Tíunda hraðhleðslustöðin á Íslandi opnuð

Tíunda hraðhleðslustöð ON á Suður- og Vesturlandi var vígð 9. júní síðastliðinn við Dalbraut 1 á Akranesi. Fyrir eru stöðvar við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, við bifreiðaumboð BL við Sævarhöfða, við Smáralind, við Skeljung á Miklubraut, á Fitjum í Reykjanesbæ, við verslun IKEA í Garðabæ, í Borgarnesi, á Selfossi og við Fríkirkjuveg. Hraðhleðsluverkefni ON er unnið í samstarfi við BL ehf. og Nissan Europe, sem lögðu hleðslustöðvarnar endurgjaldslaust til verkefnisins. Orka náttúrunnar sér um uppsetningu þeirra og rekstur.

Sjá frétt ON hér.

Ráðstefna: Nordic Electric Bus Initiatives

1.-2. september næstkomandi verður haldin málstofa um þróun rafmagnsstrætisvagna í Lindholmen vísindagarði í Gautaborg. Það eru Swedish Forum for transport innovation og Nordic Energy Research sem standa að málstofunni. Markmið hennar er að efla tengsl á milli  framleiðenda, háskólasamfélagsins og þeirra sem koma að samgöngumálum,  miðla þekkingu og ræða möguleika og hindranir til rafvæðingar strætisvagna í almenningssamgöngum.

Þátttaka er ókeypis. Dagskrá og nánari upplýsingar er að finna hér.

Nýtt þjónustumerki fyrir rafhleðslu bíla vígt

Síðastliðinn sunnudag var sett upp nýtt þjónustumerki sem vísar á stað þar sem hlaða má ökutæki rafmagni. Það var Einar K. Guðfinnnsson, forseti  Alþingis, sem kom merkinu fyrir og tók það formlega í notkun við verslunina Verslunar-Geira,  við Þuríðarbraut við mörk þéttbýlisins í Bolungarvík.

Merkið var hannað af Vegagerðinni að ósk Samgöngufélagsins, en þetta er fyrsta merkið  með þessu útliti sem tekið er í notkun.  Nú þegar rafbílum fjölgar ört er nauðsynlegt að hægt sé að hlaða þá sem víðast og upplýsingar um aðgengi að hleðslu séu sýnilegar.

Einnig hefur verið útbúið sérstakt merki fyrir svokallaðar hraðhleðslustöðvar sem er eins útlits og merkið sem tekið var í notkun um helgina, að öðru leyti en að bætt hefur verið við mynd af skeiðklukku.

.

Ef bensín væri frítt…

Mynd fengin frá Synergy Solar Systems

Flestir yrðu hissa ef þeir upplifðu það að geta dælt bensíni á bílinn án þess að borga fyrir það. Það er samt einmitt það sem eigendur rafbíla gera – hlaða bílinn frítt á hraðhleðslustöðvum á Íslandi! Það sama á við um flestar hleðslustöðvar fyrir almenning í Bandaríkjunum. Þar geta rafbílaeigendur geta notað appið Plugshare til að finna næstu stöð. Ókeypis rafmagn á hraðhleðslustöðvum lækkar enn frekar rekstrarkostnað rafbíla.

Hvað með þau fyrirtæki sem hýsa stöðvarnar á lóðum sínum? Hvað græða þau á því að bjóða upp á frítt rafmagn og/eða bílastæði á meðan hlaðið er? Hleðslustöðvarnar veita þeim nýtt tækifæri til að laða til sín viðskiptavini auk þess sem þeir staldra lengur við.

Þetta kemur fram í frétt á síðu Green Car Reports og Sierra Club.

 

 

 

Bílaleiga býður rafbíla til leigu

Höldur-Bílaleiga Akureyrar býður nú upp á úrval rafbíla til leigu. Á dögunum fékk bílaleigan afhenta 11 rafbíla: Kia Soul EV frá Öskju,  Nissan Leaf frá BL og Volkswagen e-Golf frá Heklu. Steingrímur Birgisson, forstjóri Bílaleigu Akureyrar, segir fyrirtækið markvisst leita leiða til að draga úr útblæstri bílaflota síns og kaup rafbílanna sé liður í því. Hann væntir þess að viðskiptavinir taki þessari viðbót við úrval bíla vel.

Sjá nánar í frétt mbl.is.

EVEN frumsýndi Tesla Model S P85D

Síðastliðinn laugardag var Tesla Model S P85D frumsýndur hjá EVEN bílum í Smáralind. Bíllinn er um 700 hestöfl og nær því 100 km hraða á einungis 3,2 sekúndum. Þetta afl er fengið frá rafmótor sem knýr framdekk og skilar 230 hestöflum og 470 hestafla mótor sem knýr afturdekk.  Þetta er í fyrsta skipti sem Tesla sendir frá sér fjórhjóladrifinn bíl.

Sjá nánar í frétt mbl.is og Top Gear.

Umhverfisvæn lúxusbifreið

Á bílasýningu Bílgreinasambandsins í Fífunni um liðna helgi var lúxustvinnbifreið úr S línu Mercedes Benz frumsýnd. Bíllinn er búinn þriggja lítra V6 vél sem skilar 333 hestöflum en einnig rafmótor sem bætir við 123 hö. Eldsneytiseyðsla er 2,8 lítrar fyrir hverja 100 km og útblástur einungis 65 grömm CO2 á ekinn kílómeter.

Sjá nánar í frétt mbl.is og Öskju.

ESB styrkir verkefni um þróun stórrar rafmagnsferju

Evrópusambandið mun taka þátt í fjármögnun verkefnis sem gengur út á að þróa fyrstu ferju heims af miðlungs stærð sem gengur eingöngu fyrir rafmagni. Ferjan mun ganga fyrir tveimur rafhlöðum sem samtals gefa orku upp á 3800 kílóvattstundir. Tveir rafmótorar munu hvor um sig gefa 750 kW.

Verkefnið, sem nefnist e-Ferry, er samstarf danskra, norskra og grískra aðila og hlaut nýverið 16 milljón evra styrk frá ESB. Áætlað er að ferjan verði tilbúin árið 2017 og muni ferja bíla og farþega milli Ærö eyju og meginlands Danmerkur.

Sjá nánar í frétt the Maritime Executive.

Hyundai í Svíþjóð framleiðir hlaðvörp um vetni

Á mánudaginn var frumflutti Hyundai í Svíþjóð fyrsta hlaðvarp (e. podcast) sitt um vetni. Tilgangurinn með því að bjóða upp á fræðslu um vetni sem orkubera er að auka þekkingu almennings og uppræta ýmsar mýtur sem fylgt hafa umræðu um tæknina. Hlaðvörpin verða tíu talsins og mun stjórnandinn, Mattias Goldmann, ræða við vísindamenn, stjórnmálamenn og ýmsa sérfræðinga um möguleika á notkun vetnis í dag, með það fyrir augum að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda.

Hér má hlýða á fyrstu tvö hlaðvörpin.

Rafmagn afgreitt á bensínstöðvum í Indiana

Á Ricker’s Oil þjónustu- og bensínafgreiðslustöðvum í Indiana fylki Bandaríkjanna er nú einnig hægt hlaða rafbíla. Ricker’s Oil hefur í samstarfi við Nissan, Greater Indiana Clean Cities Coalition og Greenlots sett upp 9 hraðhleðslustaura á stöðvum sínum víðs vegar um fylkið. Hraðhleðslustöðvarnar eru þáttur í markaðsáætlun Nissan sem ber nafnið “No charge to charge” sem býður Leaf kaupendum ókeypis aðgang að hraðhleðslustöðvum í tvö ár.

Sjá nánar í frétt Green Car Reports hér.