Málþing um oxun metans 14. ágúst

Þann 14. ágúst næstkomandi munu EFLA verkfræðistofa og Samband íslenskra sveitarfélaga standa fyrir málþingi um oxun metans. Fjallað verður um meðhöndlun hauggass á nokkrum urðunarstöðum á Íslandi auk þess sem Alexandre Cabral mun kynna rannsóknir og aðferðir við oxun metans í Quebec í Kanada. Málþingið fer fram í húsakynnum Sorpu í Álfsnesi fyrir hádegi, 9-12.

Dagskrá má nálgast hér og skráning er ekki nauðsynleg.


					

Rafknúið hvalaskoðunarskip vígt

Norðursigling á Húsavík vígði á sunnudag Opal, rafknúið hvalaskoðunarskip sitt að viðstöddu fjölmenni. Þetta er í fyrsta skipti sem tækni sem þessi er notuð um borð í skipi en nota má skrúfubúnaðinn til að hlaða rafmagni  á rafgeymi skipsins þegar það siglir undir seglum.

Sjá nánar á mbl.is og Business Wire.

Fyrsti rafknúni hvalaskoðunarbáturinn

Næstkomandi sunnudag mun Norðursigling á Húsavík taka í notkun fyrsta rafknúna hvalaskoðunarbátinn. Tvímastra skonnortan Opal er fyrsta skipið með skrúfu­búnað sem jafn­framt get­ur hlaðið orku inn á geym­ana þegar það sigl­ir fyr­ir segl­um. Búnaður hennar hefur verið í þróun um skeið og er afrakstur samstarfs fjölmargrar innlendra og erlendra aðila.

Sjá nánar hér.

 

 

 

 

 

 

 

United Airlines notar lífeldsneyti í innanlandsflugi

Síðar í sumar mun bandaríska flugfélagið United Airlines hefja notkun á lífeldsneyti sem framleitt er úr endurunnum landbúnaðarúrgangi og dýrafitu. United hefur gert samning við Fulcrum BioEnergy í Californiu um kaup á endurnýjanlegu eldsneyti sem blanda má saman við hefðbundið þotueldsneyti. Flugfélagið segir verðið lífeldnseytisins vel samkeppnishæft við jarðefnaeldnseyti og reiknar auk þess með að draga verulega úr útblæstri gróðuhúsalofttegunda með notkun þess. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem bandarískt flugfélag notar endurnýjanlegt eldsneyti í áætlunarflugi innanlands.

Sjá nánar um frétt NY Times hér.

Suður Korea eflir innviði fyrir rafbíla

Ívilnunum sem stjórnvöld í Suður Kóreu hafa boðið kaupendum rafbíla síðan 2010 hefur verið vel tekið af almenningi. Þó eru í dag aðeins 1800 rafbílar skráðir í landinu, þar af 850 sem seldir voru árið 2014. Við þessu ætla stjórnvöld að bregðast með því að efla uppbyggingu innviða fyrir rafbíla þar sem flestir Suður Kóreubúar hafa ekki aðgang að rafmagni til hleðslu heima við líkt og víða á Vesturlöndum. Borgarstjórn Seoul hefur ákveðið að fjölga þeim 100 hleðslustöðum sem fyrir eru um 100.000. Hér er þó ekki um að ræða hraðhleðslustöðvar, heldur rafmagnsinnstungur fyrir ferðahleðslubúnað. Það er von stjórnvalda að þessar aðgerðir, auk ívilnana sem þegar eru í gildi, verði til þess að glæða rafbílasölu í landinu og færi þau nær markmiði sínu, 200.000 bílum árið 2020.

Sjá nánar hér og hér.

DC hraðhleðsla Kia Soul bifreiðar

Hvað með rafhlöðu rafbílsins?

Rafhlaðan er dýrasti hluti rafbílsins en sá misskilningur virðist vera útbreiddur að fjárfesta þurfi í nýrri rafhlöðu á nokkurra ára fresti vegna þverrandi hleðslugetu. Gísli Gíslason hjá Even, sem selur Tesla bifreiðar, segir það af og frá. Stýring í rafhlöðu miði að því að hámarka endingartíma hennar, svo að eftir 8 ár hafi drægi bílsins ekki rýrnað meira en 10-20%. Þetta jafngildir því að drægi nýs bíls lækki úr 500 km í 420 km, sem er nokkuð meira en flestir ökumenn aka að jafnaði á dag.

Bæði Bjarni Ólafsson, sölumaður hjá BL, og Árni Þorsteinsson, sölustjóri VW hjá Heklu, taka í sama streng. Sé rétt hugsað um bílinn eigi geymslugeta rafhlöðunnar ekki að skerðast mikið á fyrstu tíu árum rafbílanna. Þetta kemur fram í grein á mbl.is.

Þegar rafhlöðunum er loks skipt fyrir nýjar, er ekki þar með sagt að þær séu til einskis nýtar. General Motors og Nissan hafa nú þegar fundið notagildi fyrir rafhlöður rafbíla sem hefur verið skipt út. Fimm rafhlöður úr Chevrolet Volt knýja t.a.m. ljósabúnað í gagnaveri GM í Michigan með rafmagni frá tveimur 2 kW vindtúrbínum og 74 kW röð sólarsella. Og Nissan mun, í samvinnu við Green Charge Networks, nýta rafhlöður úr Leaf bílum til staðbundinnar orkugeymslu víðs vegar um Bandaríkin og utan þeirra.

Sjá nánar hér.

Tíunda hraðhleðslustöðin á Íslandi opnuð

Tíunda hraðhleðslustöð ON á Suður- og Vesturlandi var vígð 9. júní síðastliðinn við Dalbraut 1 á Akranesi. Fyrir eru stöðvar við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, við bifreiðaumboð BL við Sævarhöfða, við Smáralind, við Skeljung á Miklubraut, á Fitjum í Reykjanesbæ, við verslun IKEA í Garðabæ, í Borgarnesi, á Selfossi og við Fríkirkjuveg. Hraðhleðsluverkefni ON er unnið í samstarfi við BL ehf. og Nissan Europe, sem lögðu hleðslustöðvarnar endurgjaldslaust til verkefnisins. Orka náttúrunnar sér um uppsetningu þeirra og rekstur.

Sjá frétt ON hér.

Ráðstefna: Nordic Electric Bus Initiatives

1.-2. september næstkomandi verður haldin málstofa um þróun rafmagnsstrætisvagna í Lindholmen vísindagarði í Gautaborg. Það eru Swedish Forum for transport innovation og Nordic Energy Research sem standa að málstofunni. Markmið hennar er að efla tengsl á milli  framleiðenda, háskólasamfélagsins og þeirra sem koma að samgöngumálum,  miðla þekkingu og ræða möguleika og hindranir til rafvæðingar strætisvagna í almenningssamgöngum.

Þátttaka er ókeypis. Dagskrá og nánari upplýsingar er að finna hér.

Nýtt þjónustumerki fyrir rafhleðslu bíla vígt

Síðastliðinn sunnudag var sett upp nýtt þjónustumerki sem vísar á stað þar sem hlaða má ökutæki rafmagni. Það var Einar K. Guðfinnnsson, forseti  Alþingis, sem kom merkinu fyrir og tók það formlega í notkun við verslunina Verslunar-Geira,  við Þuríðarbraut við mörk þéttbýlisins í Bolungarvík.

Merkið var hannað af Vegagerðinni að ósk Samgöngufélagsins, en þetta er fyrsta merkið  með þessu útliti sem tekið er í notkun.  Nú þegar rafbílum fjölgar ört er nauðsynlegt að hægt sé að hlaða þá sem víðast og upplýsingar um aðgengi að hleðslu séu sýnilegar.

Einnig hefur verið útbúið sérstakt merki fyrir svokallaðar hraðhleðslustöðvar sem er eins útlits og merkið sem tekið var í notkun um helgina, að öðru leyti en að bætt hefur verið við mynd af skeiðklukku.

.