Græna orkan óskar félögum sínum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og þakkar árið sem er að líða. Við hlökkum til að takast á við verkefni ársins 2017!
Category Archives: Óflokkað
Orka úr saltpækli notuð í rafbíl
Frumkvöðlafyrirtækið Nanoflowcell tilkynnti nýverið að því hefði tekist að þróa aðferð til að nýta saltpækil sem aflgjafa fyrir rafbíla. Tæknin byggist á því að tvenns konar rafvökva, jónalausnum, er dælt í sitt hvorn tank í bíl Nanoflowcell, sem kallast Quarantino. Er vökvarnir blandast handan svokallaðrar flæðiskilju verður til raflausn er leysir frá sér raforku til að knýja bílinn. Fróðlegt verður að fylgjast með áframhaldandi prófun og þróun Quarantino bílsins.
Sjá nánar í frétt mbl.is.
Hugmyndasamkeppni um vistvænni skip
Græna orkan minnir á að skilafrestur tillagna í hugmyndasamkeppni Íslenska sjávarklasans, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins (ANR) og Íslenskrar Nýorku um vistvænni skip er 1. september næstkomandi. Valdar hugmyndir verða kynntar á ráðstefnunni Making Maritime Application Greener – 2016 sem haldin verður á Grand Hótel þann 4. október næstkomandi. Í lok ráðstefnunnar mun iðnaðar- og viðskiptaráðherra afhenda verðlaun fyrir bestu hugmyndirnar.
Sjá nánar á síðu ANR.
Orkusjóður auglýsir eftir styrkjum til uppbygginga innviða fyrir rafbíla
Orkusjóður hefur auglýst eftir umsóknum um styrki til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla á landsvísu. Þetta er eitt af 16 verkefnum sem kynnt voru sem hluti af sóknaráætlun ríkisstjórnar í loftslagsmálum í desember síðastliðnum.
Olíuinnflutningur drægist saman um 40% með rafbílavæðingu
Með aukinni notkun rafbíla væri unnt að draga úr olíuinnflutningi um 40% og lækka eldsneytiskostnað bifreiðaeigenda í Bretlandi um rúmlega 200.000 krónur á ári. Þetta kemur fram í skýrslu sem Cambridge Econometrics gerði fyrir European Climate Foundation.
Ef gert er ráð fyrir stöðugri aukningu rafbíla á næstu árum og að fjöldi þeirra nái 6 milljónum í Bretlandi árið 2030 væri unnt að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda um 47% þar í landi fyrir 2030. Fram kemur þó að til þess að rafbílavæðingin megi verða að veruleika sé nauðsynlegt að fjárfesta í innviðum því enn eru hleðslustöðvar fáar.
Vélahitarar spara eldsneyti og draga úr mengun
Eldsneytiskostnaður er án efa stór liður í rekstri heimila og samhliða hækkandi olíuverði undandarin ár hefur þörf fyrir sparnaðarleiðir aukist.
Stefán Ásgrímsson, ritstjóri hjá Fíb, segir frá ýmsum sparnaðaraðgerðum sem auðvelt er að hrinda í framkvæmd í grein Karls Eskils Pálssonar á bílasíðu mbl.is. Vélahitara má til að mynda nota til að hita kælivatn nokkru áður en ekið er af stað á morgni. Þá fer bíllinn strax í gang og mistöðin blæs heitu lofti. Með þessu móti sparast eldsneyti fyrstu 4-5 aksturskílómetrana, dregið er úr vélasliti og bifreiðar gefa frá sér a.m.k. 30% minna af mengunarefnum.
Sjá nánar hér.
Ráðstefna: Lífrænn úrgangur – bætt nýting, minni sóun
Ráðstefna verður haldin að Gunnarsholti á Rangárvöllum föstudaginn 20. mars næstkomandi. Viðfangsefni hennar er nýting þeirra verðmæta sem felast í lífrænum úrgangi, til dæmis til gasgerðar, skógræktar og landgræðslu. Skráning fer fram í tölvupósti á netfangið eddalinn@land.is fyrir 17. mars.
Dagskrá og nánari upplýsingar er að finna hér.
Skynsemi og hagkvæmni fólgin í vistakstri
Eldsneytiskostnaður er stór útgjaldaliður flestra heimila. Hægt er að draga umtalsvert úr þeim kostnaði með breyttu aksturslagi. Marteinn Guðmundsson, ökukennari í Reykjavík býður upp á námskeið í vistakstri fyrir fyrirtæki og einstaklinga. Hann segir m.a. að með jafnari ökuhraða fáist betri yfirsýn í umferðinni, eldsneyti sparist og dregið sé úr óþarfa mengun.
Grein mbl.is fjallar um ráðleggingar Marteins til sparnaðar og umhverfisbóta með vistakstri.
Kynning á NordBio áætluninni 3. mars
Kynningarfundur um NordBio verður haldinn í Norræna húsinu þriðjudaginn 3. mars 2015 milli 13 og 16. Nordbio er samstarfsverkefni norrænna ráðherranefnda um umhverfismál, fiskveiðar, fiskeldi, landbúnað, matvæli og skógrækt, atvinnulífs-, orkumála- og byggðastefnu, menntun, menningu og rannsóknir.
Markmið NordBio er að draga úr sóun, minnka úrgang og tryggja sjálfbæra nýtingu lífauðlinda á Norðurlöndum, m.a. með fjölbreyttum rannsóknar- og nýsköpunarverkefnum, menntaverkefnum og þróun umhverfisvænni lausna við nýtingu.
Dagskrá:
Fundarsetning: Eygló Harðardóttir, samstarfsráðherra Íslands í Norrænu ráðherranefndinni
Lífhagkerfið – undirstaða sjálfbærrar þróunar Daði Már Kristófersson, dósent í náttúruauðlindahagfræði HÍ
Nordbio áætlunin: Halldór Runólfsson, formaður íslensku verkefnisstjórnar NordBio
WoodBio. Hlutverk viðarlífmassa í norræna lífhagkerfinu: Ólafur Eggertsson, Skógrækt ríkisins
Nýsköpun í lífhagkerfinu. Tækifæri til vöruþróunar og verðmætasköpunar: Sigrún Elsa Smáradóttir, Matís
Marina. Aukin notkun vistvænnar orku á sjó: Ágústa S. Loftsdóttir, Orkustofnun
Ermond. Vistheimt gegn náttúruvá: Guðmundur Halldórsson, Landgræðslu ríkisins
Biophilia. Sköðun sem kennsluaðferð: Björk Óttarsdóttir, mennta- og menningarmálaráðuneyti
Lífauðlindir Norðurlandanna: sjálfbærniviðmið: Brynhildur Davíðsdóttir, HÍ
Lífrænn úrgangur til nýsköpunar: Guðrún Lilja Kristinsdóttir, Umhverfisstofnun
Tækifæri tengd lífhagkerfinu á völdum svæðum: Sigríður Kristjánsdóttir, Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Sjálfbær framleiðsla á próteini: Torfi Jóhannesson, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
Fundarstjóri verður Danfríður Skarphéðinsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
Fundurinn er öllum opinn. Sjá nánar hér.
Síðustu forvöð að skrá fyrirlestur á vinnustofu Grænu orkunnar
Græna orkan, í samstarfi við Stofnun Sæmundar Fróða, Oceana og Nordic Marina, hefur ákveðið að halda vinnustofu um vistvæna haftengda starfsemi.
Fyrirkomulagið verður örfyrirlestrar, sem haldnir verða frá 14:00 til 16:30 þann 26. febrúar um borð í varðskipinu Þór.
Meðal verkefna sem kynnt verða er hybrid bátur Norðursiglingar og notkun metanóls í sjávarútvegi.
Öllum er velkomið að kynna starfsemi sína og halda erindi þennan dag. Ef þú vilt halda örfyrirlestur, 8-10 mínútur, vinsamlegast sendu heiti á fyrirlestri til amk@newenergy.is fyrir lok dags í dag, 23. febrúar.
Þátttaka í vinnustofunni er opin öllum og ókeypis. Vinsamlega skráðu þig til þátttöku með tölvupósti í netfangið amk@newenergy.is.
Við hlökkum til að sjá ykkur!