Kynning á NordBio áætluninni 3. mars

Kynningarfundur um NordBio verður haldinn í Norræna húsinu þriðjudaginn 3. mars 2015 milli 13 og 16.  Nordbio er samstarfsverkefni norrænna ráðherranefnda um umhverfismál, fiskveiðar, fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt, atvinnulífs-, orkumála- og byggðastefnu, menntun, menningu og rannsóknir.

Markmið NordBio er að draga úr sóun, minnka úrgang og tryggja sjálfbæra nýtingu lífauðlinda á Norðurlöndum, m.a. með fjölbreyttum rannsóknar- og nýsköpunarverkefnum, menntaverkefnum og þróun umhverfisvænni lausna við nýtingu.

Dagskrá:

Fundarsetning: Eygló Harðardóttir, samstarfsráðherra Íslands í Norrænu ráðherranefndinni

Lífhagkerfið – undirstaða sjálfbærrar þróunar Daði Már Kristófersson, dósent í náttúruauðlindahagfræði HÍ

Nordbio áætlunin: Halldór Runólfsson, formaður íslensku verkefnisstjórnar NordBio

WoodBio. Hlutverk viðarlífmassa í norræna lífhagkerfinu: Ólafur Eggertsson, Skógrækt ríkisins

Nýsköpun í lífhagkerfinu. Tækifæri til vöruþróunar og verðmætasköpunar: Sigrún Elsa Smáradóttir, Matís

Marina. Aukin notkun vistvænnar orku á sjó: Ágústa S. Loftsdóttir, Orkustofnun

Ermond. Vistheimt gegn náttúruvá: Guðmundur Halldórsson, Landgræðslu ríkisins

Biophilia. Sköðun sem kennsluaðferð: Björk Óttarsdóttir, mennta- og menningarmálaráðuneyti

Lífauðlindir Norðurlandanna: sjálfbærniviðmið: Brynhildur Davíðsdóttir, HÍ

Lífrænn úrgangur til nýsköpunar: Guðrún Lilja Kristinsdóttir, Umhverfisstofnun

Tækifæri tengd lífhagkerfinu á völdum svæðum: Sigríður Kristjánsdóttir, Nýsköpunarmiðstöð Íslands

Sjálfbær framleiðsla á próteini: Torfi Jóhannesson, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti

 

Fundarstjóri verður Danfríður Skarphéðinsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Fundurinn er öllum opinn. Sjá nánar hér.

Síðustu forvöð að skrá fyrirlestur á vinnustofu Grænu orkunnar

Græna orkan, í samstarfi við Stofnun Sæmundar Fróða, Oceana og Nordic Marina, hefur ákveðið að halda vinnustofu um vistvæna haftengda starfsemi.

Fyrirkomulagið verður örfyrirlestrar, sem haldnir verða frá 14:00 til 16:30 þann 26. febrúar um borð í varðskipinu Þór.

Meðal verkefna sem kynnt verða er hybrid bátur Norðursiglingar og notkun metanóls í sjávarútvegi.

Öllum er velkomið að kynna starfsemi sína og halda erindi þennan dag. Ef þú vilt halda örfyrirlestur, 8-10 mínútur, vinsamlegast sendu heiti á fyrirlestri til amk@newenergy.is fyrir lok dags í dag, 23. febrúar.

Þátttaka í vinnustofunni er opin öllum og ókeypis. Vinsamlega skráðu þig til þátttöku með tölvupósti í netfangið amk@newenergy.is.

Við hlökkum til að sjá ykkur!

Græna orkan býður til vinnustofu

Græna orkan, í samstarfi við Stofnun Sæmundar Fróða, Oceana og Nordic Marina, hefur ákveðið að halda vinnustofu um vistvæna haftengda starfsemi.

Fyrirkomulagið verður örfyrirlestrar, sem haldnir verða frá 14:00 til 16:30 þann 26. febrúar um borð í varðskipinu Þór. Ef skipið verður kallað til annarra verkefna, færist viðburðurinn í Orkugarð, Grensásvegi 9 (nánar síðar).

Hugmyndin er að miðla upplýsingum og að tengja saman aðila innan þessa geira þ.e. vistvæn haftengd starfsemi, til dæmis í sjávarútvegi, samgöngum eða ferðamennsku á sjó.

Meðal verkefna sem kynnt verða er hybrid bátur Norðursiglingar.

Við bjóðum þér að kynna þína starfsemi og halda erindi þennan dag. Ef þú vilt halda örfyrirlestur, 8-10 mínútur, vinsamlegast sendu heiti á fyrirlestri til amk@newenergy.is fyrir 23. febrúar. Fyrstir koma, fyrstir fá.

Þátttaka í vinnustofunni er opin öllum og ókeypis. Vinsamlega skráðu þig til þátttöku með tölvupósti í netfangið amk@newenergy.is.

Við hlökkum til að sjá ykkur!

Nissan Leaf valinn besti smábíllinn

Alþjóðlega greiningafyrirtækið IHS hefur útnefnt Nissan Leaf besta smábílinn á árinu 2014. Þetta kemur fram í árlegri skýrslu fyrirtækisins sem innheldur meðal annars yfirlit yfir þá bílaframleiðendur sem tekst hvað best að halda tryggð viðskiptavina sinna. Leaf var eini rafbíllinn sem hlaut viðurkenningu IHS fyrir árið 2014.

Sjá umfjöllum mbl.is og IHS.

Samningur um vetnisstöð á Arlanda flugvelli

Linde Group hefur í gegnum norrænt útibú sitt AGA gert samning um að reisa vetnisstöð á Arlanda flugvelli fyrir utan Stokkhólm. Stöðin, sem verður sú stærsta sinnar tegundar í Svíþjóð, mun geta sinnt 180 áfyllingum á dag, og við 700 bara þrýsting mun dælingin einungis taka 3 mínútur. Roger Andersson, þróunarstjóri hjá AGA Clean Energy, telur vetnisbíla með yfir 500 km drægi munu gegna mikilvægu hlutverki við að útrýma notkun jarðefnaeldsneytis í samgöngum fyrir 2030.

Sjá frétt Gasworld

Nissan Leaf söluhæsti rafbíll Evrópu árið 2014

Nissan Leaf seldist í 14.650 eintökum árið 2014, sem jafngildir 33% söluaukningu milli ára. Markaðshlutdeild Leaf nam ríflega fjórðungi, en alls seldust 56.000 rafbílar í Evrópu. Þá var Renault Zoe annar söluhæsti rafbíllinn í Evrópu árið 2014, með 11.227 eintök og Tesla Model S seldist í 8.734 eintökum. Sölu- og markaðsstjóri Nissan, Guillaume Carter, þakkar þetta aukinni vitundarvakningu hvað varðar sparnað í rekstrarkostnaði rafbíla í samanburði við bíla sem nota jarðefnaeldsneyti.

Sjá nánar á Evrópuvef Nissan.

Tveir af hverjum þremur rafhleðslustaurum í London ónotaðir

905 hleðslustaura fyrir rafbíla er að finna víðs vegar um London. Að sögn talsmanns breska bíleigendafélagsins RAC voru einungis 36% þeirra notaðir í júní 2014 og um fjórðungur notaður í júní mánuði árið áður. Hins vegar var rafbílum stungið í samband 2234 sinnum í júní 2013 en 4678 sinnum í sama mánuði 2014 og þykja þessar tölur endurspegla fjölgun rafbíla í borginni.

Sjá nánar í frétt mbl.is

1500 Mirai vetnisbílar seldir

Frá því Toyota kynnti Mirai vetnisbíl sinn um miðjan nóvember síðasta árs hafa pantanir fyrir 1500 bíla borist. Meirihluti þeirra, eða 60%, er frá ríkisstofnunum og fyrirtækjum. Viðbrögðin fara fram úr björtustu vonum Toyota manna, sem höfðu áætlað að seldir yrðu 400 bílar á árinu 2015.

Sjá frétt á mbl.is og Wall Street Journal