Úthlutun Orkusjóðs til uppbyggingar rafinnviða kynnt

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur staðfest tillögur ráðgjafanefndar Orkusjóðs um veitingu styrkja til uppbyggingar innviða fyrir rafbíla. Verkefnið er hluti af sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum sem sett var fram í tengslum við 21. fund aðildarríkja loftslagssamningsins í París (COP21).

Samkvæmt tillögum ráðgjafarnefndar Orkusjóðs hljóta 16 verkefni styrk, samtals að fjárhæð 201 m.kr. Með þessum verkefnum verður hægt á næstu tveimur árum að byggja upp heildstætt net hleðslustöðva fyrir flesta landsmenn og þannig stigið stórt skref í rafbílavæðingu Íslands. Er þar bæði um hraðhleðslustöðvar og hefðbundnar hleðslustöðvar að ræða, samtals 42 hraðhleðslustöðvar og 63 hefðbundnar stöðvar.

Sjá nánar í tilkynningu ráðuneytisins hér.

Hleðslustöðvar 2016

París, Madríd, Aþena og Mexíkóborg banna dísilbíla fyrir árið 2025

Borgarstjórar Parísar, Madrídar, Aþenu og Mexíkóborgar tilkynntu nú fyrir skömmu eftir C40 ráðstefnu borgarstjóra um loftslagsmál að þeir hygðust banna akstur dísilbíla í miðborgum sínum. Fjöldi þeirra hefur farið vaxandi síðastliðin ár m.a. vegna þess að útblástur dísilbíla inniheldur hlutfallslega minna koldíoxíð en útblástur bensínbíla. Bruni dísils gefur hins vegar af sér köfnunarefnisdíoxíð og sót, sem valda mikilli mengun í stórborgum og geta stuðlað að öndunarfærasjúkdómum. Talsmaður Friends of the Earth, Jenny Bates, fagnar ákvörðuninni og telur hana vera mikilvægur liður í því að draga úr loftslagsáhrifum af manna völdum.

Sjá nánar hér í grein Climate Action.

 

 

Bill Gates kallar eftir kraftaverki í orkumálum

Bill Gates segir í nýlegu viðtali við The Atlantic að einkageirinn sé einfaldlega of eigingjarn til að þróa hreina og hagkvæma orkugjafa sem leyst gætu jarðefnaeldsneyti af hólmi. Í sama viðtali tilkynnti hann um 2 milljarða dollara framlag til málefnisins og skoraði á aðra til að gera slíkt hið sama, til þess að Bandaríkin mættu verða kolefnislaus árið 2050.

Sjá viðtalið í heild sinni hér.

Enn ívilna vestræn ríki jarðefnaeldsneyti

Þrátt fyrir áratugalanga umræðu um gróðurhúsaáhrif og hnattræna hlýnun er jarðefnaeldsneyti víða enn ívilnað sem gerir það að verkum að það vistvænt eldsneyti og endurnýjanlegir orkugjafar eru síður samkeppnishæft á markaði. Nú í síðustu viku á fundi G20, hópi 20 ríkja með stærstu hagkerfi heims, tókst enn ekki að ná sátt um hvernig draga mætti úr ívilnunum  vegna jarðefnaeldsneytis. Þar stóðu Sádi Arabar helst í vegi fyrir því að samkomulag næðist þrátt fyrir að þeir hafi þegar byrjað að draga úr niðurgreiðslu á jarðefnaeldsneyti heima fyrir.

Sjá nánar í frétt Washington Post.

Drög að lífhagkerfisstefnu Íslands kynnt

Undanfarna mánuði hefur farið fram vinna á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við gerð stefnu um eflingu lífhagkerfisins á Íslandi.
Markmið lífhagkerfisstefnu fyrir Ísland eru að styðja sjálfbæra þróun og uppbyggingu atvinnulífs sem byggir á nýtingu lífauðlinda, þvert á hinar svonefndu hefðbundnu atvinnugreinar, landbúnað, sjávarútveg og matvælavinnslu.

Nú hafa drög að stefnunni verið birt og eru til kynningar. Þeir sem láta sig þetta málefni varða eru hvattir til að kynna sér drögin og senda athugasemdir eða ábendingar til ráðuneytisins fyrir 20. ágúst 2016.

Sjá nánar á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Lífhagkerfisstefna 2016

Þingsályktunartillaga um orkuskipti kynnt á vorþingi

Þingsályktunartillaga um orkuskipti var lögð fram á lokadögum vorþingsins til kynningar en hún er hluti af sóknaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Tillagan er unnin í samstarfi við Grænu orkuna, samstarfsvettvang um orkuskipti og felur hún í sér markmið um orkuskipti á landi, láði og legi sem ná allt til ársins 2030.    Í tillögunni er aðgerðaráætlun í 25 liðum sem miða að því að draga kerfisbundið úr notkun jarðefnaeldsneytis og er m.a. stefnt að því að endurnýjanleg orka í samgöngum á landi verði 30% og 10% á hafi árið 2030.
Sjá þingsályktunartillöguna í heild sinni hér.

Nordic Energy Technology Perspectives 2016 kynning

Næstkomandi mánudag, 13. júní,  munu norrænir vísindamenn og Alþjóða orkumálastofnunin (IEA), kynna skýrslu um viðhorf til orkutækni og þróun orkumarkaðarins á Norðurlöndunum til ársins 2050.

Skýrslan, Viðhorf til orkutækni á Norðurlöndunum 2016 (Nordic Energy Technology Perspectives 2016) er norræn útgáfa af sambærilegri alþjóðlegri skýrslu.  Í skýrslunni kemur fram að í gegnum svæðisbundið samstarf geta Norðurlönd náð nánast kolefnishlutlausu orkukerfi árið 2050 og dregið úr kolefnisútblæstri í Evrópu með útflutningi á hreinni raforku.

Sjá nánar á síðu Orkustofnunar og NETP, dagskrá fundarins hér.

Skráning til þátttöku hér.