Rafhjólamenning vefviðburður 25. ágúst

Mynd frá Hjólavef Reykjavíkurborgar: http://hjolaborgin.is/markmid/?goto=2#8
Græna orkan, Grænni byggð, Hjólafærni, Orkustofnun og Stjórnvísi bjóða til veffyrirlestra undir yfirskriftinni Rafhjólavæðingin í hádeginu þriðjudaginn 25. ágúst. Vegna samkomutakmarkana hefur verið ákveðið að hafa fundinn eingöngu á Zoom. Hlekkur mun verða birtur hér og á Facebook viðburði þegar nær dregur. Dagskráin verður eftirfarandi:
Reynslan hjá Reykjavíkurborg
Kristinn Eysteinsson, verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg
Rafhjólareynslan hjá Norðurorku
Erla Björg Guðmundsdóttir, mannauðsstjóri hjá Norðurorku
Örflæði: Lítill mótor fyrir stuttar ferðir
Jökull Sólberg Auðunsson, stofnandi Planitor
Aðstaða við verslunar- og þjónustukjarna
Baldur Már Helgason, framkvæmdastjóri hjá Reginn fasteignafélagi
Reynsla Landsspítalans
Hulda Steingrímsdóttir, umhverfisstjóri Landspítala
Rafhjól: Þjónn á þeytingi
Sesselja Traustadóttir framkvæmdastýra Hjólafærni
Fundarstjóri verður Anna Margrét Kornelíusdóttir, verkefnastjóri Grænu orkunnar.
Hér má sjá upptöku frá viðburðinum:
Umræða um endurnýjanlega orkugjafa í samgöngum
Þann 26. júní síðastliðinn birtist pistill í Morgunblaðinu eftir Sigríði Á Andersen þar sem hún fjallar um rafbílavæðinguna og hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum.
Í dag birti sérfræðingur hjá Orkustofnun, Jón Ásgeir Haukdal Þorvaldsson, grein í Morgunblaðinu einnig, þar sem hann áréttar meðal annars, hvert framlag rafbíla er til markmiða Íslands um hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum.
Íslensk tækni reynist vel til að geyma vindorku á fljótandi formi
Íslenska tæknifyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) og samstarfsaðilar þess hafa nú formlega lokið MefCO2 rannsóknarverkefninu sem staðið hefur yfir frá árinu 2015. Í verkefninu, sem að hluta til var fjármagnað af Nýsköpunar-og rannsóknaráætlun Evrópusambandsins, var tilraunaverksmiðja sem byggir á ETL tæknilausn CRI (Emissions-to-Liquids) reist við orkuver RWE nærri Köln í Þýskalandi. Með rekstri verksmiðjunnar á síðastliðnu ári var sýnt fram á að nýta má tæknilausn CRI til að umbreyta vind- og sólarorku ásamt fönguðum koltvísýringi jafnóðum yfir á fljótandi form. Afurðin nefnist þá rafmetanól (e-methanol) sem auðvelt er að geyma, flytja og nýta með margvíslegum hætti.
Sjá nánar í frétt á vef CRI og fréttatilkynningu fyrirtækisins.
Ný aðgerðaáætlun í loftslagsmálum kynnt
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynntu aðra útgáfu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum í gær, 23. júní. Með aðgerðunum er áætlað að losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands muni hafa dregist saman um ríflega eina milljón tonna CO2-ígilda árið 2030 miðað við losun ársins 2005.
46 milljörðum króna verður varið til helstu aðgerða í loftslagsmálum á fimm ára tímabili, 2020-2024. Áætlunin samanstendur af 48 aðgerðum, þar af 15 nýjum, sem hafa bæst við frá því að fyrsta útgáfa áætlunarinnar var gefin út haustið 2018. Samhliða víðtæku samráði við gerð nýrrar útgáfu áætlunarinnar hefur verið lögð áhersla á að hrinda aðgerðum strax af stað. Þannig eru 28 aðgerðir af 48 þegar komnar til framkvæmda.
Sjá nánar á vef Stjórnarráðsins.
Aðalfundi Grænu orkunnar 2020 frestað
Í ljósi aðstæðna og samkomubanns sem var í gildi fyrr í vor, ákvað stjórn Grænu orkunnar að fresta aðalfundi félagsins fram á haustið 2020. Samkvæmt samþykktum skal aðalfundur haldinn fyrir 1. júní ár hvert.
Dagsetning verður auglýst á næstu vikum.
300 milljóna aukaframlagi varið til orkuskipta
Búið er að útfæra nánar hvernig skiptingu 550 milljóna aukaframlags til loftslagsmála verður háttað, en upphæðin er hluti af sérstöku tímabundnu fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar sem Alþingi samþykkti í lok mars til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu.
Gert er ráð fyrir að 300 milljónum verði varið til verkefna vegna orkuskipta.
- Um tveir þriðju þess fjármagns eiga að stuðla að frekari rafvæðingu hafna (210 milljónir)
- Ráðist verður í úttekt á ávinningi innlendrar eldsneytisframleiðslu (10 milljónir)
- Greindar verða hindranir og tækifæri svo hraða megi orkuskiptum í bílaflotum bílaleiga (20 milljónir)
- Möguleikar til orkuskipta í þungaflutningum verða rannsakaðir (10 milljónir)
- Eins verða styrkir veittir félagasamtökum til rafvæðingar gistiskála sem liggja utan almenna raforkukerfisins (50 milljónir)
Sjá nánar í frétt á ruv.is og vef Stjórnarráðsins. Græna orkan fagnar því að aukið fjármagn sé lagt til orkuskipta!
200 milljónir til uppbyggingar innviða fyrir orkuskipti í samgöngum
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hafa ákveðið að veita 200 milljónum króna í styrki til uppbyggingar innviða fyrir orkuskipti í samgöngum.
Áætlað er að verja 100 milljónum króna í styrki fyrir innviði sem ætlað er að ýta undir fjölgun vistvænna bifreiða sem þeir ganga fyrir metani, lífeldsneyti, vetni eða rafmagni hjá aðilum sem reka fólks- og hópbifreiðar
Þá verður 70 milljónum króna varið í styrki vegna raftenginga eða hitaveitna í höfnum landsins í því skyni að ýta undir orkuskipti í haftengdri starfsemi.
Loks verður 30 milljónum króna varið í styrki fyrir hleðslustöðvar við gististaði og veitingastaði.
Ákvörðun ráðherranna byggir á tillögum starfshóps sem ráðherrarnir skipuðu síðastliðið haust. Starfshópurinn leitaði samstarfs við Grænu orkuna- samstarfsvettvang um orkuskipti, til að byggja á bestu mögulegu upplýsingum um hvaða nýir innviðir geti best hraðað orkuskiptum, hvort sem þeir eru á landi eða í haftengdri starfsemi. Tillögurnar byggja að miklu leyti á framlagi úr þeirri hugmyndavinnu sem stór hópur úr atvinnulífinu kom að.
Frétt Stjórnarráðsins í heild sinni má lesa hér.
Hér má finna skýrslu Grænu orkunnar og skýrslu starfshóps ráðuneyta er að finna hér.
Þriðja árlega Umhverfisráðstefna Gallup
Þriðja árlega Umhverfisráðstefna Gallup fer fram í Hörpu 19. febrúar næstkomandi. Þar verða kynntar niðurstöður nýrrar könnunar meðal Íslendinga um viðhorf og hegðun í tengslum við umhverfismál og loftslagsbreytingar.
Hér er að finna fróðleik frá fyrri ráðstefnum en skráning hefst fljótlega.
Snemmskráning á TRA2020 opin til 13. febrúar!
Gildistími snemmskráningar á Transport Reseach Arena (TRA2020), stærstu samgönguráðstefnu Evrópu, hefur nú verið framlengdur til 13. febrúar. Ráðstefnan fer fram í Helsinki, dagana 27.-30. apríl næstkomandi og er yfirskrift hennar í ár Rethinking transport – towards clean and inclusive mobility. Á TRA koma saman helstu samgöngusérfræðingar heims og rædd ýmsir vinklar samgangna: öryggismál, loftslagsbreytingar, hlutverk borgara og síðast en ekki síst, nýjasta tækni.
Sjá hér dagskrá og frekari upplýsingar um TRA2020.