Drægni Volt eykst um 40%

Ný kynslóð tvinnbílsins Chevrolet Volt mun búa yfir drægni allt að 85 km á rafmagninu einu og er það 40% meira en fyrr gerð bílsins. Við tekur bensínvél sem framleiðir rafmagn þegar hleðslan á liþíum rafhlöðunni klárast. Eigendur Volt komast því allra sinna ferða án þess að óttast að verða rafmagnslausir.

Sjá nánar í frétt á visir.is.

Ford rafbílaeigendur ánægðir með sína bíla

Ford lét nýverið gera könnun meðal tíu þúsund viðskiptavina sem keypt höfðu rafbíl eða tvinnbíl frá fyrirtækinu. Þar kom fram að 9 af hverjum 10 hyggist ekki kaupa bíl sem knúinn er jarðefnaeldsneyti aftur, eða 92% rafbílaeigenda og 94% tvinnbíleigenda. Þátttakendur nefndu helst jákvæða akstursupplifun og jákvætt mat á vistvænni tækni sem ástæður fyrir þessari ákvörðun.

Sjá nánar í umfjöllun CleanTechnica og hér.

Fiat Chrysler veðjar á vetnisbíla til framtíðar

Umræður um arftaka jarðefnaeldneytis sem orkugjafa bíla heldur áfram: hinn eilífi samanburður vetnis og rafmagns. Harald Wester, framkvæmdastjóri tæknisviðs Fiat Chrysler, telur vetni munu hafa vinninginn fram yfir rafmagn sem orkugjafi til framtíðar. Í þessu sambandi vildi hann þó ekki tjá sig um uppbyggingu innviða fyrir vetnisbifreiðar og vildi ekki gera mikið úr því hversu einfalt sé að setja upp hleðslustöð fyrir rafbíla.

Smellið hér fyrir grein og viðtal við Wester.

2016 útgáfa Fiat 500 (Mynd: AutoExpress.co.uk)

Hringvegurinn ekinn á rafbíl

Þeir Gísli Gíslason, Tómas Kristjánsson og Guðjón Hugberg Björnsson settu nýverið Íslandsmet þegar þeir keyrðu hringinn í kringum landið á rafbíl á einungis 30 klukkustundum. Fyrra met, sem Guðjón Hugberg átti ásamt fleirum, hafði verið sex dagar. Ferðin var farin á Tesla Model S bifreið, sem hefur 500 km drægi. Þeir félagar höfðu með sér hleðslustöð á stærð við nestisbox sem gerði þeim kleift að hlaða bílinn á þremur klukkustundum með þriggja fasa rafmagni í stað 6-8 klukkustunda en hún var auk þess nauðsynleg þar sem aðeins fjórar hraðhleðslustöðvar eru utan höfuðborgarsvæðisins.

Sjá nánar um hringferðina hér á mbl.is

Stjórnvöld styðji fjölgun vistvænna bifreiða

Stjórnvöld skulu stuðla frekar að fjölgun vistvænna bifreiða með hvötum og sýna gott fordæmi, segir forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Árið 2007 setti ríkisstjórnin markmið að auka hlutfall vistvænna ökutækja í eigu ríkisins úr 10% árið 2008 í 35% árið 2012. Þetta hefur þó ekki gengið eftir. Forsætisráðherra lýsti ánægju sinni yfir fjölgun rafbíla undanfarin ár og sagði æskilegt að menn skoðuðu möguleika á rafbílnum þegar kæmi að endurnýjun ráðherrabíla. Þetta kom fram í svari hans við spurningum Brynhildar Pétursdóttur, þingmanns Bjartrar framtíðar í óundirbúnum spurningatíma á Alþingi í liðinni viku.

Sjá nánar í frétt mbl.is

Hvað með rafhlöðu rafbílsins?

Rafhlaðan er dýrasti hluti rafbílsins en sá misskilningur virðist vera útbreiddur að fjárfesta þurfi í nýrri rafhlöðu á nokkurra ára fresti vegna þverrandi hleðslugetu. Gísli Gíslason hjá Even, sem selur Tesla bifreiðar, segir það af og frá. Stýring í rafhlöðu miði að því að hámarka endingartíma hennar, svo að eftir 8 ár hafi drægi bílsins ekki rýrnað meira en 10-20%. Þetta jafngildir því að drægi nýs bíls lækki úr 500 km í 420 km, sem er nokkuð meira en flestir ökumenn aka að jafnaði á dag.

Bæði Bjarni Ólafsson, sölumaður hjá BL, og Árni Þorsteinsson, sölustjóri VW hjá Heklu, taka í sama streng. Sé rétt hugsað um bílinn eigi geymslugeta rafhlöðunnar ekki að skerðast mikið á fyrstu tíu árum rafbílanna. Þetta kemur fram í grein á mbl.is.

Þegar rafhlöðunum er loks skipt fyrir nýjar, er ekki þar með sagt að þær séu til einskis nýtar. General Motors og Nissan hafa nú þegar fundið notagildi fyrir rafhlöður rafbíla sem hefur verið skipt út. Fimm rafhlöður úr Chevrolet Volt knýja t.a.m. ljósabúnað í gagnaveri GM í Michigan með rafmagni frá tveimur 2 kW vindtúrbínum og 74 kW röð sólarsella. Og Nissan mun, í samvinnu við Green Charge Networks, nýta rafhlöður úr Leaf bílum til staðbundinnar orkugeymslu víðs vegar um Bandaríkin og utan þeirra.

Sjá nánar hér.

Nýtt þjónustumerki fyrir rafhleðslu bíla vígt

Síðastliðinn sunnudag var sett upp nýtt þjónustumerki sem vísar á stað þar sem hlaða má ökutæki rafmagni. Það var Einar K. Guðfinnnsson, forseti  Alþingis, sem kom merkinu fyrir og tók það formlega í notkun við verslunina Verslunar-Geira,  við Þuríðarbraut við mörk þéttbýlisins í Bolungarvík.

Merkið var hannað af Vegagerðinni að ósk Samgöngufélagsins, en þetta er fyrsta merkið  með þessu útliti sem tekið er í notkun.  Nú þegar rafbílum fjölgar ört er nauðsynlegt að hægt sé að hlaða þá sem víðast og upplýsingar um aðgengi að hleðslu séu sýnilegar.

Einnig hefur verið útbúið sérstakt merki fyrir svokallaðar hraðhleðslustöðvar sem er eins útlits og merkið sem tekið var í notkun um helgina, að öðru leyti en að bætt hefur verið við mynd af skeiðklukku.

.

Bílaleiga býður rafbíla til leigu

Höldur-Bílaleiga Akureyrar býður nú upp á úrval rafbíla til leigu. Á dögunum fékk bílaleigan afhenta 11 rafbíla: Kia Soul EV frá Öskju,  Nissan Leaf frá BL og Volkswagen e-Golf frá Heklu. Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar, segir fyrirtækið markvisst leita leiða til að draga úr útblæstri bílaflota síns og kaup rafbílanna sé liður í því. Hann væntir þess að viðskiptavinir taki þessari viðbót við úrval bíla vel.

Sjá nánar í frétt mbl.is.

EVEN frumsýndi Tesla Model S P85D

Síðastliðinn laugardag var Tesla Model S P85D frumsýndur hjá EVEN bílum í Smáralind. Bíllinn er um 700 hestöfl og nær því 100 km hraða á einungis 3,2 sekúndum. Þetta afl er fengið frá rafmótor sem knýr framdekk og skilar 230 hestöflum og 470 hestafla mótor sem knýr afturdekk.  Þetta er í fyrsta skipti sem Tesla sendir frá sér fjórhjóladrifinn bíl.

Sjá nánar í frétt mbl.is og Top Gear.

Umhverfisvæn lúxusbifreið

Á bílasýningu Bílgreinasambandsins í Fífunni um liðna helgi var lúxustvinnbifreið úr S línu Mercedes Benz frumsýnd. Bíllinn er búinn þriggja lítra V6 vél sem skilar 333 hestöflum en einnig rafmótor sem bætir við 123 hö. Eldsneytiseyðsla er 2,8 lítrar fyrir hverja 100 km og útblástur einungis 65 grömm CO2 á ekinn kílómeter.

Sjá nánar í frétt mbl.is og Öskju.