Orkusjóður úthlutar til orkuskiptaverkefna í þungaflutningum

Orkusjóður hefur nú úthlutað tæpum 400 milljónum til kaupa á vistvænum þungaflutningstækjum. Að þessu sinni hlutu 28 umsækjendur allir sömu styrkupphæð, óháð stærð verkefnis. Meðal þeirra eru Brimborg og Íslandspóstur, sem eru aðilar að Grænu orkunni. Umfjöllun og tæmandi lista styrkþega má finna á vef Orkustofnunar.

Orkusjóður er samkeppnissjóður og helstu matsviðmið eru hversu mikil olía (eða annað jarðefnaeldsneyti) fellur úr notkun fyrir tiltekna styrkupphæð – svokallað „verð á lítra“ viðmið. Orkusjóði er falið að flýta orkuskiptum með sannreyndri tækni. Sú tækni má vera ný af nálinni með því skilyrði að hún sé fullreynd markaðsvara.

Viðburður 21. nóvember: Engin orkusóun

Landsvirkjun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Orkustofnun hafa látið vinna ítarlega skýrslu um orkunýtni á Íslandi. Markmið vinnunnar var að varpa ljósi á tækifæri til bættrar orkunýtni hér á landi. Kortlagðar voru þær aðgerðir sem eru tæknilega og fjárhagslega framkvæmanlegar og mat lagt á stærð þeirra.

Danska ráðgjafarstofan Implement vann skýrsluna, en hún býr yfir mikilli sérfræðiþekkingu á orkumálum og orkunýtni. Helstu niðurstöður skýrslunnar verða kynntar á vefviðburði þriðjudaginn 21. nóvember.

Örkynningar Orkusjóðs og Grænu orkunnar 23. október 2023

Í september mánuði úthlutaði Orkusjóður rúmlega 900 milljónum til orkuskipta verkefna sem miða að því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og nýta í staðinn vistvæna, endurnýjanlega orku.

Af því tilefni bjóða Græna orkan, Orkusjóður og Umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytið til örkynninga á Nauthóli 23. október. Fundinum verður einnig streymt. Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála mun flytja opnunarávarp en svo fjalla styrkþegar um verkefni sín, sem eru afar fjölbreytt, misstór og verða unnin í mörgum atvinnugreinum.

Öll velkomin! Kaffi og léttar veitingar verða í boði að loknum kynningum. Fundarstjóri verður Anna Margrét Kornelíusdóttir, verkefnastjóri Grænu orkunnar.

Svo unnt sé að áætla magn veitinga og koma í veg fyrir matarsóun er skráning á staðfund æskileg. Skráning fer fram hér.

Mikill áhugi fyrir fundi um grænar samgöngur milli alþjóðaflugvallarins í Keflavík og höfuðborgarsvæðisins

Reykjavíkurborg, Innviðaráðuneytið, Kadeco, Svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum standa fyrir opnum fundi 12. október um samgöngur milli Keflavíkur og höfuðborgarsvæðisins. Fundurinn fer fram í Salnum í Kópavogi en verður einnig í beinu streymi. Skráning fer fram hér.

DAGSKRÁ

• Hágæðasamgöngur fyrir heimsborg | Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri

• Í átt að öflugri og kolefnishlutlausum almenningssamgöngum til Keflavíkurflugvallar | Gyða Mjöll Ingólfsdóttir, verkefnastjóri samgönguáætlunar hjá Innviðaráðuneytinu

• Þróunaráætlun Kadeco K64 – Keflavik Reykjavik Link KRL | Samúel Torfi Pétursson, þróunarstjóri hjá Kadeco

• Sagan og staðan – flugrúta, fluglest og fleiri hugmyndir | Lilja G. Karlsdóttir, samgöngusérfræðingur

• Pallborð: Hver eru næstu skref?

Þátttakendur í pallborði: Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri; Árni Freyr Stefánsson, Innviðaráðuneytið; Samúel Torfi Pétursson, Kadeco og Bryndís Friðriksdóttir, Vegagerðin.

• Val á samgöngulausnum – flugvallartengingar og reynslusögur | Thomas Potter, technical expert, Norconsult heldur erindi á ensku

• Grænni og snjallari samgöngur um allan heim | Carl Åge Björgan, framkvæmdastjóri Alstom í Noregi og Íslandi heldur erindi á ensku

• Tengingin milli Helsinki og Vantaa flugvallarins | Henry Westlin, borgarverkfræðingur Vantaa heldur erindi á ensku

• Pallborð: Hvernig gæti framtíðin litið út? Þátttakendur í pallborði: Thomas Potter, Norconsult; Carl Åge Björgan, Alstom og Pawel Bartoszek, formaður svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins.

Fundarstjóri: Lilja G. Karlsdóttir, samgöngusérfræðingur.

Ný skýrsla um stöðu kvenna í orku- og veitugeiranum sýnir að lítil breyting hefur orðið á stöðu kynjajafnréttis þegar kemur að ákvörðunar- og áhrifavaldi

Staða kvenna í orku- og veitugeiranum miðað við síðustu skýrslu, sem kom út 2021

Í vikunni gáfu Konur í orkumálum út fjórðu skýrsluna um áhrifa- og ákvörðunarvald kvenna í 12 stærstu orku- og veitufyrirtækjum á Íslandi. Skýrslan er gefin út annað hvert ár í samstarfi við EY og kom fyrst út árið 2017.

Helstu niðurstöður skýrslunnar 2023

  • Ákvörðunarvald og ábyrgð kvenna hefur farið úr 36 prósentustigum niður í 32%
  • Ennþá gegnir aðeins ein kona stöðu æðsta stjórnanda í þessum 12 fyrirtækjum úrtaksins
  • Frá síðustu útgáfu hafa fimm nýir forstjórar verið ráðnir, fjórir karlar en einungis ein kona
  • Tækifæri voru til að ráða fleiri konur í framkvæmdastjórn á síðustu 2 árum en í staðinn lækkaði hlutfall kvenna
  • Kvenkyns stjórnarformönnum hefur fækkað um 25%, eru nú aðeins þriðjungur
  • Enginn kvenkyns framkvæmdastjóri yfir 60 ár
  • Tvöfalt fleiri kvk en kk framkvæmdastjórar á aldursbilinu 30-44 ára
  • Vísbendingar um að forveri sé viðmið í ráðningum

Sjá nánar hér.

Starfshópur endurskoðar starfsumgjörð fyrirtækja á orkumarkaði út frá samkeppnishæfni, orkunýtingu og orkuskiptum

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp sem er falið það hlutverk að fara yfir starfsumgjörð fyrirtækja á orkumarkaði út frá samkeppnishæfni, orkunýtingu og orkuskiptum.

Meðal verkefna starfshópsins er að:

  • Skoða samkeppnisumhverfi fyrirtækja á raforkumarkaði
  • Skoða hvort þróun regluverks, innviða- og viðskiptaumhverfis sé í takt við breyttar þarfir vegna orkuskipta, fjölbreyttari orkukosta og meiri þátttöku notenda
  • Skoða möguleika á bættri orkunýtingu og minni orkusóun
  • Skoða hvernig raforkukerfið er í stakk búið til að taka við framleiðslu frá nýjum orkukostum með breytilegu framboði
  • Skoða rafeldsneytisþátt orkuskiptanna
  • Meta áhrif breytilegra orkugjafa á orkuverð 
  • Greina hindranir þess að orkufyrirtæki nýti orkukosti sem eru í nýtingaflokki í rammaáætlun

Starfshópurinn á að skila tillögu til ráðherra fyrir 1. maí 2024.

Atmonia hlýtur nýsköpunarverðlaun Samorku 2023

Framleiðsluferli Atmonia

Nýsköpunarverðlaun Samorku voru afhent í þriðja sinn á opnum fundi í Hörpu í dag og að þessu sinni hlaut Atmonia verðlaunin. Atmonia hefur þróað sjálfbæra tækni sem nýtir efnahvata fyrir rafefnafræðilega framleiðslu á ammoníaki fyrir áburð og rafeldsneyti. Þannig er ammoníakið eingöngu framleitt með andrúmslofti, vatni og rafmagni og losar framleiðslan þar með ekki gróðurhúsalofttegundir. Tæknin hentar auk þess vel til framleiðslu á eldsneyti þar sem framboð raforku er stopult eins og t.d. við vind- eða sólarorkuver. Við hlökkum til að fylgjast með frekari þróun Atmoniu og tæki þeirra og óskum þeim til hamingju með viðurkenninguna!

Ný raforkuspá Landsnets: hægja mun á orkuskiptum

Mynd: María Maack

Ný og uppfærð raforkuspá Landsnets var kynnt í gær, 24. ágúst. Þar kom m.a. fram að orkuskiptin munu kalla á aukna eftirspurn eftir raforku ásamt því að raforkunotkun heimila og þjónustuaðila mun halda áfram að aukast í takt við aukinn fólksfjölda. Landsnet spáir því að áformaðar jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir ásamt stækkunum eldri virkjana muni ekki duga fyrir orkuskiptum.

Nauðsynlegt er að horfa til annarra kosta s.s. vindorkuvera og til lengri tíma sólarorkuvera.

Til að bregðast við óvissu um þann hluta orkuskipta sem snýr að millilandaflugi og siglingum, sem jafnframt er sá hluti orkuskiptanna sem krefjast munu mestrar orku, eru settar fram tvær ólíkar sviðsmyndir um þróun þeirra og tilheyrandi eftirspurn.

Sjá nánar á vef Landsnets og Vísi.