Hyundai í Svíþjóð framleiðir hlaðvörp um vetni

Á mánudaginn var frumflutti Hyundai í Svíþjóð fyrsta hlaðvarp (e. podcast) sitt um vetni. Tilgangurinn með því að bjóða upp á fræðslu um vetni sem orkubera er að auka þekkingu almennings og uppræta ýmsar mýtur sem fylgt hafa umræðu um tæknina. Hlaðvörpin verða tíu talsins og mun stjórnandinn, Mattias Goldmann, ræða við vísindamenn, stjórnmálamenn og ýmsa sérfræðinga um möguleika á notkun vetnis í dag, með það fyrir augum að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Hér má hlýða á fyrstu tvö hlaðvörpin.

Rafmagn afgreitt á bensínstöðvum í Indiana

Á Ricker’s Oil þjónustu- og bensínafgreiðslustöðvum í Indiana fylki Bandaríkjanna er nú einnig hægt hlaða rafbíla. Ricker’s Oil hefur í samstarfi við Nissan, Greater Indiana Clean Cities Coalition og Greenlots sett upp 9 hraðhleðslustaura á stöðvum sínum víðs vegar um fylkið. Hraðhleðslustöðvarnar eru þáttur í markaðsáætlun Nissan sem ber nafnið “No charge to charge” sem býður Leaf kaupendum ókeypis aðgang að hraðhleðslustöðvum í tvö ár.

Sjá nánar í frétt Green Car Reports hér.

Auknar ívilnanir fyrir vistvæna bíla í Oregon fyrirhugaðar

Yfirvöld í Oregon fylki í Bandaríkjum Norður Ameríku hafa síðastliðin ár unnið ötullega að því að byggja upp kerfi raf- og hraðhleðslustöðva meðfram helstu hraðbrautum. Nú er til umræðu frumvarp sem byði þeim, sem leigja eða kaupa hreinan rafbíl, tengiltvinnbíl eða vetnisbíl, ívilnun í formi niðurgreiðslu við gerð kaup- eða leigusamnings. Upphæð eingreiðslunnar næmi $1500 fyrir þá sem kaupa eða leigja tengiltvinnbíl eða tvinnbíl, $3000 til þeirra sem veldu rafbíl eða vetnisbíl og $1000 til rafhjólakaupenda og – leigjenda. Gildistími ívilnananna næði til 1. janúar 2022.

Þó nokkur fylki Bandaríkjanna veita ýmsa efnahagslega hvata til kaupa á bifreiðum sem ganga fyrir vistvænum orkugjöfum. Oregon hefur þó verið í fararbroddi hvað varðar innleiðingu rafbíla og uppbyggingu innviða, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan.

Nánar um fréttina hér.

2.6% samdráttur í mengun nýrra bíla árið 2014

Nýir bílar seldir í Evrópu árið 2014 gáfu frá sér að meðaltali 123,4 g CO2 á hvern ekinn kílómeter en árið áður var meðaltalið 126,7 g CO2/km. Langtímamarkmið Evrópusambandsins um mengun bifreiða er fyrir árið 2015 130 g CO2/km og 95 g CO2/km fyrir árið 2021. Bílaframleiðendur hafa náð öllum settum markmiðum yfirvalda fram til þessa og því engin ástæða til ætla annað en að áfram verði stigin skref til lækkunar útblásturs frá bifreiðum.

Sjá frétt á visir.is.

Mikill árangur hefur náðst í orkuskiptum í samgöngum á Íslandi

Græna orkan hefur í samvinnu við stjórnvöld unnið að framgangi orkuskipta á Íslandi í samræmi við skýrslu og aðgerðaáætlun sem lögð var fram á Alþingi í lok árs 2011 „Orkuskipti í samgöngum“. Græna orkan hefur komið með beinum hætti að ýmsum breytingum sem hafa verið hvati til orkuskipta. Helstu aðgerðirnar eru annars vegar skattalegar ívilnanir fyrir rafmagns- eða tengiltvinnbifreiðar sem settar voru með bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 62/2012 og hins vegar setning söluskyldu fyrir endurnýjanlegt eldsneyti með lögum nr. 40/2013.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra kynnti í dag nýja skýrslu um þróun orkuskipta í samgöngum á ríkisstjórnarfundi. Skýrslan er unnin af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Orkustofnun og Grænu orkunni. Þar kemur meðal annars fram að undanfarin fjögur ár hefur hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis til samgangna tífaldast.

Stefnt er að því að skýrslan verði lögð fyrir Alþingi nú á vorþingi til kynningar og umfjöllunar.

Sjá nánar í fréttatilkynningu á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.

 

VW veðjar á tvinntæknina, í bili

Volkswagen ætlar að helga sig tvinnbílum á næstu árum í stað hreinna rafbíla. Þetta kemur fram í máli Martins Winterkorn, forstjóra VW, en fyrirtækið telur þetta skynsamlega stefnu, þar til orkumeiri rafgeymar verða að raunveruleika. Rafgeymar fyrir rafbíla séu enn of þungir, of dýrir og hafi litla geymslugetu til þess að vera samkeppnisfærir við bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Winterkorn telur tvinnbíla munu gegna mikilvægu hlutverki í því að ná markmiðum um samdrátt í útblæstri gróðurhúsalofttegunda en fyrirtækið muni áfram verja fé til fjárfestinga á sviði rafbílasmíði.

Sjá frétt mbl.is.

Rafbíll söluhæsta bílgerðin hjá BL í mars

Í nýliðnum marsmánuði var Nissan var söluhæsta einstaka merki hjá BL og Nissan Leaf mest selda einstaka bílgerðin, en 25 eintök seldust í mánuðinum. Skúli K. Skúlason, framkvæmdastjóri sölusviðs BL, segir vinsældir Leaf aukast í öllum markhópum, hjá fjölskyldum, fyrirtækjum og bílaleigum en þetta sé í fyrsta sinn sem rafbíll sé mest selda einstaka bílgerðin hjá BL.

Sjá nánar í frétt mbl.is.

Sjálfbærni og sjálfakandi bílar hjá Daimler

Í sjálfbærniskýrslu Daimler fyrir árið 2014 kemur fram að þótt framleiðsla fyrirtækisins hafi aukist um 5% milli ára, hafi útblástur koltvísýrings dregist saman um 2,5%. Daimler býður í dag upp á tvo tvinnbíla, S500 og C350, og stefnir að því að kynna til sögunnar tíu nýjar gerðir umhverfisvænna bíla árið 2017.

Daimler hefur einnig unnað að prófunum og  þróun sjálfakandi bifreiða, sjálfrennireiða. Það eru hins vegar margir þættir sem taka þarf tillit til, lagalegir og siðferðileigr, áður en slík tækni verður leyfð í almennri umferð. “Hvernig á sjálfrennireið til að mynda að bregðast við yfirvofandi árekstri? Hver ber ábyrgð við þessar aðstæður og hvernig skal tryggingum hagað? Þetta eru spurningar sem mikilvægt er að ræða og svara.” segir Dr. Christine Hohmenn-Dennhardt, stjórnarmaður Daimler AG.

Sjá umfjöllun Daimler hér og sjálfbærniskýrslu fyrirtækisins hér.

Aðalfundur Grænu orkunnar

Aðalfundur Grænu orkunnar var haldinn í Orkugarði 24. mars síðastliðinn.

Stjórnarformaður, Bryndís Skúladóttir, fór yfir skýrslu stjórnar og helstu verkefni Grænu orkunnar frá síðasta aðalfundi, sem haldinn var í nóvember 2014.

Fram kom í máli formanns að aðgerðir Grænu orkunnar hefðu skilað árangri m.a. í auknu hlutfalli endurnýjanlegs eldsneytis í samgöngu á landi og aukningu á fjölda vistvænna bifreiða á Íslandi. Sjá nánar í skýrslu stjórnar og skýrslu Grænu orkunnar, Orkuskipti í samgöngum – áfangaskýrsla 2015, sem gerð verður opinber á næstu vikum.

Fjórir stjórnarmenn úr röðum félagsmanna voru sjálfkjörnir á fundinum og verður stjórn Grænu orkunnar eftifarandi:

  • Ásta Þorleifsdóttir, innanríkisráðuneyti
  • Benedikt S. Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðuneyti
  • Berglind Rán Ólafsdóttir, Landsvirkjun
  • Erla Sigríður Gestsdóttir, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti
  • Guðmundur Ólafsson, Mannviti hf.
  • Ólafur Jóhannsson, Samtökum iðnaðarins
  • Skúli K. Skúlason, Bílgreinasambandinu

Umhverfisráðuneyti mun skipa fulltrúa í stjórn á næstu dögum. Græna orkan þakkar Bryndísi Skúladóttur, Teiti Gunnarssyni og Ingvari Pétri Guðbjörnssyni fyrir farsælt samstarf.