á um að fjárfest skuli í sjálfakandi bílum  í þeim tilgangi að draga úr umferðarteppum í landinu.

Þess má geta að í París í desember fyrra settu 8 ríki í Bandaríkjum Norður Ameríku og 5 fullvalda ríki á stofn Alþjóðabandalag um hreinorkubíla (e. International Zero-Emission Vehicle Alliance) hvers stefna er að hraða rafbílavæðingu þannig að allir nýir bílar verði hreinorkubílar árið 2050.

Sjá nánar í frétt mbl.is og Inside EVs.

New York fylki ívilnar rafbílum

Í fjárhagsáætlun New York fylkis fyrir fjárhagsárið 2016-7 er í fyrsta skiptið gert ráð fyrir ívilnunum vegna kaupa á rafbílum. Í boði er endurgreiðsla sem nemur allt að $2000 vegna kaupa á tvinnbílum og hreinorkubílum. Hingað til hefur ríkisstjórn fylkisins hvatt til uppbyggingar rafbílainnviða fyrir almenning en það hefur skilað litlum árangri. New York fylgir í kjölfar nágrannafylkjanna Connecticut, Delaware, Rhode Island og Massachusetts sem hafa ívilnað rafbílum um tíma.

Sjá nánar hér.

Nær verð rafbíla og bensínbíla jafnvægi fyrir 2025?

Niðurstöður rannsóknar á vegum Bloomberg New Energy Finance benda til að verð á rafbílum muni halda áfram að lækka á næstu árum samhliða lækkandi verði rafhlaðna. Miklar líkur eru á því að fljótlega upp úr næsta áratug verði rafbílar víða orðnir hagkvæmari kostur en bílar sem brenna jarðefnaeldsneyti þegar á heildina er litið (heildarlíftímakostnaður bílsins, e. TCO) þrátt fyrir bætta  orkunýtni hinna síðarnefndu. Jafnframt er því spáð að hlutfall rafbíla á heimsvísu verði orðið 35% árið 2040.

Sjá umfjöllun BNEF, grein Bloomberg og frétt mbl.is.

Starfshópur um endurskoðun skattlagningar ökutækja óskar eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila

Starfshópur sem fjármála- og efnahagsráðherra skipaði í febrúar sl. og vinnur að endurskoðun skattlagningar ökutækja og eldsneytis óskar eftir sjónarmiðum hagsmunaaðila og annarra vegna áformanna. Endurskoðunin lýtur í meginatriðum að því að rannsaka núverandi fyrirkomulag og framkvæmd skattlagningar ökutækja og eldsneytis, leggja til breytingar á gildandi lögum og gera tillögu að framtíðarstefnu stjórnvalda í þessum efnum.  Sjá nánar hér í fréttatilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneyti.

Í þessu samhengi er rétt að rifja upp að Græna orkan stóð fyrir vinnustofu um gjaldtöku í samgöngum síðastliðið haust. Vinnustofan hófst á fjórum örfyrirlestrum; um núverandi gjaldtöku í samgöngum á Íslandi, gjaldtöku á grundvelli notkunar, álagi ökutækja á vegakerfið og fjármögnun stærri framkvæmda. Í kjölfarið var þátttakendum skipt í þrjá umræðuhópa sem ræddu álitaefni með eftirfarandi yfirskrift: (1) Skattlagning dísilolíu með hliðsjón af VW-hneykslinu. Er þörf á breyttum áherslum? (2) Mörkun skatttekna til gerðar og reksturs samgöngumannvirkja og breytingar sem verða með nýjum lögum um opinber fjármál. (3) Mikilvægi fjarskipta fyrir gjaldtöku framtíðar – GPS og upplýsingamiðlun, aðferðir.

Helstu umræðuatriði og niðurstöður hópanna voru eftirfarandi:
VW-hneykslið:

  • Að VW-hneykslið sem slíkt kallaði enn sem komið væri ekki á lagabreytingar.
  • Að með skattlagningu á NOx í útblæstri bifreiða kynni einfaldleika í skattkerfinu að verða fórnað.

Mörkun skatttekna:

  • Að mörkun skatttekna til uppbyggingar og viðhalds innviða vegakerfisins væri ekki aðalatriði heldur gagnsæi, þ.e. að borgarinn gæti áttað sig á fjárþörf viðhalds og uppbyggingar á hverjum tíma og hve miklum fjármunum væri í raun eytt í slík verkefni.
  • Að rétt væri að taka til skoðunar hvort tekjur af koltvísýringsgjöldum ættu að renna beint til uppbyggingar og viðhalds samgönguinnviða.

Fjarskipti – notkunargjöld:

  • Að það væri sanngjarnt og eðlilegt að innheimta gjöld miðað við raunverulega notkun samgönguinnviða.
  • Að kerfisbreyting í átt að gjaldlagningu miðað við raunverulega notkun væri í raun óhjákvæmileg og í samræmi við forsendur samgönguáætlunar.
  • Að þróun og prófunum mælibúnaðar vegna notkunargjalda væri ekki að fullu lokið.
  • Að rétt væri að taka til skoðunar hvort mögulegt væri að innheimta notkunargjöld á grundvelli upplýsingagjafar við gerð skattframtals.

Gjöld og skattar á ökutæki og eldsneyti almennt:

  • Að taka ætti til skoðunar hvort rétt væri að láta gjaldtöku ná til almenningssamgagna þar sem farþegar væru í raun að nýta samgönguinnviði með svipuðum hætti og aðrir.
  • Að tengja þyrfti skattbyrði með nánari hætti við áhrif ökutækisins á innviði, einkum með tilliti til þyngdar ökutækja.
  • Að taka þyrfti tillit til heildarlífsferlis íblöndunarefna í jarðefnaeldsneyti við ákvörðun kolefnisgjalda á eldsneyti.

Græna orkan hvetur hagsmunaaðila til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við starfshópinn. Erindi skulu send ráðuneytinu skriflega eða með tölvupósti til postur@fjr.is í síðasta lagi mánudaginn 4. apríl.

Samráðsfundur Grænu orkunnar vegna aðgerðaáætlunar um orkuskipti í samgöngum

Í nóvember síðastliðnum kynnti umhverfisráðherra sóknaráætlun ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum sem sett var fram í tengslum við COP21 í París, aðildarríkjafund Loftslagssamingsins. Áætlunin er til þriggja ára og byggir á sextán verkefnum sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka bindingu  kolefnis úr andrúmslofti, styðja alþjóðleg loftslagsverkefni og efla getu stjórnvalda  til að standa við strangari skuldbindingar  í loftslagsmálum.

Átta verkefni hafa það markmið að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og leggja stjórnvöld áherslu á samstarf stjórnvalda og atvinnulífs í flestum þessara áhersluverkefna. Stjórnvöld hafa kallað Grænu Orkuna til samstarfs vegna verkefnisins Orkuskipti í samgöngum. Skipaður hefur verið starfshópur á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og Grænu orkunnar sem hefur hafið vinnslu tillagna að aðgerðum til ná markmiðum sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér um að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum nái 10% árið 2020. Starfshópurinn hefur undanfarna tvo mánuði fundað með hagsmunaaðilum tengdum samgöngum á landi, haftengdri starfsemi sem og flugsamgöngum, og boðar nú til samráðsfundar félaga Grænu Orkunnar.

Opinn samráðsfundur Grænu Orkunnar verður haldinn að Grensásvegi 9, 17. mars 2016, klukkan 9. Á fundinum mun vinnuhópur kynna drög að aðgerðaáætlun og í kjölfarið munu fara fram umræður. Hér gefst tækifæri fyrir félaga Grænu Orkunnar til þess að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og eru félagar hvattir til þess að mæta og taka virkan þátt í umræðum.

Þátttaka er opin öllum félögum Grænu orkunnar og er ókeypis. Vinsamlega skráðu þig til þátttöku með tölvupósti í netfangið amk@newenergy.is