2 af hverjum 3 nýjum bílum í Noregi eru vistvænir bílar

Löngu er orðið ljóst að ívilnanir í Noregi fyrir vistvæna bíla hafa skilað árangri. Þar eru bifreiðar af þessu tagi undanþegar söluskatti, virðisaukaskatti og skráningargjöldum. Þar að auki greiða eigendur þeirra ekki fyrir bílastæði, ferjuferðir eða vega-, brúar- og gangnatolla. Nú í mars síðastliðnum voru tveir af hverjum þremur seldum nýjum bifreiðum í Noregi ýmist hreinir rafbílar eða tvinnbílar. Ívilnanir þessar eru liður í áætlun Norðmanna um að gera samgöngur á landi kolefnislausar fyrir árið 2025 og draga úr CO2 losun um 40% miðað við árið 1990. Margar þjóðir mættu taka þá sér til fyrirmyndar í stefnumyndum um orkuskipti í samgöngum.

Sjá nánar hér og frétt hér.

New York fylki ívilnar rafbílum

Í fjárhagsáætlun New York fylkis fyrir fjárhagsárið 2016-7 er í fyrsta skiptið gert ráð fyrir ívilnunum vegna kaupa á rafbílum. Í boði er endurgreiðsla sem nemur allt að $2000 vegna kaupa á tvinnbílum og hreinorkubílum. Hingað til hefur ríkisstjórn fylkisins hvatt til uppbyggingar rafbílainnviða fyrir almenning en það hefur skilað litlum árangri. New York fylgir í kjölfar nágrannafylkjanna Connecticut, Delaware, Rhode Island og Massachusetts sem hafa ívilnað rafbílum um tíma.

Sjá nánar hér.

Hlutfall vistvænna bíla í Noregi aldrei hærra

Markaðshlutdeild vistvænna bíla er hvergi hærri en í Noregi og voru þeir 17,1% (tæplega 26.000 talsins) nýskráðra bíla árið 2015. Söluhæstu tegundirnar voru VW Golf, Tesla model S, Nissan Leaf, BMW i3 og Renault Zoe en Norðmenn hafa náð gríðarlegum árangri í rafbílavæðingu bílaflota almennings undanfarin ár með veitingu hagrænna hvata á borð við niðurfellingu virðisaukaskatts og innflutningstolla, bílastæðagjalds og fleira.

Sjá nánar í frétt mbl.is.

Noregspóstur kaupir 240 rafbíla

Norski pósturinn hefur nú fest kaup á 240 Renault Kangoo Maxi ZE rafbílum og verða þeir afhentir í vikunni í Osló. Er þetta liður í stefnu fyrirtækisins að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2020 miðað við losun þess árið 1990. Losun norska póstsins nemur um 1% af heildarkoltvísýringslosun konungsríkisins alls og hlýtur þessi aðgerð því að teljast mikilvægt skref í átt að takmarki norska póstsins.

Sjá nánar á mbl.is og hjá Renault.

Danir ívilna vetnisbílum til 2018

Danska ríkisstjórnin hefur ákveðið að veita áfram skattaafslátt vegna kaupa á vetnisbílum til ársins 2018, en til stóð að gildistími ívilnana yrði til ársloka 2015. Þessu fagnar sérstaklega fyrirtækið H2 Logic sem rekur í dag 7 vetnisstöðvar víðs vegar um Danmörku og gerir ráð fyrir að opn 4 til viðbótar á næsta ári.

Sjá nánar í fréttatilkynningu H2 Logic.

Allir nýir bílar verði kolefnisfríir árið 2025 í Noregi

Allir nýir bílar skulu vera kolefnisfríir frá árinu 2025; þetta er einn liður í viðleitni Oslóborgar til þess að draga úr útblæstri gróðuhúsalofttegunda. Þetta kom fram í ræðu Ola Elvestuen, norsks þingmanns, á EV Roadmap 8 ráðstefnu í Portland í Bandaríkjunum í liðinni viku. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti í lok árs 2014 markmið um að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda um 40% miðað við árið 1990 fyrir 2030. Þar sem 97% norskrar raforku er nú þegar framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum (vatnsorku) þarf að horfa til samgangna til að minnka kolefnisútblástur. Á meðal markmiða Oslóborgar eru:

  • faratæki til almenningssamgangna noti vistvæna orkugjafa (kolefnislausa) fyrir 2020
  • leigubifreiðar noti eingöngu hreina orku fyrir 2022
Til þess að ná þessum markmiðum hefur norska ríkisstjórnin sett ýmsar ívilnanir vegna rafbíla, sem hafa borið árangur en í dag eru rafbílar í Noregi rúmlega 66.000.
Nánar um fréttina hér.

Suður Korea eflir innviði fyrir rafbíla

Ívilnunum sem stjórnvöld í Suður Kóreu hafa boðið kaupendum rafbíla síðan 2010 hefur verið vel tekið af almenningi. Þó eru í dag aðeins 1800 rafbílar skráðir í landinu, þar af 850 sem seldir voru árið 2014. Við þessu ætla stjórnvöld að bregðast með því að efla uppbyggingu innviða fyrir rafbíla þar sem flestir Suður Kóreubúar hafa ekki aðgang að rafmagni til hleðslu heima við líkt og víða á Vesturlöndum. Borgarstjórn Seoul hefur ákveðið að fjölga þeim 100 hleðslustöðum sem fyrir eru um 100.000. Hér er þó ekki um að ræða hraðhleðslustöðvar, heldur rafmagnsinnstungur fyrir ferðahleðslubúnað. Það er von stjórnvalda að þessar aðgerðir, auk ívilnana sem þegar eru í gildi, verði til þess að glæða rafbílasölu í landinu og færi þau nær markmiði sínu, 200.000 bílum árið 2020.

Sjá nánar hér og hér.

DC hraðhleðsla Kia Soul bifreiðar

Auknar ívilnanir fyrir vistvæna bíla í Oregon fyrirhugaðar

Yfirvöld í Oregon fylki í Bandaríkjum Norður Ameríku hafa síðastliðin ár unnið ötullega að því að byggja upp kerfi raf- og hraðhleðslustöðva meðfram helstu hraðbrautum. Nú er til umræðu frumvarp sem byði þeim, sem leigja eða kaupa hreinan rafbíl, tengiltvinnbíl eða vetnisbíl, ívilnun í formi niðurgreiðslu við gerð kaup- eða leigusamnings. Upphæð eingreiðslunnar næmi $1500 fyrir þá sem kaupa eða leigja tengiltvinnbíl eða tvinnbíl, $3000 til þeirra sem veldu rafbíl eða vetnisbíl og $1000 til rafhjólakaupenda og – leigjenda. Gildistími ívilnananna næði til 1. janúar 2022.

Þó nokkur fylki Bandaríkjanna veita ýmsa efnahagslega hvata til kaupa á bifreiðum sem ganga fyrir vistvænum orkugjöfum. Oregon hefur þó verið í fararbroddi hvað varðar innleiðingu rafbíla og uppbyggingu innviða, eins og sést á myndinni hér fyrir neðan.

Nánar um fréttina hér.