Aðalfundur Grænu orkunnar 25. maí 2023

Aðalfundur Grænu orkunnar, Samstarfsvettvangs um orkuskipti, fer fram fimmtudaginn 25. maí 2023 13:00-15:00 í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35

Dagskrá aðalfundar verður sem hér segir og samkvæmt samþykktum:

Kosning fundarstjóra og fundarritara

Skýrsla stjórnar lögð fram

Reikningar lagðir fram til samþykktar

Breytingar á samþykktum

Ákvörðun árgjalds

Kosning stjórnar

Önnur mál

Allir félagsmenn mega sitja aðalfund og einungis er eitt atkvæði á hvert aðildarfyrirtæki eða -stofnun. Félagar teljast þeir sem greiða félagsgjald og þeir einir hafa atkvæðarétt á aðalfundi. Reikningar fyrir aðildargjöldum 2023 ættu þegar að hafa borist til aðildarfyrirtækja og hafa eindaga 1. maí.

Tillögur, sem óskað er eftir að teknar verði til afgreiðslu á fundinum, þurfa að berast félaginu a.m.k. 7 dögum fyrir boðaðan aðalfund, þ.e. 18. maí 2023, til Önnu Margrétar Kornelíusdóttur í netfangið amk@newenergy.is.

Tímabil tveggja stjórnarmanna sem sitja fyrir hönd atvinnulífsins lýkur á aðalfundinum. Þeir hyggjast bjóða sig fram til áframhaldandi stjórnarsetu en framboð til stjórnar eru velkomin og er stjórnarseta til tveggja ára.

Þeir félagar er hyggjast bjóða sig fram í stjórn skulu tilkynna framboð til Önnu Margrétar Kornelíusdóttur í netfangið amk@newenergy.is fyrir lok dags 18. maí 2023.


Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum fer fram málstofa sem ber yfirskriftina Nei, það er ekki pláss fyrir einn bensínbíl í viðbót. Egill Jóhannsson framkvæmdastjóri Brimborgar og María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins munu kynna og fara yfir vegasamgöngulíkan sem unnið hefur verið að í kjölfar samstarfsverkefnis atvinnulífs og stjórnvalda, Loftslagsvegvísir atvinnulífsins (LVA).

Í lok fundarins verða niðurstöður kosninga kynntar og fundi slitið um klukkan 15:00. Boðið verður upp á léttar veitingar.

Skýrsla starfshóps um skatta og skattaívilnanir

Starfshópur sem unnið hefur að skoðun á sköttum og skattaívilnunum á sviði umhverfismála skilaði í febrúar skýrslu til fjármála- og efnahagsráðherra. Starfshópurinn hafði m.a. það hlutverk að fara yfir álagningu skatta og gjalda og skattaívilnanir, með tilliti til framkvæmdar.

Í skýrslu starfshópsins er að finna 9 tillögur ásamt mótvægisaðgerðum og hugmyndum að næstu skrefum vegna útfærslu og framkvæmd einstakra tillagna.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast á vefsíðu Stjórnarráðsins

Kveikur fjallar um rafbílavæðinguna

Rafbílar í hleðslu (mynd úr einkasafni)

Kveikur fjallar um rafbílavæðingu landsins í þætti sínum í vikunni. Þar er fjallað um málefnið út frá sjónarmiðum rafbílaeigenda, rekstraraðila hleðsluinnviða, orkufyrirtækja og fleiri aðila. Meðal þeirra sem leggja orð í belg, ásamt rafbílaeigendum, eru

Anna Margrét Kornelíusdóttir, Íslenskri Nýorku

Auður Alfa Ólafsdóttir, Alþýðusamband Íslands – ASÍ

Guðjón Hugberg Björnsson, Orka náttúrunnar

Hafrún Þorvaldsdóttir, e1

Kjartan Rolf Árnason, RARIK

Sigurður Ástgeirsson, Ísorka

Sigurður Ingi Friðleifsson, Orkustofnun

Steingrímur Birgisson, Bílaleiga Akureyrar / Europcar

Tómas Kristjánsson, Rafbílasamband Íslands

Þáttinn í heild sinni má sjá á vefsíðu Kveiks.

Orkusjóður opnar fyrir umsóknir um styrki til orkuskipta verkefna

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur ákveðið að auglýstir verðir styrkir til orkuskipta að upphæð 900 milljónir kr. af þeim fjárveitingum sem veittar eru til loftslags- og orkumála í ár.

Að þessu sinni verða alls 900 milljónir til úthlutunar til eftirfarandi viðfangsefna

  • Framleiðsla endurnýjanlegs eldsneytis (raf- eða lífeldsneytis)
  • Innviðir fyrir orkuskipti (hleðslu- eða áfyllingarstöðvar)
  • Tækjabúnaður sem nýtir endurnýjanlega orku í stað olíu

Sjá nánar á vef Orkustofnunar.

Kynning á styrkjum sem bjóðast á sviði umhverfis-, loftslags- og orkumála

Viðburðurinn Grænir styrkir verður haldinn á Grand Hótel 23. mars.

Grænvangur, Rannís, Orkustofnun, Festa miðstöð um sjálfbærni, Enterprise Europe Network og umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytið bjóða til styrkjamóts.

Stuttar kynningar á helstu sjóðum og styrkjatækifærum sem standa Íslendingum til boða á sviði umhverfis-, orku-, og loftslagsmála verða í bland við örsögur aðila sem hafa farsæla reynslu af því að sækja í sjóði vegna grænna verkefna.

Í kjölfar áhugaverðra og praktískra erinda tekur við Styrkjamót en þá geta þátttakendur bókað örfundi til að kynnast, fræðast og kanna möguleika á samstarfi í framtíðinni.

Dagskrá viðburðarins er að finna á vefsíðu hans en þar má einnig ganga frá skráningu til þátttöku.

Leiðir til að hraða orkuskiptum í flugi til skoðunar innan URN

Mynd frá Isavia

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp sem mun skoða og leggja fram tillögur að leiðum til að hraða orkuskiptum í flugi, með notkun endurnýjanlegs eldsneytis fyrir millilandaflug. Starfshópurinn á í störfum sínum að taka mið af stefnu stjórnvalda, sem og aðgerðaáætlunum um orkuskipti og í loftslagsmálum. 

Guðrún Hafsteinsdóttir alþingismaður er formaður hópsins. Að auki skipa starfshópinn:

  • Alexandra Kjærnested Arnarsdóttir, EES-sérfræðingur, tilnefnd af utanríkisráðuneytinu
  • Erla Sigríður Gestsdóttir, teymisstjóri orkumála í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu
  • Jón Ásgeir H. Þorvaldsson, verkefnisstjóri í orkuskiptum hjá Orkustofnun
  • Ingvi Már Pálsson, tilnefndur af menningar- og viðskiptaráðuneytinu
  • Orri Páll Jóhannsson, alþingismaður, tilnefndur af forsætisráðuneytinu
  • Valgerður B. Eggertsdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af innviðaráðuneytinu

Hefur þú notað vefinn orkuskiptaspa.is?

Orkustofnun kynnti nýjan vef www.orkuskiptaspa.is á viðburði í nóvember síðastliðnum.

Orkuskiptalíkanið á vefnum er gagnvirkt verkfæri til að móta áætlanagerð út frá stillanlegum forsendum sem geta rímað við markmið, stefnu og skuldbindingar Íslands í orku- og loftslagsmálum.

Þar má breyta hinum ýmsu forsendum og sjá, myndrænt, hvaða áhrif þær hafa á útkomuna, til dæmis hlutfall nýrra orkugjafa, losun ákveðinna samgönguþátta og svo framvegis.

Skatttekjur ríkisins af hverjum bíl hafa dregist saman um 30% á síðustu 10 árum

Rafbílar í hleðslu í Noregi (Mynd: Græna orkan)

Skatttekjur ríkisins af hverjum bíl hafa dregist saman um 30% undanfarinn áratug. Á sama tíma hefur bílum fjölgað um þriðjung og útgjöld til vegakerfisins hafa stóraukist. Bílaleigubílar eiga sinn þátt í aukningunni. Þeim hefur fjölgað, en þó ekki nema um fimmtán þúsund á áratug.

Þetta kemur fram í frétt eftir Alexander Kristjánsson á ruv.is og vísar þar til upplýsinga er komu fram í erindi Stefaníu Kolbrúnar Ásbjörnsdóttur, hagfræðings hjá Samtökum atvinnulífsins á skattadegi Deloitte.