Starfshópur endurskoðar starfsumgjörð fyrirtækja á orkumarkaði út frá samkeppnishæfni, orkunýtingu og orkuskiptum

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp sem er falið það hlutverk að fara yfir starfsumgjörð fyrirtækja á orkumarkaði út frá samkeppnishæfni, orkunýtingu og orkuskiptum.

Meðal verkefna starfshópsins er að:

  • Skoða samkeppnisumhverfi fyrirtækja á raforkumarkaði
  • Skoða hvort þróun regluverks, innviða- og viðskiptaumhverfis sé í takt við breyttar þarfir vegna orkuskipta, fjölbreyttari orkukosta og meiri þátttöku notenda
  • Skoða möguleika á bættri orkunýtingu og minni orkusóun
  • Skoða hvernig raforkukerfið er í stakk búið til að taka við framleiðslu frá nýjum orkukostum með breytilegu framboði
  • Skoða rafeldsneytisþátt orkuskiptanna
  • Meta áhrif breytilegra orkugjafa á orkuverð 
  • Greina hindranir þess að orkufyrirtæki nýti orkukosti sem eru í nýtingaflokki í rammaáætlun

Starfshópurinn á að skila tillögu til ráðherra fyrir 1. maí 2024.

Atmonia hlýtur nýsköpunarverðlaun Samorku 2023

Framleiðsluferli Atmonia

Nýsköpunarverðlaun Samorku voru afhent í þriðja sinn á opnum fundi í Hörpu í dag og að þessu sinni hlaut Atmonia verðlaunin. Atmonia hefur þróað sjálfbæra tækni sem nýtir efnahvata fyrir rafefnafræðilega framleiðslu á ammoníaki fyrir áburð og rafeldsneyti. Þannig er ammoníakið eingöngu framleitt með andrúmslofti, vatni og rafmagni og losar framleiðslan þar með ekki gróðurhúsalofttegundir. Tæknin hentar auk þess vel til framleiðslu á eldsneyti þar sem framboð raforku er stopult eins og t.d. við vind- eða sólarorkuver. Við hlökkum til að fylgjast með frekari þróun Atmoniu og tæki þeirra og óskum þeim til hamingju með viðurkenninguna!

Ný raforkuspá Landsnets: hægja mun á orkuskiptum

Mynd: María Maack

Ný og uppfærð raforkuspá Landsnets var kynnt í gær, 24. ágúst. Þar kom m.a. fram að orkuskiptin munu kalla á aukna eftirspurn eftir raforku ásamt því að raforkunotkun heimila og þjónustuaðila mun halda áfram að aukast í takt við aukinn fólksfjölda. Landsnet spáir því að áformaðar jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir ásamt stækkunum eldri virkjana muni ekki duga fyrir orkuskiptum.

Nauðsynlegt er að horfa til annarra kosta s.s. vindorkuvera og til lengri tíma sólarorkuvera.

Til að bregðast við óvissu um þann hluta orkuskipta sem snýr að millilandaflugi og siglingum, sem jafnframt er sá hluti orkuskiptanna sem krefjast munu mestrar orku, eru settar fram tvær ólíkar sviðsmyndir um þróun þeirra og tilheyrandi eftirspurn.

Sjá nánar á vef Landsnets og Vísi.

Tilnefningar óskast til Nýsköpunarverðlauna Samorku 2023!

Samorka óskar eftir tilnefningum til Nýsköpunarverðlauna Samorku, sem afhent verða á sérstökum nýsköpunarviðburði í haust og verður dagsetning kynnt innan skamms. Þetta er í þriðja sinn sem verðlaunin verða afhent.

Samorka leitar að framúrskarandi nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum sem byggja á:

💡 Orku- og/eða veitutengdum tæknilausnum eða þjónustu við orku- og veitufyrirtæki
💡 Nýtingu orku, heits vatns, neysluvatns eða fráveitu og/eða annarra auðlindastrauma til nýsköpunar

Tilnefningar sendist á samorka@samorka.is fyrir 20. ágúst. Farið verður með tilnefningarnar sem trúnaðarmál. Sjá nánar á vef Samorku.

Starfsemi Keflavíkurflugvallar verði kolefnislaus 2030

Alþjóðasam­tök flug­valla (ACI), hafa veitt Kefla­vík­ur­flug­velli alþjóðlega vott­un í lofts­lags­mál­um fyr­ir aðgerðir sem miða að því að draga úr kol­efn­is­spori flug­vall­ar­ins.
Í til­kynn­ingu frá Isavia kem­ur fram að stefna Kefla­vík­ur­flug­vall­ar í lofts­lags­mál­um hef­ur nú náð fjórða stigi af sex í kol­efn­is­vott­un­ar­kerfi ACI.

Sjá nánar á vef Isavia.

Loftslags vegvísar atvinnulífsins kynntir

Samstarfsaðilar verkefnahóps Loftslagsvegvísa atvinnulífsins

Í byrjun júní afhentu ellefu atvinnugreinar Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra 332 tillögur að aðgerðum sem stuðla eiga að auknum samdrætti í losun atvinnugreina. Afhendingin fór fram á Grænþingi í Hörpu 8. júní, í tengslum við útgáfu Loftslagsvegvísa atvinnulífsins (LVA). LVA er samstarfsverkefni atvinnulífs og stjórnvalda og var vinnan unnin á forsendum fyrirtækja í íslensku atvinnulífi með stuðningi frá vinnuteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.

Loftslagsvegvísar atvinnulífsins eru lifandi skjöl sem verða uppfærð reglulega, en einnig verður hægt að bæta við atvinnugreinum eftir því sem verkefninu vindur fram. Vefsíða verkefnisins heldur utan um vegvísa fyrir hverja atvinnugrein ásamt uppfærðum aðgerðum og framvindu þeirra.

Ársfundur Orkustofnunar 2023 – Orka, vatn og jarðefni

Ársfundur Orkustofnunar verður haldinn í Norðurljósum í Hörpu föstudaginn 9. júní á milli kl. 9 til 11:30. Húsið opnar kl: 8:30 og boðið er upp á morgunhressingu. Skráning á viðburðinn fer fram á síðu Orkustofnunar.

Dagskrá verður á þessa leið

Ávarp umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson

Ávarp orkumálastjóra Halla Hrund Logadóttir frá Orkustofnun

Skilvirkni stjórnsýslu á tímum orkuskipta og nýsköpunar

Leyndardómar leyfisveitinga Marta Rós Karlsdóttir, Ph.D. sviðsstjóri sjálfbærrar auðlindanýtingar

Örerindi

Skilvirkari stjórnsýsla – eingreiðslur vegna umhverfisvænnar orkuöflunar Eyrún G. Káradóttir, verkefnastjóri Orkuseturs

Áður en lengra er haldið, mikilvægi framtíðarsýnar í stjórnsýslu Sigurjón Njarðarson, lögfræðingur auðlindanýtingar og Tinna Jónsdóttir, verkefnastjóri auðlindaeftirlits

Raforkuöryggi – markaður, tækifæri og áskoranir

Raforkuöryggi í þágu almennings – Hanna Björg Konráðsdóttir, deildarstjóri raforkueftirlits Orkustofnunar

Örerindi

Orkuhermirinn: Hvernig metum við raforkuöryggi á Íslandi Dagur Helgason, sérfræðingur í greiningu orkumarkaða – Greining á orkulíkaninu
Gögn og greiningar – vannýtta auðlindin Björn Arnar Hauksson, deildarstjóri greininga og gagnavinnslu
Orkusjóður, tenging á milli fortíðar og framtíðar Eyrún G. Káradóttir, verkefnastjóri Orkuseturs

Lokaorð Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, fv. Forseti Íslands

Fundarstjórn Þorsteinn Másson, framkvæmdastjóri Bláma

Umsóknafrestur í Loftslagssjóð er 15. júní 2023

Opið er fyrir umsóknir um styrki til Loftslagssjóðs. Sjóðurinn styrkir verkefni sem draga úr losun eða hafa áhrif á samdrátt í losun.

Loftslagssjóður er sérstakur sjóður sem heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Hlutverk sjóðsins er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Styrkir til nýsköpunarverkefna eru ætlaðir m.a. til þess að styrkja rannsóknir og þróunarstarf í tengslum við aðlögun og innleiðingu á nýjum loftslagsvænum tæknilausnum og hönnun.

Sjá nánar á vef Rannís.