Brunavélar í bílum bannaðar í Hollandi 2025?

Í Hollandi hefur hópur þingmanna verkamannaflokksins PvdA lagt fram ályktun  í neðri deild þingsins í Haag sem felur í sér þá stefnu að leyfa einungis sölu hreinorkubíla í landinu frá og með árinu 2025. Í þennan flokk falla bílar sem ekki gefa frá sér neinar gróðurhúsalofttegundir eða aðra mengun, rafbílar og vetnisbílar. Tillagan er umdeild enda ekki ljóst hvernig innviðir skulu styrktir til að mæta þörfum svo margra rafbíla en í henni er einnig kveðið á um að fjárfest skuli í sjálfakandi bílum  í þeim tilgangi að draga úr umferðarteppum í landinu.

Þess má geta að í París í desember fyrra settu 8 ríki í Bandaríkjum Norður Ameríku og 5 fullvalda ríki á stofn Alþjóðabandalag um hreinorkubíla (e. International Zero-Emission Vehicle Alliance) hvers stefna er að hraða rafbílavæðingu þannig að allir nýir bílar verði hreinorkubílar árið 2050.

Sjá nánar í frétt mbl.is og Inside EVs.

2 af hverjum 3 nýjum bílum í Noregi eru vistvænir bílar

Löngu er orðið ljóst að ívilnanir í Noregi fyrir vistvæna bíla hafa skilað árangri. Þar eru bifreiðar af þessu tagi undanþegar söluskatti, virðisaukaskatti og skráningargjöldum. Þar að auki greiða eigendur þeirra ekki fyrir bílastæði, ferjuferðir eða vega-, brúar- og gangnatolla. Nú í mars síðastliðnum voru tveir af hverjum þremur seldum nýjum bifreiðum í Noregi ýmist hreinir rafbílar eða tvinnbílar. Ívilnanir þessar eru liður í áætlun Norðmanna um að gera samgöngur á landi kolefnislausar fyrir árið 2025 og draga úr CO2 losun um 40% miðað við árið 1990. Margar þjóðir mættu taka þá sér til fyrirmyndar í stefnumyndum um orkuskipti í samgöngum.

Sjá nánar hér og frétt hér.

Nordic Electric Bus Initiatives 2, 11.-12. maí í Helsinki

11.-12. maí næstkomandi verður í Helsinki haldinn síðari hluti ráðstefnunnar Nordic Electric Bus Initiatives en fyrri hluti hennar fór fram í september 2015. Umfjöllunarefni ráðstefnunnar verða hvers kyns rafmagnsfarartæki til fólksflutninga, þar á meðal strætisvagnar og höfðar helst til opinberra starfsmanna á vegum sveitarfélaga, hafna og samgöngustofnana auk þeirra sem koma að framleiðslu faratækja og íhluta þeirra.

Sjá nánar um ráðstefnuna hér. Tekið er við skráningum hér til 30. apríl.

Team Spark afhjúpar nýjan kappakstursbíl

Team Spark afhjúpaði í vikunni nýjan kappakstursbíl sinn, TS16, sem liðið sendir til þátttöku í Formula Student. Þetta er sjötta skiptið sem liðið tekur þátt í keppninni og fimmti bíllinn sem gengur fyrir rafmagni. Græna orkan óskar liðsmönnum Team Spark hjartanlega til hamingju með þennan flotta bíl!

Hér má sjá myndband frá formlegri afhjúpun TS16.

TS16 afhjúpaður við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands Mynd: Team Spark

 

New York fylki ívilnar rafbílum

Í fjárhagsáætlun New York fylkis fyrir fjárhagsárið 2016-7 er í fyrsta skiptið gert ráð fyrir ívilnunum vegna kaupa á rafbílum. Í boði er endurgreiðsla sem nemur allt að $2000 vegna kaupa á tvinnbílum og hreinorkubílum. Hingað til hefur ríkisstjórn fylkisins hvatt til uppbyggingar rafbílainnviða fyrir almenning en það hefur skilað litlum árangri. New York fylgir í kjölfar nágrannafylkjanna Connecticut, Delaware, Rhode Island og Massachusetts sem hafa ívilnað rafbílum um tíma.

Sjá nánar hér.

Nær verð rafbíla og bensínbíla jafnvægi fyrir 2025?

Niðurstöður rannsóknar á vegum Bloomberg New Energy Finance benda til að verð á rafbílum muni halda áfram að lækka á næstu árum samhliða lækkandi verði rafhlaðna. Miklar líkur eru á því að fljótlega upp úr næsta áratug verði rafbílar víða orðnir hagkvæmari kostur en bílar sem brenna jarðefnaeldsneyti þegar á heildina er litið (heildarlíftímakostnaður bílsins, e. TCO) þrátt fyrir bætta  orkunýtni hinna síðarnefndu. Jafnframt er því spáð að hlutfall rafbíla á heimsvísu verði orðið 35% árið 2040.

Sjá umfjöllun BNEF, grein Bloomberg og frétt mbl.is.

Vetnisvæðing bílasamgangna í Danmörku

Í sumar verður hægt að keyra alla leið frá Skagen til Kaupmannahafnar á vetni – rúmlega 400 km – og verður Danmörk þar með fyrsta ríki heims, þar sem þetta verður hægt. Net 12 vetnisstöðva, sem verður tilbúið í vor, gerir Dönum þetta kleift. Vetnisvæðing landsins er lykilþáttur í stefnu Dana að verða óháðir notkun jarðefnaeldsneytis fyrir árið 2050. Þó svo vetnið sé í dag innflutt frá Þýskalandi mun það breytast á næsta ári með tilkomu vetnisstöðvar í Hobro sem mun nota vindorku til að framleiða vetni með rafgreiningu.

Sjá nánar um vetnisvæðingu Dana í frétt á mbl.is.

Úr frétt á mbl.is

Opið fyrir tilnefningar til verðlauna fyrir verkefni tengd sjálfbærri orku

Opið er fyrir tilnefningar til svokallaðra EU Sustainable Energy Awards sem heiðra framúrskarandi nýsköpunarverkefni á sviði orkusparnaðar og endurnýjanlegara orkugjafa. Á ári hverju er haldin vika sjálfbærrar orku innan Evrópusambandsing. Að þessu sinni verður hún haldin 13.-17. júní og eru verðlaunin tengd henni.

Sjá nánar um EU Sustainable Energy Week og verðlaunin með því að smella á hlekkina.

Home

Alþjóðleg ráðstefna um þróun bíl- og skipavéla knúnar metanóli

Græna orkan vill vekja athygli á fyrstu alþjóðlegu ráðstefnunni um þróun bíl- og skipavéla knúnar metanóli, sem haldin er af Carbon Recycling International. Hún ber yfirskriftina Ráðstefna um þróun bíl- og skipavéla knúnar metanóli til að efla umhverfisvænar samgöngur á sjó og landi.

Ráðstefnan mun veita breiða sýn yfir nýsköpun sviði umhverfisvænni bíl- og skipavéla undanfarin misseri, en þróun tækni til að nýta metanól er hröð, ekki síst þar sem krafa um orkuskipti með sjálfbæru eldsneyti fer vaxandi, bæði í samgöngum á sjó og landi og í sjávarútvegi. Dagskrá má finna hér.

Ráðstefnan verður haldin þriðjudaginn 23. febrúar n.k. í Gullteigi á Grand Hotel, Reykjavík. Aðgangur er öllum opinn. Boðið verður upp á kaffiveitingar og léttan hádegisverð. Skráning til þátttöku skal berast í netfangið conference@cri.is.

Fyrirlesarar eru helstu alþjóðlegu sérfræðingar á sviði bílvéla og véla fyrir skip og báta sem knúnar eru metanóli, fjallað verður um sprengihreyfla, tengiltvinnbíla og efnarafala.

Efni ráðstefnunnar ætti að höfða til allra sem áhuga hafa á umhverfisvænni lausnum í samgöngum og í sjávarútvegi og verður þar varpað nýju ljósi á ögranir og möguleika á þessu sviði.

Þá verður hulunni svipt af fyrstu bílunum sem ganga fyrir hreinu metanóli, frá bílaframleiðandum Geely sem er hluthafi í CRI. Prófanir á þessum bílum eru að hefjast hér á landi, í samvinnu CRI, Geely og Brimborgar.

Meðal sérfræðinga á ráðstefnunni eru yfirmenn rannsókna og þróunar Geely bílaverksmiðjanna og Fiat Chrysler samsteypunnar, sem unnið hafa að þróun bílvéla fyrir metanól og helsti ráðgjafi Wärtsilä í Finnlandi sem er meðal þeirra fyrirtækja sem nú framleiða metanólvélar fyrir skip og báta. Þá tala m.a. sérfræðingar frá MIT háskólanum í Boston, Chalmers tækniháskólanum í Gautaborg, Ghent háskóla og tækniháskólanum í Kaupmannahöfn um stöðu og horfur í þróun véla og tæknibúnaðar.