Loftslags vegvísar atvinnulífsins kynntir

Samstarfsaðilar verkefnahóps Loftslagsvegvísa atvinnulífsins

Í byrjun júní afhentu ellefu atvinnugreinar Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra 332 tillögur að aðgerðum sem stuðla eiga að auknum samdrætti í losun atvinnugreina. Afhendingin fór fram á Grænþingi í Hörpu 8. júní, í tengslum við útgáfu Loftslagsvegvísa atvinnulífsins (LVA). LVA er samstarfsverkefni atvinnulífs og stjórnvalda og var vinnan unnin á forsendum fyrirtækja í íslensku atvinnulífi með stuðningi frá vinnuteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.

Loftslagsvegvísar atvinnulífsins eru lifandi skjöl sem verða uppfærð reglulega, en einnig verður hægt að bæta við atvinnugreinum eftir því sem verkefninu vindur fram. Vefsíða verkefnisins heldur utan um vegvísa fyrir hverja atvinnugrein ásamt uppfærðum aðgerðum og framvindu þeirra.

Ársfundur Orkustofnunar 2023 – Orka, vatn og jarðefni

Ársfundur Orkustofnunar verður haldinn í Norðurljósum í Hörpu föstudaginn 9. júní á milli kl. 9 til 11:30. Húsið opnar kl: 8:30 og boðið er upp á morgunhressingu. Skráning á viðburðinn fer fram á síðu Orkustofnunar.

Dagskrá verður á þessa leið

Ávarp umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson

Ávarp orkumálastjóra Halla Hrund Logadóttir frá Orkustofnun

Skilvirkni stjórnsýslu á tímum orkuskipta og nýsköpunar

Leyndardómar leyfisveitinga Marta Rós Karlsdóttir, Ph.D. sviðsstjóri sjálfbærrar auðlindanýtingar

Örerindi

Skilvirkari stjórnsýsla – eingreiðslur vegna umhverfisvænnar orkuöflunar Eyrún G. Káradóttir, verkefnastjóri Orkuseturs

Áður en lengra er haldið, mikilvægi framtíðarsýnar í stjórnsýslu Sigurjón Njarðarson, lögfræðingur auðlindanýtingar og Tinna Jónsdóttir, verkefnastjóri auðlindaeftirlits

Raforkuöryggi – markaður, tækifæri og áskoranir

Raforkuöryggi í þágu almennings – Hanna Björg Konráðsdóttir, deildarstjóri raforkueftirlits Orkustofnunar

Örerindi

Orkuhermirinn: Hvernig metum við raforkuöryggi á Íslandi Dagur Helgason, sérfræðingur í greiningu orkumarkaða – Greining á orkulíkaninu
Gögn og greiningar – vannýtta auðlindin Björn Arnar Hauksson, deildarstjóri greininga og gagnavinnslu
Orkusjóður, tenging á milli fortíðar og framtíðar Eyrún G. Káradóttir, verkefnastjóri Orkuseturs

Lokaorð Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, fv. Forseti Íslands

Fundarstjórn Þorsteinn Másson, framkvæmdastjóri Bláma

Umsóknafrestur í Loftslagssjóð er 15. júní 2023

Opið er fyrir umsóknir um styrki til Loftslagssjóðs. Sjóðurinn styrkir verkefni sem draga úr losun eða hafa áhrif á samdrátt í losun.

Loftslagssjóður er sérstakur sjóður sem heyrir undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Hlutverk sjóðsins er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Styrkir til nýsköpunarverkefna eru ætlaðir m.a. til þess að styrkja rannsóknir og þróunarstarf í tengslum við aðlögun og innleiðingu á nýjum loftslagsvænum tæknilausnum og hönnun.

Sjá nánar á vef Rannís.

Aðalfundur Grænu orkunnar 25. maí 2023

Aðalfundur Grænu orkunnar, Samstarfsvettvangs um orkuskipti, fer fram fimmtudaginn 25. maí 2023 13:00-15:00 í Húsi atvinnulífsins, Borgartúni 35

Dagskrá aðalfundar verður sem hér segir og samkvæmt samþykktum:

Kosning fundarstjóra og fundarritara

Skýrsla stjórnar lögð fram

Reikningar lagðir fram til samþykktar

Breytingar á samþykktum

Ákvörðun árgjalds

Kosning stjórnar

Önnur mál

Allir félagsmenn mega sitja aðalfund og einungis er eitt atkvæði á hvert aðildarfyrirtæki eða -stofnun. Félagar teljast þeir sem greiða félagsgjald og þeir einir hafa atkvæðarétt á aðalfundi. Reikningar fyrir aðildargjöldum 2023 ættu þegar að hafa borist til aðildarfyrirtækja og hafa eindaga 1. maí.

Tillögur, sem óskað er eftir að teknar verði til afgreiðslu á fundinum, þurfa að berast félaginu a.m.k. 7 dögum fyrir boðaðan aðalfund, þ.e. 18. maí 2023, til Önnu Margrétar Kornelíusdóttur í netfangið amk@newenergy.is.

Tímabil tveggja stjórnarmanna sem sitja fyrir hönd atvinnulífsins lýkur á aðalfundinum. Þeir hyggjast bjóða sig fram til áframhaldandi stjórnarsetu en framboð til stjórnar eru velkomin og er stjórnarseta til tveggja ára.

Þeir félagar er hyggjast bjóða sig fram í stjórn skulu tilkynna framboð til Önnu Margrétar Kornelíusdóttur í netfangið amk@newenergy.is fyrir lok dags 18. maí 2023.


Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum fer fram málstofa sem ber yfirskriftina Nei, það er ekki pláss fyrir einn bensínbíl í viðbót. Egill Jóhannsson framkvæmdastjóri Brimborgar og María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins munu kynna og fara yfir vegasamgöngulíkan sem unnið hefur verið að í kjölfar samstarfsverkefnis atvinnulífs og stjórnvalda, Loftslagsvegvísir atvinnulífsins (LVA).

Í lok fundarins verða niðurstöður kosninga kynntar og fundi slitið um klukkan 15:00. Boðið verður upp á léttar veitingar.

Skýrsla starfshóps um skatta og skattaívilnanir

Starfshópur sem unnið hefur að skoðun á sköttum og skattaívilnunum á sviði umhverfismála skilaði í febrúar skýrslu til fjármála- og efnahagsráðherra. Starfshópurinn hafði m.a. það hlutverk að fara yfir álagningu skatta og gjalda og skattaívilnanir, með tilliti til framkvæmdar.

Í skýrslu starfshópsins er að finna 9 tillögur ásamt mótvægisaðgerðum og hugmyndum að næstu skrefum vegna útfærslu og framkvæmd einstakra tillagna.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast á vefsíðu Stjórnarráðsins

Kveikur fjallar um rafbílavæðinguna

Rafbílar í hleðslu (mynd úr einkasafni)

Kveikur fjallar um rafbílavæðingu landsins í þætti sínum í vikunni. Þar er fjallað um málefnið út frá sjónarmiðum rafbílaeigenda, rekstraraðila hleðsluinnviða, orkufyrirtækja og fleiri aðila. Meðal þeirra sem leggja orð í belg, ásamt rafbílaeigendum, eru

Anna Margrét Kornelíusdóttir, Íslenskri Nýorku

Auður Alfa Ólafsdóttir, Alþýðusamband Íslands – ASÍ

Guðjón Hugberg Björnsson, Orka náttúrunnar

Hafrún Þorvaldsdóttir, e1

Kjartan Rolf Árnason, RARIK

Sigurður Ástgeirsson, Ísorka

Sigurður Ingi Friðleifsson, Orkustofnun

Steingrímur Birgisson, Bílaleiga Akureyrar / Europcar

Tómas Kristjánsson, Rafbílasamband Íslands

Þáttinn í heild sinni má sjá á vefsíðu Kveiks.

Orkusjóður opnar fyrir umsóknir um styrki til orkuskipta verkefna

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur ákveðið að auglýstir verðir styrkir til orkuskipta að upphæð 900 milljónir kr. af þeim fjárveitingum sem veittar eru til loftslags- og orkumála í ár.

Að þessu sinni verða alls 900 milljónir til úthlutunar til eftirfarandi viðfangsefna

  • Framleiðsla endurnýjanlegs eldsneytis (raf- eða lífeldsneytis)
  • Innviðir fyrir orkuskipti (hleðslu- eða áfyllingarstöðvar)
  • Tækjabúnaður sem nýtir endurnýjanlega orku í stað olíu

Sjá nánar á vef Orkustofnunar.

Kynning á styrkjum sem bjóðast á sviði umhverfis-, loftslags- og orkumála

Viðburðurinn Grænir styrkir verður haldinn á Grand Hótel 23. mars.

Grænvangur, Rannís, Orkustofnun, Festa miðstöð um sjálfbærni, Enterprise Europe Network og umhverfis- orku- og loftslagsráðuneytið bjóða til styrkjamóts.

Stuttar kynningar á helstu sjóðum og styrkjatækifærum sem standa Íslendingum til boða á sviði umhverfis-, orku-, og loftslagsmála verða í bland við örsögur aðila sem hafa farsæla reynslu af því að sækja í sjóði vegna grænna verkefna.

Í kjölfar áhugaverðra og praktískra erinda tekur við Styrkjamót en þá geta þátttakendur bókað örfundi til að kynnast, fræðast og kanna möguleika á samstarfi í framtíðinni.

Dagskrá viðburðarins er að finna á vefsíðu hans en þar má einnig ganga frá skráningu til þátttöku.