Opinn samráðsfundur Grænu orkunnar 30. október

Snemma í haust fól samstarfshópur ráðuneyta Grænu orkunni, Samstarfsvettvangi um orkuskipti, að móta tillögur að forgangsröðun verkefna er varða orkuskipti og útfærslu fjármagns fyrir árið 2020.

Græna orkan hefur undanfarnar vikur fundað með haghöfum með það fyrir augum að draga fram hvar mest er þörf á innviða uppbyggingu sem greitt getur fyrir orkuskiptum í samgöngum og samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.

Tillögurnar lúta að innviðalausnum er varða fólksbíla, hópbifreiðar, landflutninga og vinnuvélar og loks hafnir og haftengda starfsemi og verða kynntar í þessari röð á fundinum.

Áður en tillögum er skilað til starfshóps ráðuneyta, vill Græna orkan gefa almenningi og öllum þeim sem áhuga hafa á orkuskiptum tækifæri til að kynna sér efni þeirra á opnum fundi, veita umsögn og endurgjöf. Dagskráin verður eftirfarandi:

09:00 Kynning verkefnis
09:10 Kynning á starfi samstarfshóps ráðuneyta
09:15 Drög að tillögum fólksbílahóps kynnt
09:45 Drög að tillögum hópbifreiðahóps kynnt
10:15 Kaffihlé
10:30 Drög að tillögum hóps um landflutninga og vélar kynnt
11:00 Drög að tillögum um hafnir og skip kynnt
11:30 Almennar umræður og samantekt
12:00 Fundarslit

Samráðsfundurinn 30. október næstkomandi er öllum opinn og aðgangur ókeypis.

Upptaka frá metan viðburði 23. október

Viðburður Grænu orkunnar, Grænni byggðar og Orkustofnunar sem bar yfirskriftina Hvað á að gera við metanið? fór fram í Orkugarði í dag, 23. október. Um 60 gestir tóku þátt og hlýddu á fyrirlestrana fimm. Við viljum koma á framfæri þökkum til fyrirlesara fyrir áhugaverð erindi og fundarstjóra fyrir dygga tímastjórnun og spurningar. Fyrirlesarar voru:

Björn Halldórsson framkvæmdastjóri Sorpu
María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins
Stefán Þór Kristinsson, efnaverkfræðingur hjá EFLU verkfræðistofu
Auður Nanna Baldvinsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri hjá Landsvirkjun og stjórnarformaður Grænu orkunnar
Guðmundur B. Friðriksson, skrifstofustjóri Skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg

Fundarstjóri var Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Grænni byggðar.

Hér fyrir neðan má nálgast upptöku frá viðburðinum.

 

Viðburður 23. október: Hvað á að gera við metanið?

Græna orkan, Grænni Byggð og Orkustofnun standa fyrir hádegisviðburði sem ber yfirskriftina “Hvað á að gera við metanið?” miðvikudaginn 23. október.

Ræddar verða leiðir til að auka nýtingu metans hér á landi, og hlutverk þess í orkuskiptum, ekki síst í ljósi fyrirhugaðrar aukningar í framleiðslu þess með tilkomu gas- og jarðgerðarstöðvar Sorpu.

Fyrirkomulagið með örlítið öðrum hætti en verið hefur. Húsið opnar klukkan 11:30 með léttum veitingum en formleg dagskrá er 12:00-13:30.

Dagskráin mun verða eftirfarandi:
Björn Halldórsson framkvæmdastjóri Sorpu
María Jóna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins
Hafsteinn Helgason, sviðsstjóri Þróunar hjá EFLU verkfræðistofu
Guðmundur B. Friðriksson, skrifstofustjóri Skrifstofu umhverfisgæða hjá Reykjavíkurborg

Fundarstjóri verður Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Grænni byggðar.

Fyrirlestrarnir fara fram í Orkugarði, Grensásvegi 9 en þangað ganga strætisvagnar númer 2, 3, 6, 14, 15, og 17 og yfirbyggð hjólageymsla er á bakvið húsalengjuna, við hliðina á Frumherja.
Viðburðurinn er öllum opinn og aðgangur ókeypis.

Tesla opnar þjónustumiðstöð á Íslandi

white car on asphalt road during daytime

Mynd: Taun Stewart @Unsplash

Nýjustu heimildir – rakleiðis frá Elon Musk á Twitter – herma að Tesla muni opna þjónustumiðstöð á Íslandi þann 9. september næstkomandi. Samkvæmt vef Tesla er einnig von á öflugum hraðhleðslustöðvum framleiðandans á þremur stöðum á landinu, við Kirkjubæjarklaustur, Egilsstaði og Staðarskála. Sjá frétt RÚV.

Kolefnisspor rafbíla 4-4,5x minna en fyrir bíla sem nota jarðefnaeldsneyti

Á grafinu sést hvernig fótspor bensín- og díselbíla fer stigvaxandi ...
Í morgun kynnti Orka náttúrunnar niðurstöður innlendrar rannsóknar á kolefnisspori rafbíla við íslenskar aðstæður. Meðal helstu atriða skýrslunnar er að heildarlosun rafbíls, frá framleiðslu að 220 þúsund km akstri við íslenskar aðstæður, er 4-4,5 sinnum minni en heildarlosun bíla sem nota jarðefnaeldsneyti.
Græna orkan fagnar þessu framtaki – skýrslan er mikilvægt innlegg inn í umræðu um orkuskipti og skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum!
Sjá nánar um skýrsluna á vefsíðu ON og í umfjöllun á mbl.is.

Rafmagnsbílar þykja of hljóðlátir

Samkvæmt nýjum ESB reglum munu nýir rafbílar þurfa að gefa frá sér falskt vélarhljóð við vissar aðstæður. Þetta kemur til af því að rafbílar hafa valdið gangandi vegfarendum vandræðum, sér í lagi blindum og sjónskertum. Því munu rafbílar, frá og með árinu 2021, vera búnir búnaði sem gefur frá sér hljóð, sem líkir eftir hefbundnu vélarhljóði, þegar bílar bakka eða fara á minna en 19 kílómetra hraða á klukkustund.

Sjá nánar í frétt á vb.is og BBC.

Volvo og DFDS prófa sjálfkeyrandi trukka

Sænski bílaframleiðandinn Volvo hóf árið 2018 að þróa sjálfkeyrandi trukka en hefur nú tekið höndum saman með DFDS, dönsku ferju- og flutningsfyrirtæki, og hafið prófanir innan athafnasvæðis Gautaborgarhafnar. Mikael Karlsson hjá Volvo segir flutning með þessum hætti, með tækni sem ver lágmarks hávaða og engan útblástur, verða æ veigameiri í framtíðinni enda sé ávinningur tækninnar mikill, bæði fyrir atvinnugreinina og samfélagið í heild.

Sjá nánar í grein GreenPort og Venturebeat.com.

CRI undirritar samning um verksmiðju í Kína

Sindri Sindrason, Chief Executive Officer of CRI (left) and Xinshun Wang, President of Shuncheng Group (right) signed the agreement with Jin Zhijian, ambassador of the People’s Republic of China to Iceland in attendance.

Sindri Sindrason, Chief Executive Officer of CRI (left) and Xinshun Wang, President of Shuncheng Group (right) signed the agreement with Jin Zhijian, ambassador of the People’s Republic of China to Iceland in attendance.

Íslenska tækniþróunarfyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) hefur gert samning við kínverska efnaframleiðandann Henan Shuncheng Groupum að hanna verksmiðju byggða á tækni CRI til að framleiða umhverfisvænt eldsneyti og efnavöru í Kína. Verksmiðjan mun endurnýta um 150.000 tonn af koltvísýringi og öðrum útblæstri til framleiðslu á um 180.000 tonnum af metanóli og metangasi árlega.

Sjá nánar í frétt Viðskiptablaðsins og frétt á vefsíðu CRI.

Aðalfundur Grænu orkunnar

Aðalfundur Grænu orkunnar fór fram miðvikudaginn 10. apríl síðastliðinn. Á fundinum voru tveir nýir stjórnarmenn kjörnir sem munu sitja í tvö ár fyrir hönd atvinnulífsins en það voru þau Gunnar Valur Sveinsson, Samtökum ferðaþjónustunnar, og María Jóna Magnúsdóttir, Bílgreinasambandinu. Græna orkan býður þau velkomin til starfa og þakkar jafnframt Gunnari Páli Stefánssyni hjá Mannviti fyrir ánægjulegt samstarf undanfarin tvö ár.

Að loknum aðalfundinum hélt Erik Lorentzen, Norska rafbílasambandinu fyrirlestur um þróun rafbílavæðingar í Noregi og næstu skref hennar til framtíðar. Um 70 manns mættu á fyrirlesturinn en einnig var streymt frá fundinum í beinni útsendingu á Facebook. Hér má finna upptöku af fyrirlestrinum og hér má nálgast glærur Eriks á pdf sniðmáti.