Ráðstefna1.-2. sept: Nordic Electric Bus Initiatives

1.-2. september næstkomandi verður haldin málstofa um þróun rafmagnsstrætisvagna í Lindholmen vísindagarði í Gautaborg. Það eru Swedish Forum for transport innovation og Nordic Energy Research sem standa að málstofunni. Markmið hennar er að efla tengsl á milli  framleiðenda, háskólasamfélagsins og þeirra sem koma að samgöngumálum,  miðla þekkingu og ræða möguleika og hindranir til rafvæðingar strætisvagna í almenningssamgöngum.

Þátttaka er ókeypis. Dagskrá og nánari upplýsingar er að finna hér og hér.

Stór vetnisstöð fyrirhuguð í San Fransisco

Bygging stærstu vetnisstöðvar heims er fyrirhuguð í San Fransisco innan fárra ára. Verkefnið, sem styrkt er bæði af hinu opinbera og einkaaðilum, miðar að því að reisa vetnisstöð sem þjónar farartækjum á landi og sjó. Framleiðslugeta hennar verður um 1500 kg vetnis á dag, en þar af mun ný vetnisferja þurfa tvo þriðju hluta þess magns.

Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna hér.

 

Könnun meðal notenda hraðhleðslustöðva

Íslensk NýOrka, Græna orkan og Orka náttúrunnar standa um þessar mundir fyrir könnun meðal rafbílaeigenda á Íslandi. Markmið verkefnisins er að skilja notkunar- og hegðunarmynstur notenda hraðhleðslustöðva auk þess að greina þörf fyrir frekari uppbyggingu innviða fyrir rafbíla. Það er afar mikilvægt að ná til notenda stöðvanna, heyra reynslu þeirra og afla upplýsinga um það sem betur mætti fara.

Þátttaka í könnuninni tekur örfáar mínútur. Hana má finna hér.

Hringvegurinn ekinn á rafbíl

Þeir Gísli Gíslason, Tómas Kristjánsson og Guðjón Hugberg Björnsson settu nýverið Íslandsmet þegar þeir keyrðu hringinn í kringum landið á rafbíl á einungis 30 klukkustundum. Fyrra met, sem Guðjón Hugberg átti ásamt fleirum, hafði verið sex dagar. Ferðin var farin á Tesla Model S bifreið, sem hefur 500 km drægi. Þeir félagar höfðu með sér hleðslustöð á stærð við nestisbox sem gerði þeim kleift að hlaða bílinn á þremur klukkustundum með þriggja fasa rafmagni í stað 6-8 klukkustunda en hún var auk þess nauðsynleg þar sem aðeins fjórar hraðhleðslustöðvar eru utan höfuðborgarsvæðisins.

Sjá nánar um hringferðina hér á mbl.is

Suður Korea eflir innviði fyrir rafbíla

Ívilnunum sem stjórnvöld í Suður Kóreu hafa boðið kaupendum rafbíla síðan 2010 hefur verið vel tekið af almenningi. Þó eru í dag aðeins 1800 rafbílar skráðir í landinu, þar af 850 sem seldir voru árið 2014. Við þessu ætla stjórnvöld að bregðast með því að efla uppbyggingu innviða fyrir rafbíla þar sem flestir Suður Kóreubúar hafa ekki aðgang að rafmagni til hleðslu heima við líkt og víða á Vesturlöndum. Borgarstjórn Seoul hefur ákveðið að fjölga þeim 100 hleðslustöðum sem fyrir eru um 100.000. Hér er þó ekki um að ræða hraðhleðslustöðvar, heldur rafmagnsinnstungur fyrir ferðahleðslubúnað. Það er von stjórnvalda að þessar aðgerðir, auk ívilnana sem þegar eru í gildi, verði til þess að glæða rafbílasölu í landinu og færi þau nær markmiði sínu, 200.000 bílum árið 2020.

Sjá nánar hér og hér.

DC hraðhleðsla Kia Soul bifreiðar

Tíunda hraðhleðslustöðin á Íslandi opnuð

Tíunda hraðhleðslustöð ON á Suður- og Vesturlandi var vígð 9. júní síðastliðinn við Dalbraut 1 á Akranesi. Fyrir eru stöðvar við höfuðstöðvar ON að Bæjarhálsi 1, við bifreiðaumboð BL við Sævarhöfða, við Smáralind, við Skeljung á Miklubraut, á Fitjum í Reykjanesbæ, við verslun IKEA í Garðabæ, í Borgarnesi, á Selfossi og við Fríkirkjuveg. Hraðhleðsluverkefni ON er unnið í samstarfi við BL ehf. og Nissan Europe, sem lögðu hleðslustöðvarnar endurgjaldslaust til verkefnisins. Orka náttúrunnar sér um uppsetningu þeirra og rekstur.

Sjá frétt ON hér.

Nýtt þjónustumerki fyrir rafhleðslu bíla vígt

Síðastliðinn sunnudag var sett upp nýtt þjónustumerki sem vísar á stað þar sem hlaða má ökutæki rafmagni. Það var Einar K. Guðfinnnsson, forseti  Alþingis, sem kom merkinu fyrir og tók það formlega í notkun við verslunina Verslunar-Geira,  við Þuríðarbraut við mörk þéttbýlisins í Bolungarvík.

Merkið var hannað af Vegagerðinni að ósk Samgöngufélagsins, en þetta er fyrsta merkið  með þessu útliti sem tekið er í notkun.  Nú þegar rafbílum fjölgar ört er nauðsynlegt að hægt sé að hlaða þá sem víðast og upplýsingar um aðgengi að hleðslu séu sýnilegar.

Einnig hefur verið útbúið sérstakt merki fyrir svokallaðar hraðhleðslustöðvar sem er eins útlits og merkið sem tekið var í notkun um helgina, að öðru leyti en að bætt hefur verið við mynd af skeiðklukku.

.

Ef bensín væri frítt…

Mynd fengin frá Synergy Solar Systems

Flestir yrðu hissa ef þeir upplifðu það að geta dælt bensíni á bílinn án þess að borga fyrir það. Það er samt einmitt það sem eigendur rafbíla gera – hlaða bílinn frítt á hraðhleðslustöðvum á Íslandi! Það sama á við um flestar hleðslustöðvar fyrir almenning í Bandaríkjunum. Þar geta rafbílaeigendur geta notað appið Plugshare til að finna næstu stöð. Ókeypis rafmagn á hraðhleðslustöðvum lækkar enn frekar rekstrarkostnað rafbíla.

Hvað með þau fyrirtæki sem hýsa stöðvarnar á lóðum sínum? Hvað græða þau á því að bjóða upp á frítt rafmagn og/eða bílastæði á meðan hlaðið er? Hleðslustöðvarnar veita þeim nýtt tækifæri til að laða til sín viðskiptavini auk þess sem þeir staldra lengur við.

Þetta kemur fram í frétt á síðu Green Car Reports og Sierra Club.

 

 

 

Rafmagn afgreitt á bensínstöðvum í Indiana

Á Ricker’s Oil þjónustu- og bensínafgreiðslustöðvum í Indiana fylki Bandaríkjanna er nú einnig hægt hlaða rafbíla. Ricker’s Oil hefur í samstarfi við Nissan, Greater Indiana Clean Cities Coalition og Greenlots sett upp 9 hraðhleðslustaura á stöðvum sínum víðs vegar um fylkið. Hraðhleðslustöðvarnar eru þáttur í markaðsáætlun Nissan sem ber nafnið “No charge to charge” sem býður Leaf kaupendum ókeypis aðgang að hraðhleðslustöðvum í tvö ár.

Sjá nánar í frétt Green Car Reports hér.

Mikill árangur hefur náðst í orkuskiptum í samgöngum á Íslandi

Græna orkan hefur í samvinnu við stjórnvöld unnið að framgangi orkuskipta á Íslandi í samræmi við skýrslu og aðgerðaáætlun sem lögð var fram á Alþingi í lok árs 2011 „Orkuskipti í samgöngum“. Græna orkan hefur komið með beinum hætti að ýmsum breytingum sem hafa verið hvati til orkuskipta. Helstu aðgerðirnar eru annars vegar skattalegar ívilnanir fyrir rafmagns- eða tengiltvinnbifreiðar sem settar voru með bráðabirgðaákvæði í lögum nr. 62/2012 og hins vegar setning söluskyldu fyrir endurnýjanlegt eldsneyti með lögum nr. 40/2013.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra kynnti í dag nýja skýrslu um þróun orkuskipta í samgöngum á ríkisstjórnarfundi. Skýrslan er unnin af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Orkustofnun og Grænu orkunni. Þar kemur meðal annars fram að undanfarin fjögur ár hefur hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis til samgangna tífaldast.

Stefnt er að því að skýrslan verði lögð fyrir Alþingi nú á vorþingi til kynningar og umfjöllunar.

Sjá nánar í fréttatilkynningu á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.