Alþjóðleg ráðstefna um þróun bíl- og skipavéla knúnar metanóli

Græna orkan vill vekja athygli á fyrstu alþjóðlegu ráðstefnunni um þróun bíl- og skipavéla knúnar metanóli, sem haldin er af Carbon Recycling International. Hún ber yfirskriftina Ráðstefna um þróun bíl- og skipavéla knúnar metanóli til að efla umhverfisvænar samgöngur á sjó og landi.

Ráðstefnan mun veita breiða sýn yfir nýsköpun sviði umhverfisvænni bíl- og skipavéla undanfarin misseri, en þróun tækni til að nýta metanól er hröð, ekki síst þar sem krafa um orkuskipti með sjálfbæru eldsneyti fer vaxandi, bæði í samgöngum á sjó og landi og í sjávarútvegi. Dagskrá má finna hér.

Ráðstefnan verður haldin þriðjudaginn 23. febrúar n.k. í Gullteigi á Grand Hotel, Reykjavík. Aðgangur er öllum opinn. Boðið verður upp á kaffiveitingar og léttan hádegisverð. Skráning til þátttöku skal berast í netfangið conference@cri.is.

Fyrirlesarar eru helstu alþjóðlegu sérfræðingar á sviði bílvéla og véla fyrir skip og báta sem knúnar eru metanóli, fjallað verður um sprengihreyfla, tengiltvinnbíla og efnarafala.

Efni ráðstefnunnar ætti að höfða til allra sem áhuga hafa á umhverfisvænni lausnum í samgöngum og í sjávarútvegi og verður þar varpað nýju ljósi á ögranir og möguleika á þessu sviði.

Þá verður hulunni svipt af fyrstu bílunum sem ganga fyrir hreinu metanóli, frá bílaframleiðandum Geely sem er hluthafi í CRI. Prófanir á þessum bílum eru að hefjast hér á landi, í samvinnu CRI, Geely og Brimborgar.

Meðal sérfræðinga á ráðstefnunni eru yfirmenn rannsókna og þróunar Geely bílaverksmiðjanna og Fiat Chrysler samsteypunnar, sem unnið hafa að þróun bílvéla fyrir metanól og helsti ráðgjafi Wärtsilä í Finnlandi sem er meðal þeirra fyrirtækja sem nú framleiða metanólvélar fyrir skip og báta. Þá tala m.a. sérfræðingar frá MIT háskólanum í Boston, Chalmers tækniháskólanum í Gautaborg, Ghent háskóla og tækniháskólanum í Kaupmannahöfn um stöðu og horfur í þróun véla og tæknibúnaðar.

Útblástur á líftíma rafbíla er lægri en hefðbundinna bíla

Allar götur síðan rafbílar komu á markað hefur verið deilt um hvort útblástur og mengun í loft, láð og lög vegna framleiðslu þeirra sé slíkur að hann ógildi kolefnissparnað þess að keyra á rafmagni í stað jarðefnaeldsneytis. Rétt er að útstreymi vegna framleiðsluferlisins er hærra fyrir rafbíla en hefðbundna bensín og dísilbíla en þegar á heildina er litið, líftíma þeirra, hafa rafbíla vinninginn. Rannsókn sem Union of Concerned Scientists vann og kom út í nóvember síðastliðnum staðfestir þetta, og niðurstöður fjölmargra annarra rannsókna sem kannað hafa sama viðfangsefni.

Útstreymi vegna framleiðslu Nissan Leaf var 15% hærra en fyrir framleiðslu bensínbíls af sömu stærð en 51% lægra á líftíma bílanna, miðað við að þeir væru keyrðir um 288.000 km.

Sjá nánar um niðurstöðurnar hér og skýrslu um rannsóknina sjálfa hér.

Image result for emissions

Rafstrætisvagnar í Chicago

Eftir að hafa reynsluekið tveimur strætisvögnum í heilt ár á götum borgarinnar, hafa samgönguyfirvöld í Chicago tekið ákvörðun um að fjárfesta í strætisvögnum sem ganga eingöngu fyrir rafmagni. Borgin mun festa kaup á 20-30 vögnum á næstu árum og endurnýja flota sinn smátt og smátt. Strætisvagnarnir eru framleiddir af New Flyer Industries, og keyra á 300 kWh liþíum rafhlöðu og hafa 80 mílna (~130 km)  drægi.

Sjá nánar hér.

Noregspóstur kaupir 240 rafbíla

Norski pósturinn hefur nú fest kaup á 240 Renault Kangoo Maxi ZE rafbílum og verða þeir afhentir í vikunni í Osló. Er þetta liður í stefnu fyrirtækisins að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 40% fyrir árið 2020 miðað við losun þess árið 1990. Losun norska póstsins nemur um 1% af heildarkoltvísýringslosun konungsríkisins alls og hlýtur þessi aðgerð því að teljast mikilvægt skref í átt að takmarki norska póstsins.

Sjá nánar á mbl.is og hjá Renault.

Rafbílavæðing á Íslandi – ráðstefna 11. desember 2015

Föstudaginn 11. desember um Rafmagnsverkfræðingadeild Verkfræðingafélags Íslands (RVFÍ) standa fyrir ráðstefnu um rafbílavæðingu á Íslandi í sal Arion banka, Borgartúni 19. Dagskráin verður sem hér segir:

13:00    Setning ráðstefnu, Kristinn Andersen, formaður VFÍ og ráðstefnustjóri.

13:10    Stefnumótun íslenskra stjórnvalda – Hvað hefur gerst?
Jón Björn Skúlason, framkv.stj. Íslenskrar nýorku.

13:30   Áhugi og hagsmunir neytenda.
Runólfur Ólafsson, framkv.stj. Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

13:50   Hraðhleðslustöðvar ON.
Jón Sigurðsson, viðskiptastjóri ON.

14:10   Sjálfbær uppbygging innviða fyrir rafbíla.
            Axel Rúnar Eyþórsson, e1.

14:30   Aðferð KPMG við nálgun sannvirðis.
Val Gautaborgar á milli dísel- og rafmagsstrætós.
            Gunnar Tryggvason, verkfræðingur hjá KPMG.

14:50   Kaffihlé

15:20   Kynningar bílaumboða og reynsla rafbílaeiganda.
            Bílaumboðin kynna það nýjasta í rafbílum.
Þórður Helgason, rafmagnsverkfræðingur og eigandi rafbíls.

16:10   Umræður og fyrirspurnir.
Ráðstefnuslit.

Sjá nánar hér, á síðu RVFÍ.

Norðursigling hlýtur verðlaun fyrir rafknúna hvalaskoðunarbátinn Opal

Norðursigling á Húsavík hlaut í liðinni viku silfurverðlaun World Responsible Tourism Awards 2015 fyrir Opal verkefni sitt, en Opal er rafknúinn hvalaskoðunarbátur, sá fyrsti sinnar tegundar á Íslandi. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem íslenskt ferðaþjónustufyrirtæki hlýtur verðlaun á sýningunni World Travel Market.

Þá er einungis hálfur mánuður síðan fyritækið hlaut Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu 2015.

Sjá nánar á mbl.is og á vef Ferðamálastofu.

 

 

Vinnstofa GO um gjaldtöku í samgöngum

Græna orkan stóð nú í vikunni fyrir vinnustofu um gjaldtöku í samgöngum. Hún hófst á fjórum áhugaverðum kynningum.

Að loknum stuttum fyrirlestrum var þátttakendum skipt í umræðuhópa sem ræddu eftirfarandi málefni:
  • Skattlagning dísilolíu með hliðsjón af VW hneykslinu. Er þörf á breyttum áherslum?
  • Mörkun skatttekna til gerðar og reksturs samgöngumannvirkja og breytingar sem verða með nýjum lögum um opinber fjármál
  • Mikilvægi fjarskipta fyrir gjaldtöku framtíðar – GPS og upplýsingamiðlun, aðferðir
Í lok vinnustofunnar söfnuðust þátttakendur saman á ný og farið var yfir helstu umræðuatriði og niðurstöður hvers hóps fyrir sig. Stjórn Grænu orkunnar þakkar gestum fyrir líflega og áhugaverða vinnustofu og fyrirlesurum fyrir gagnleg innlegg í umræður.

H2ME – Samevrópskt verkefni um vetni

Hydrogen Mobility Europe (H2ME), verkefni sem miðar að því að innleiða vetni í samgöngum á landi, var formlega hleypt af stokkunum nú í september mánuði, Verkefnið sameinar helstu vetnisbílaframleiðendur heims (Daimler, SymbioFCell, Hyundai, Honda, Intelligent Energy og Nissan) og framleiðendur innviða (Air Liquide, H2Logic, HYOP, Linde og fleiri). H2ME mun á næstu fjórum árum reisa 29 nýjar vetnisstöðvar í 10 löndum (Austurríki, Belgíu, Bretlandi, Danmörku, Frakklandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Þýskalandi) og 200 bílar, að lágmarki, verða settir í umferð á tímabilinu.

Sjá nánar á vefsíðu H2ME

Ráðstefna um vistvæna orkugjafa í haftengdri starfsemi

Þann 21.-22 október næstkomandi verður haldin ráðtefna í Gautaborg um notkun vistvænna orkugjafa í haftendri startfsemi. Ráðstefnan, sem ber heitið Making Maritime Applications Greener er samstarfsverkefni Nordic Marina, Norðursiglingar og Caterpillar Propulsion. Í lok fyrri dags ráðstefnunnar verður gestum boðið að sigla hring um Gautaborgarhöfn um borð í Opal, rafknúnum seglbáti Norðursiglingar. Dagskrá lýkur 22. október með skoðunarferð um Stena Germanica, farþegaferju StenaLine sem gengur fyrir metanóli.

Opið er fyrir skráningar hér  og þar er einnig að finna dagskrána í heild sinni.